AÐALFUNDUR HOLLVINAFÉLAGS AUSTURBÆJARSKÓLA

 

AÐALFUNDUR HOLLVINAFÉLAGS AUSTURBÆJARSKÓLA var haldinn 7. maí sl. Stjórn félagsins var endurkjörin. 

Formaður: Dagný Marínósdóttir.

Varaformaður: Pétur Hafþór Jónsson.

Gjaldkeri: Sigrún Lilja Jónasdóttir.

Ritari: Nína Magnúsdóttir.

Meðstjórnandi: Lára Ólafsdóttir.

Varamenn: Bragi Sigurðsson og Halldór Ástvaldsson.

Árgjald félagsins verður óbreytt, 2000 kr.

Unnið er að endurbótum á netfangalista félagsins. Þeir félagar, sem ekki fengu fundarboð í tölvupósti, eru beðnir velvirðingar á því. Einhverjir tæknilegir örðugleikar eru við vinnslu á heimasíðu félagsins, hollvinirausto.is , þó margt spennandi sé þar að finna. 

SKÓLAMUNASTOFAN verður opin nk. laugardag 28. maí frá kl. 10:00 - 13:00 í tengslum við vorhátíð skólans.

 

14. nóvember 2021

Nýlega barst Hollvinafélagi Austurbæjarskóla rausnarleg gjöf frá afkomendum Sæunnar Friðriksdóttur og Sigurmundar Gíslasonar. Þau voru vinir Stefáns Jónssonar, kennara og rithöfundar og konu hans, Önnu Aradóttur. Um er að ræða bækur eftir Stefán, sem hann og Anna færðu Sæunni og Sigurmundi að gjöf. Þær eru flestar áritaðar af Stefáni. Nokkrar bókanna eru merktar Margréti Rún, dóttur Sæunnar og Friðriks. Sæunn var bókbindari og batt inn nokkrar af þessum bókum. Gjöfinni fylgdi glósubók, sem Stefán skrifaði í námi sínu í Kennaraskólanum. 

Fyrir á Hollvinafélagið skrifborð Stefáns auk nokkurra persónulegra muna, s.s. félagsskírteina hans í Byggingarsamvinnufélagi kennara og Sósíalistafélagi Reykjavíkur. 

Þá var stjórn Hollvinafélagsins afhent gömul skólabjalla úr Miðbæjarskólanum, sem ónefndur gefandi bjargaði frá glötun.

 

STARFIÐ HAUSTIÐ 2021

Stjórn Hollvinafélagsins hittist af og til á laugardagsmorgnum og hugar að Skólamunastofunni. Vegna heimsfaraldursins er óvíst hvenær hægt verður að hafa opið hús. En hópar geta samið um heimsóknir.

 

LJÓSMYNDIR ÚR SÖGU SKÓLANS

Hollvinafélagið hlaut á síðasta ári 140.000 kr. styrk frá menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur vegna myndríkrar miðlunar á sögu borgarinnar. Styrknum hefur verið varið til kaupa á myndefni frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Myndirnar birtast á heimasíðu Hollvinafélagsins en verða einnig til sýnis í Skólamunastofunni þegar tilefni gefst til. Allar varpa þessar myndir ljósi á sögu Austurbæjarskóla. Stjórn Hollvinafélagsins kann menningar-, íþrótta- og tómstundaráði sem og Ljósmyndasafninu bestu þakkir fyrir styrkinn og myndirnar.

 

STARFIÐ VETURINN 2019-2020

Fyrsti formlegi fundur stjórnar Hollvinafélags Austurbæjarskóla 22. ágúst  2019 snerist um undirbúning fyrir opið hús á Menningarnótt. Fastir stjórnarfundir voru flestir á fimmtudögum en sumir á laugardögum. Þeir voru yfirleitt haldnir í Skólamunastofunni en stöku sinnum úti í bæ. 

Stjórn félagsins átti mikið samstarf við Borgarskjalasafn Reykjavíkur um að koma þangað gögnum sem þar eiga heima. Þann 6. febrúar sl. færði Hollvinafélagið Borgarskjalasafni sex kassa með ýmsum gögnum og skjölum og hefur þegið á móti 20 bls. lista yfir gögn frá skólanum, sem nú eru aðgengileg á Borgarskjalasafni. Einnig komu þrír fulltrúar Borgarsögusafns á fund með stjórninni 16. janúar sl. Þeim leist vel á Skólamunastofuna og mæltu með því, að munirnir yrðu skráðir sem fyrst. Borgarstjóri mælir líka með því, en hann hefur skoðað stofuna. Fundur var einnig haldinn með skólastjóra og fulltrúa Skóla- og frístundasviðs um framtíðarhorfur Skólamunastofunnar og var það góður og gagnlegur fundur.

 Það er markmið stjórnarinnar að vekja áhuga yfirvalda á því að koma upp fræðslusafni um grunnskólann í landinu. Skólamunastofa Austurbæjarskóla gæti verið fyrsta skref í þá átt. Viðmælendur okkar voru jákvæðir og áhugasamir.

Margir hafa heimsótt okkur í vetur; gamlir nemendur, sjónvarpsfólk sem og núverandi kennarar og nemendur vegna vinnu í sambandi við 90 ára afmæli skólans. Það átti að halda þann 23. maí, en hefur verið frestað til haustins. Fundahöldum félagsins var einnig frestað eftir 12. mars vegna veirunnar, sem gengur nú um heiminn eins og grár köttur, þar á meðal aðalfundinum sem átti að halda 30. apríl. Þess vegna þótti okkur við hæfi að gera nokkra grein fyrir vetrarstarfinu hér á síðunni.

Þann 16. maí sl. var svo loksins stjórnarfundur þar sem farið var eftir fyrirmælum sóttvarnarlæknis um fjarlægðarmörk eins og vera ber.

Ríkisskattstjóra voru í vetur sendar ítarlegar upplýsingar um núverandi skipan stjórnar Hollvinafélags Austurbæjarskóla, en félagið er með eigin kennitölu og er skráð í Fyrirtækjaskrá hjá RSK.

Vegna samantektar á sögu Austurbæjarskólans, sem birt er á heimasíðunni jafnóðum og hún er unnin, sótti stjórn Hollvinafélagsins um styrk fyrirmyndríka miðlun um sögu Reykavíkur”. Styrkurinn er til kaupa á 25 myndum frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. “Tilgangur styrkveitinganna er að hlúa að varðveislu menningararfleifðar Reykjavíkur og og hvetja til miðlunar á sögu hennar” segir í tilkynningu. “Hópur skipaður þremur sérfræðingum á menningar- og ferðamálasviði fer yfir umsóknir og gerir tillögu til menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs um val á umsækjendum.” Niðurstöður eiga að liggja fyrir í júnímánuði og verður greint frá þeim hér.

Jón Gunnar Sveinsson, stjórnarmaður í Hollvinafélaginu, andaðist þann 28. mars s.l. eftir erfið veikindi. Hans er sárt saknað. Jón Gunnar var ráðinn til skólans árið 1999. Væntumþykja hans í garð skólans, Hollvinafélagsins og Skólamunastofunnar var ósvikin.

Vonandi eru allir félagar í Hollvinafélagi Austurbæjarskóla við góða heilsu og tilbúnir að leggja félaginu lið með haustinu þegar tekið verður til starfa á ný. 

 

Með kærri kveðju.

Stjórn Hollvinafélags Austurbæjarskóla

AÐALFUNDUR HOLLVINAFÉLAGS AUSTURBÆJARSKÓLA

 

Aðalfundur Hollvinafélags Austurbæjarskóla 

verður haldinn í Skólamunastofu 

laugardaginn 7. maí klukkan 2.

 

Venjuleg aðalfundarstörf:

 

1. Fundarsetning

2. Skýrsla formanns

3. Skýrsla gjaldkera

4. Kosningar

5. Önnur mál.

 

Gengið inn frá Vitastíg.