FARFUGLAHEIMILI Í AUSTURBÆJARSKÓLANUM

 

Úr bókinni  “Á meðan ég man”, fyrsta bindi. Þriðja prentun 2018.

Höfundur: Guðrún L. Ásgeirsdóttir. 

 

Bls. 57.

  “Sumarið 1958 var ég farfuglamamma og passaði farfuglaheimilið í gamla Austurbæjarbarnaskólanum til skiptis við Helgu Þórarins og Steina farfugl. 

Ég var auðvitað í vinnunni líka, en fór í hádeginu og á kvöldin upp eftir til að taka á móti gestum, spjalla við þá og leiðbeina, taka við greiðslu og laga til. Þórarinn Sveinsson pabbi Helgu opnaði alltaf eldsnemma á morgnana fyrir gestunum, strákunum liggur mér við að segja, en fáar stúlkur voru á ferðinni alla þessa leið út til Íslands. Svo voru gestirnir læstir inni á kvöldin kl. 22, en sú regla var alls staðar í gildi, þar sem ég gisti seinna á farfuglaheimilum. Auðvitað var lykill þar inni, en í litlum glerskáp og varð að brjóta glerið til að ná honum. Ekki man ég eftir að það gerðist.

  Farfuglaheimilið var í norðurálmu gamla skólans og samanstóð af breiðum gangi og tveimur skólastofum, sem voru svefnpláss fyrir hvort kynið og voru þar margir hermannabeddar, járnrúm með gormum og dýnu, afar léleg. Eldunargræjur voru á ganginum og skolvaskur og stórt baðherbergi þar hjá. Engin þægindi af neinu tagi, koddar né handklæði eða slíkt. Þarna þótti mér gaman að vera, nota tungumálin mín þrjú og kennarahæfileikana, sem útleggst stjórnsemina. Urðu krakkarnir mörg pennavinir mínir og mörg komu heim í Ás og fluttu m.a.s. nokkur þangað, þegar heimilið lokaði fyrir skólabyrjun. Hótel Gunna kölluðu þau það, systkini mín og var aðdáunarvert, hversu gestrisnir foreldrar mínir voru við þessa flökkudrengi mína. Einkum reyndi á þetta síðara sumarið á farfuglaheimilinu.  ..........”

  “Einu myndirnar frá farfuglaheimilinu þetta fyrra sumar mitt þar eru teknar utan við skólann í júlí og voru þar með mér á myndunum franskir og ítalskir piltar. Einn þeirra hafði fengið að tjalda á grasflötinni neðan við skólann, Pierre, sem síðar fór til Grænlands......”

Bls. 74. (Sumarið 1959).

  “Næst er farfuglaheimilið á dagskrá, það þarf að fara að undirbúa skólastofurnar í Austurbæjarskólanum og lagfæra hin fátæklegu húsgögn. Við skúrum og skrúbbum og málum járnrúmin og vorum fleiri saman. Líklega hefur heimilið verið opnað 15. júní og þarf líka að ræsta mikið næstu vikurnar eftir að allt fyllist af fólki. Hef ég ekki dregið af mér við það og er það vandlega bókfært, en hafði líka mikla ánægju af því að passa heimilið, þ.e. hitta fólkið og vera með því og loka það inni á kvöldin, en Þórarinn Sveinsson opnaði alltaf á morgnana eins og sumarið á undan....

  Stundum komu stórir hópar til gistingar á farfuglaheimilinu, helst þá Þjóðverjar, og varð þá að sofa í flatsæng og var það þannig eftir komu Dronning Alexandrine 23. júlí að 42 gistu í einu. Jafnvel 51 þann 30. júlí. Það hefur þurft að skúra mikið þá.”

 

 

Í KREPPUNNI

Í Reykjavík varð mikið atvinnuleysi og fátækt. Til bjargar var tekin upp atvinnubótavinna og menn sendir austur yfir fjall í vinnu, sem hlaut nafnið Síberíuvinna. Menn fengu vinnu aðra eða þriðja hverju viku, ekkert þar á milli.

Þessi almenna fátækt hafði mikil áhrif á skólalifið. Börn voru klæðlítil, höfðu ekki skólabækur sem skyldi, ef til vill rifnar og úr sér gengnar bækur eftir eldri systkini eða lélegar bækur að láni. Stundum voru tvö systkini með dót sitt í einni tösku, þó að þau væru ekki í sömu stofunni bæði.

Veturinn 1934 voru tvær systur tíu og tólf ára í sama bekk í stofu ellefu. Þær voru fæddar í Noregi, en nýfluttar til landsins. Faðirinn var norskur verkamaður, en móðirin var íslensk. Honum hafði brugðist vinna hér og lifði á snapvinnu á eyrinni, var síðan sendur í Síberíuvinnu. Tíu ára telpan var fálát, oft döpur og sinnulaus. Henni gekk námið erfiðlega vegna málsins. Hún átti að vera í skólanum fyrir hádegi. Þá fór hún að skrópa í skólanum einn eða tvo daga í viku. Kennarinn spurði hana, hvers vegna hún hefði ekki komið í skólann, en hún gaf ekkert út á það og þagði.

Bekkjarsystkini hennar sögðu: - Hún Lilly er ekkert veik, hún var úti í morgun en kom ekki í skólann.

Systir hennar hristi höfuðið og þagði.

Næst þegar Lilly kom í skólann talaði kennarinn við hana einslega og sagðist hafa frétt, að hún hefði verið úti, en ekki komið í skólann. Lilly þagði og var auðsjáanlega hrædd við ávítur. Loks sagði hún:

Ég er að selja Fálkann.

Fálkinn var myndskreytt vikublað og vinsælt. - Færðu svolítið fyrir það? sagði kennarinn. - Já, dálítið. - Hvað gerirðu við aurana, sem þú færð í sölulaun? Hún var dauf og hrædd og horfði niður sig, er hún sagði: - Mamma fær þá til þess að kaupa mjólk fyrir litla barnið. - Fyrst svona er , sagði kennarinn, - skal ég gefa þér frí, þegar Fálkinn kemur út, svo að þú getir selt blaðið.

Hún leit upp og brosti með tárin í augunum. Það var í fyrsta skipti, sem kennarinn hafði séð bros í augum þessarar veiklulegu og klæðlitlu telpu. Nú var hún frjáls og seldi Fálkann allan daginn, sem blaðið kom út. Og það var eins og hún leystist úr læðingi, svo tók hún góðum framförum í náminu.

Gunnar M. Magnúss: Afmælisrit Austurbæjarskólans 1980 bls. 14.

 

SKÓLINN HERNUMINN

AÐFARARNÓTT 10. MAÍ ER ÍSLAND HERNUMIÐ af Bretum. Árla morguns leggur setuliðið hald á skólann.

Og rétt í þeim svifum óku nokkrir flutningabílar inn á leiksvæði skólans. Bílarnir voru hlaðnir teppaknippum, pokum og þá öðrum farangri. Alvopnaðir dátar stukku af bílunum, lögðu byssur sínar í raðir upp við skólaveggina og tóku að ryðja af bílunum. Varð nú samstundis fullkomið los á öllu skólastarfi. Framandi menn voru á svipstundu orðnir herrar stofnunarinnar að börnunum ásjáandi, og nokkrir kennarar fengu fyrirskipanir að ryðja stofur sínar í snatri. Þetta var fyrsta snerting hersins við íslenzk börn og fyrsti skólinn, sem tekinn var. Börnunum var sagt a halda heimleiðis og bíða frekari tilkynninga. Hófst þá samtímis tvenns konar flutningur í byggingunni. Kennarar roguðust með bækur og áhöld yfir svæði skólans úr norðausturálmu, sem herinn tók fyrst, - en dátarnir ýmist veltu, köstuðu eða handlönguðu pjönkur sínar inn, fyrst í fimleikasalinn. Í þessum hluta skólans voru nokkrar kennslustofur, eldhús skólans, saumastofa, fimleikasalur, teiknistofa, steypibaðklefar, salerni og geymslur.     

Þegar Bretar höfðu komið inn nokkru af farangri sínum, lituðust þeir um og spurðu forráðamenn skólans, hvar þeir mættu geyma kol, sem þeir kæmu með til upphitunar. – Kol – hingað þarf engin kol að flytja, þessi stofnun er hituð upp með vatni úr iðrum jarðar. – Ha! sögðu þeir aðkomnu og lyftust við, - það er ómögulegt, - slíkan skóla höfum við ekki í brezka heimsveldinu, - skyldu fleiri fara eftir þessu! Og þeir skrúfuðu frá krönum og vellandi laugarvatnið bunaði þóknanlega eins og hver vildi.                                                                          

Börnunum varð tafsamt í portinu á heimleiðinni. Þau hnýsnustu gerðust nærgöngul og vildu snerta á farangri. Var þeim þá stuggað burtu. Og innan stundar óku bílarnir á brott og hermennirnir flestir hurfu frá skólanum um sinn. Skólastarfsemin leystist þannig upp í skyndi í þessari skólastofnun. Hinir skólarnir voru svo teknir hver af öðrum, bæði barnaskólar og framhaldsskólar, þó ekki eins fyrirvaralaust.

Gunnar M. Magnúss: Virkið í norðri I. bindi bls. 95.   

 

FRÁSÖGN NEMANDA AF SKÍÐAFERÐ Á STRÍÐSÁRUNUM

Eftirfarandi frásögn ónefndrar stúlku hefur varðveist í gögnum skólans frá stríðsárunum:

Það var 4. apríl sem ég fór á skíði upp í skíðaskála ásamt þremur öðrum telpum. Við lögðum af stað kl. 10 um morguninn og fórum með Steindórsbílnum. Það fóru svo margir uppeftir, að það varð að troða sumu fólkinu í bílana, hverju ofan á annað. Svo var haldið af stað og við sungum svo mikið á leiðinni, að þegar uppeftir kom, vorum við orðnar rammhásar. 

Nú var stigið út úr bílunum og haldið á skíðin. Við fórum og skoðuðum skálann og fórum svo af stað upp eftir hlíðunum og renndum okkur þar og skemmtum okkur ágætlega. Svo um hádegi fengum við okkur að borða og hvíldum okkur dálitla stund. Svo fórum við á skíðin aftur.

Um kvöldið kl. 7 lögðum við af stað heim.

                                                               G.I.

 

AF HALLGRÍMI JAKOBSSYNI

Hallgrímur Jakobsson söngkennari mátti þola mikla stríðni á sínum kennaraferli. Nú á dögum yrði öll sú andstyggilega framkoma í hans garð kölluð einelti og ekkert annað. Hallgrímur var viðkvæm listamannssál og er minningu hans enginn sómi sýndur með því að rifja hér upp þau ósköp sem á honum dundu. Þó má hafa gaman að einu atviki, sem er í sjálfu sér sakleysislegt. Hallgrímur þótti róttækur í skoðunum. Hann bjó vestur á Hjarðarhaga ásamt Margréti konu sinni og börnum. Í húsinu bjó einnig góður og gegn sjálfstæðismaður ásamt sínu fólki. Samkomulagið milli þeirra var engu að síður býsna gott, enda sómafólk í báðum tilfellum, manneskjur sem létu ólíkar stjórnmálaskoðanir ekki spilla samskiptum sínum á nokkurn hátt. Yngsti sonur sjálfstæðismannsins, fimm ára gamall, fékk þó einhvern pata af því, að Hallgrímur væri kommi og að slíkum mönnum mætti stríða örlitið. Hann hringdi því dyrabjöllunni hjá söngkennaranum, sem kom sjálfur til dyra og fékk formálalaust að heyra eftirfarandi kviðling:

                                                                      Ó, Stalín bróðir besti

                                                                      og kommavinur mesti,

                                                                      æ breið þú blessun þína

                                                                      yfir Síberíu og Kína.

Ekki líkaði föðurnum þetta og fékk strákur bágt fyrir. En engin áhrif hafði þetta á samskipti fólks í húsinu. 

 

Eitthvert laugardagskvöld var sonur Hallgríms að fara út á lífið ásamt vini sínum. Þeir voru að gera sig klára í eldhúsinu á Hjarðarhaganum og létu ef til vill einhver gáleysisleg orð falla um kvenfólk, því Margréti, konu Hallgríms fannst ástæða til að leggja þeim lífsreglurnar. Hún sagði: - Hagið þið ykkur nú vel piltar, ég veit ekkert eins andstyggilegt og drukkna karlmenn, sem leggjast upp á konur og geta þeim barn. Er það ekki rétt, Hallgrímur minn? - Hallgrímur sat í mestu makindum og las sunnudagsblað Þjóðviljans. Hann leit sem snöggvast upp úr blaðinu og mælti: - Ef alltaf hefði verið farið eftir þessu, Margrét mín, er ég hræddur um að mannkynið væri útdautt.- Hélt svo áfram að lesa málgagnið.

Pétur Hafþór Jónsson skráði.

 

TÓNLISTARKENNSLAN

 

Hef verið að rifja upp hvernig tónlistarkennslunni var háttað í Austurbæjarskólanum meðan ég var þar. Hallgrímur Jakobsson kenndi söng og lék undir á píanó. Sérstök söngkennslustofa var í skólanum á þeim tíma. Síðan fór Hallgrímur að bjóða upp á blokkflautunám og vorum við nokkrir nemendur sem þáðum það. Þetta byrjaði sennilega hjá mér veturinn 1962-1963, og í minningunni voru þetta tímar utan hefðbundinnar stundarskrár. Námið var þónokkuð krefjandi og var meðal annars kennd tónheyrn, þar sem spiluð var laglína sem við áttum að skrá niður á nótum án hljóðfæris. Í þessa tíma fór að mæta maður sem kom akandi á vélknúnu þríhjóli, maður þessi tók þátt í kennslunni með Hallgrími og blés auk þess með okkur í undarlega flautu að okkur fannst, en ég man að mér þótti hljómurinn í henni meiri háttar. Sennilega var þarna á ferðinni altflauta, sem var eins og risavaxin blokkflauta, þarna var á ferðinni enginn annar en Sigursveinn D. Kristinsson. Veturinn 1963-1964 fór ég í gítarnám hjá Hallgrími, en í minningunni bjó hann í blokk vestur í bæ. Minning mín um Sigursvein er góð, hann hafði góða nærveru og var mjög barngóður. Hann sá einhverja músík í mér og hvatti mig til að læra meira. Veturinn 1965-1966 fór éfg í píanónám, sem hann stóð fyrir. Námið fór fram í heimahúsi við Njálsgötu frekar en Grettisgötu, man því miður ekki nafn kennarans. Um vorið tók ég próf heima hjá Sigursveini við Freyjugötu og var prófdómari enginn annar en dr. Hallgrímur Helgason. Þarna tel ég að hafi verið fyrsti vísir að Tónskóla Sigursveins, sem er starfræktur enn þann dag í dag.

Ártöl eru skráð samkvæmt mínu minni, sem er kannski orðið gloppótt.

 

Haraldur Þorsteinsson

 

AF TRYPPA SIGGU 

Börn eru snjöll á ólíkum sviðum og sjá oft hlutina í óvæntu ljósi. Jón E. Guðmundsson, brúðuleikhúsfrömuður og myndlistarmaður hafði auk teiknistofunnar til umráða litla stofu undir súð í norðurálmunni. Þar var brúðuleikhús skólans sællar minningar og þar átti þessi merki listamaður hreiður sitt. Þangað komu ýmsir snillingar á hans sviði, bæði Íslendingar og fólk frá öðrum löndum. Jón sagði mér, að eitt sinn hefði Jim Henson, upphafsmaður Prúðuleikaranna heimsótt sig þangað, en það er önnur saga. Fyrir jólin 1977 sömdu nemendur litla leikþætti, æfðu síðan og sýndu með leikbrúðum sem þeir höfðu búið til þá um haustið. Seinna var farið að kalla svona nokkuð skapandi skólastarf. Jón bað mig um að sjá um stutt tónlistaratriði til að flytja á milli þessara leikþátta. Ég tók því vel og hvarflaði ekki að mér að fara fram á einhverja greiðslu fyrir, enda hefði það þýtt lítið á þeim árum. Ég fékk til liðs við mig þrjá nemendur, 8 ára gamla Glódísi Gunnarsdóttur og systkinin Einar Aron og Ingveldi Pálsbörn, 8 og 10 ára. Við bjuggum þá öll í Þingholtunum og æfðum einhverju sinni á á laugardagsmorgni í mestu makindum og rólegheitum þarna uppi á loftinu.

Að lokinni æfingu urðum við samferða upp tröppurnar milli skólans og Spennistöðvarinnar. Þak hennar var grasi gróið og þar voru rónar bæjarins vanir að setjast niður þegar sólin fór að skína á vorin.  - Þá er vorboðinn ljúfi mættur - sagði gamansamur kennari einhverju sinni þegar kátur róni hóf upp raust sína þarna úti á grasinu og hávært skvaldur hópsins barst inn um opinn glugga á Kennarastofunni. En nú var vetur, vindurinn gnauðaði í gjánni á milli Austurbæjarskólans og Iðnskólans, grasið á Spennistöðinni löngu fölnað og farið að líða að jólum. Þess vegna varð ég undrandi, þegar ég heyrði skyndilega óvænt mannamál, eitthvað sem líktist háværum samræðum rónanna á björtum vordegi. Ég greindi ekki orðaskil í fyrstu, aðeins óljós hróp sem runnu saman við gnauðið í vindinum. Ég áttaði mig heldur ekki á því hvaðan hljóðin komu. En þegar við gengum fyrir hornið á skólanum blasti við okkur undarleg, óvænt og fjarstæðukennd sjón. Hér voru engir rónar á ferð, heldur lá gömul kona á hliðinni neðan við kantinn sem liggur milli Vitastigsins og skólans. Hún var á peysufötum sem blöktu eins og dökkur fáni í vindinum. Hún virtist hafa fokið fram af hárri brúninni, lá þarna bjargarlaus og hrópaði eins hátt og hún gat: - Ætlar einhver að hjálpa mér? Halló! Ætlar ekki einhver að hjálpa mér? -  Við hlupum til hennar og í sömu andrá birtist Sigurgeir Líkafrónsson dyravörður ættaður vestan af fjörðum. Þetta var beint fyrir utan dyrnar á húsvarðaríbúðinni þar sem hann bjó ásamt fjölskyldu sinni, svo það var stutt fyrir hann að fara.

Við stumruðum eitthvað yfir konunni áður en Sigurgeir rauk inn og sótti púða og teppi til að hlúa að henni. Hún virtist sárkvalin og var greinilega brugðið. Sigurgeir lagði púða alúðlega undir höfuð hennar áður en hann breiddi yfir hana teppi. - Þetta er allt í lagi - sagði sú gamla, eins og henni finndist of mikið fyrir sér haft, - ég er vön að brotna. - Ekkert okkar hafði svar á reiðum höndum við þessum óvæntu orðum hennar, svo hún endurtók þau, sagðist vera vön að brotna, þetta væri allt í lagi. Svo tautaði hún heilmikið um hvíta rottu sem sig hefði dreymt alla nóttina, þannig að hún hefði orðið þess fullviss, að eitthvað slæmt myndi gerast þennan dag og sú hefði nú orðið raunin. Sigurgeir hvíslaði að mér, að þetta væri Tryppa Sigga, þ.e. Sigríður Jóna Jónsdóttir, sem fræg varð um allt land þegar hún týndist á hálendinu í fimm daga árið 1963. Öll þjóðin fylgdist þá með leitinni að henni og varpaði öndinni léttar þegar hún fannst á lífi.

Sigurgeir, sem virtist miklu fljótari að hugsa heldur en ég undir þessum kringumstæðum, hljóp nú inn til að hringja á sjúkrabíl en konan hélt áfram að tala um hvíta rottu. Sjúkrabíllinn kom von bráðar með fíleflda sjúkraflutningamenn innanborðs. Nú var orðið nokkuð fjölmennt í kringum konuna en fljótlega var farið með hana á sjúkrahús. Hún var að öllum líkindum lærbrotin. Sigurgeir kvaddi og fór inn til sín með teppin og púðana. Það færðist ró yfir sviðið. Við stóðum þarna ein eftir ég og krakkarnir. Vindurinn gnauðaði sem aldrei fyrr. Börnin höfðu lítið lagt til málanna meðan á þessu stóð. En nú sagði Glódís Gunnarsdóttir upp úr eins manns hljóði: - Hvíta rottan, sem hana dreymdi í nótt, hefur áreiðanlega verið fyrir sjúkrabílnum. Ég gat ekki annað en jánkað því og fannst ég aftur svifaseinn í hugsun miðað við þá sem voru í kringum mig. Aldrei hefði mér dottið þetta í hug. En börn sjá oft hlutina í óvæntu ljósi, eins og ég hef áður sagt.

Þetta var í eina skiptið sem leiðir okkar Sigríðar Jónu Jónsdóttur lágu saman. Hún fæddist árið 1901 og hefur því verið 76 ára þegar þetta gerðist. Hún lét þetta ekki á sig fá, því hún lifði til ársins 1994. Það hefur verið seigt í þeirri gömlu.

Pétur Hafþór Jónsson

 

INDRIÐI HALLDÓRSSON

Austurbæjarskólinn rís eins og gamall kastali upp úr borgarlandslaginu, gríðarstór í augum þeirra sem í fyrsta sinn ganga í skóla, “lítil veröld, einn heimur með öllu” þegar inn er komið, líkt og segir í bók Þórunnar Valdimarsdóttur og Megasar, Sól í Norðurmýri. Í þessu reisulega skólahúsi sem reistur var af stórhug skömmu fyrir heimskreppuna miklu, starfa tugir manns, kennarar, gangaverðir, baðverðir, heilsugæslufólk, húsvörður, skólastjóri, kaffikonur, skólaliðar og þannig mætti lengi telja. Það er fólk af ýmsum stærðum og gerðum, ef svo má að orði komast. Flestir marka sér bás og inna starf sitt af hendi í aðskiljanlegum vistarverum víðs vegar um húsið og berast ekki á utan þeirra. Aðeins einn og einn er áberandi á göngum og í porti.

Haustið 1977 hóf Indriði Halldórsson störf sem gangavörður og setti fljótt svip á skólann. Hann var fremur lágur vexti en grannur og snaggaralegur og ákaflega snar í snúningum. Hann kom víða við og var flest betur gefið en að sitja kyrr og hafast ekki að. Á einum og sama morgninum mátti sjá hann hringja skólabjöllunni, kalla á eftir þeim sem ekki skiluðu sér í tíma að loknum frímínútum, hringla í stórri lyklakippu í kringum dyr og hirslur víðs vegar um húsið eða afgreiða glaðhlakkalegur drykkjarföng til nemenda sem fullir eftirvæntingar biðu mestu sælustundar skóladagsins, nestistímans. Matur er og verður mannsins megin. Starfsvettvangur Indriða var allur skólinn og ekki til sá nemandi, sem ekki þekkti hann með nafni. Yngstu börnin drógu oft þá ályktun af umsvifum hans og yfirferð, að þar væri sjálfur skólastjórinn á ferð. Önnur héldu, að nafnið Indriði væri starfsheiti líkt og drengurinn, sem kallaði ónefndan gangavörð feita Indriða til aðgreiningar frá hinum eina og sanna, sem hér er sagt frá. 

 Eiginkona Indriða var Áróra Halldórsdóttir, ein ástsælasta gamanleikkona þjóðarinnar, enda fylgdi honum ferskur blær glettni og léttleika. Gamanyrði hrutu af vörum hans og hann gat verið svo snöggur til svars, að stundum minnti á leiksýningu. Einu sinni sem oftar deildu tveir kennarar um skólamál á kennarastofunni og dró hvorugur af sér. Þegar öðrum þeirra þótti hinn taka of mikið upp í sig, spurði hann háum rómi: - Hver segir það? - Silli og Valdi - sagði Indriði, sem í sömu svifum geystist inn um vesturdyr kennarastofunnar og var svo horfinn á augabragði út um gagnstæðar dyr. Menn skelltu upp úr og létu deiluna niður falla. 

Kynslóðir koma og kynslóðir fara. Í huga þeirra, sem lokið hafa námi og horfið á braut, er skólahúsið fyrst og fremst rammi utan um minningar. Heimsókn á staðinn kallar fram eldgamalt ástand, eitthvað sem einu sinni var og aldrei kemur aftur nema í huganum. Þar lifir Indriði Halldórsson sprækur og hress, því í huga margra nemenda er Austurbæjarskólinn og hann nánast það sama. 

 

Pétur Hafþór Jónsson 1998. 

 

SUNDLAUGIN

Þegar Kjartan Magnússon varð formaður Skóla- og frístundaráðs kom hann í heimsókn í Austurbæjarskólann. Guðmundur Sighvatsson, skólastjóri gekk með honum um húsið og sýndi honum það helsta, enda skólinn afar merkileg bygging. Þegar þeir komu í sundlaug skólans stóð þar yfir kennsla. Guðmundur sagði Kjartani, að þarna væri allt í upprunalegu horfi, þarna hefði engu verið breytt frá 1930. Jú! - gall þá við í einum krakkanum ofan í lauginni, - það er stundum skipt um vatn. -  Svo öllu sé haldið til haga var sundlauginn tekin í notkun 2. júní 1933.

Efni birtist síðar. mmmm