Hér birtist þriðji hluti úttektar þar sem stiklað er á stóru yfir sögu Austurbæjarskólans. Efnið er tekið saman til skemmtunar og fróðleiks, er stöðugt í vinnslu og er engan veginn tæmandi. Þeim, sem hafa eitthvað við þetta að bæta, er velkomið að hafa sambandi við stjórn Hollvinafélagsins. Virðið höfundarrétt. Copyright © 2019 Pétur Hafþór Jónsson.

 

SKÓLASTJÓRATÍÐ ÁRSÆLS SIGURÐSSONAR 1965-1967

Ársæll Sigurðsson fæddist 1901 að Ljótarstöðum í Skaftártungu. Hann var málfræðingur, las íslenzku í nútímahljóðfræði við Háskóla Íslands 1942-1944 og lauk prófi. Hann var eftirlitskennari með islenzkukennslu í Austurbæjarskólanum. Rit hans: Orðalisti til notkunar við móðurmálskennslu í barnaskólum, Ritæfingar, Algengustu orðmyndir málsins og stafsetingarkennslua, Um tíðni orða o. fl. Ársæll var í stjórn námsbóka, einnig í forystu kennarasamtaka. Hann kenndi í skólanum frá 1938, var skólastjóri frá 1965-1967. Hann lézt 1970. Kona hans var Sigurbjörg Pálsdóttir frá Skammadal í Mýrdal.

 Gunnar M. Magnúss: Austurbæjarskólinn 1930-1980, Afmælisrit bls. 27.

 

 

 

                                  

Þessar námsbækur eftir Ársæl Sigurðsson koma út á 9. áratug síðustu aldar.

 

1965 -1966 JÓLASKEMMTANIR

JÓLASKEMMTANIR fara fram 16.-17.desember. Skemmtun 2. bekkjar fer fram föstudaginn 16. des. frá kl. 9:00-11:30, þar eru fimm bekkir í árgangi. Umsjónarkennarar eru Ragnar Kristjánsson, Guðríður Magnúsdóttir, Pétur Sumarliðason, Valborg Helgadóttir og Helga Dís Sæmundsdóttir.

Skemmtun 1. bekkjar stendur frá kl. 13:30 – 16:00, þar eru sex bekkir í árgangi. Umsjónarkennarar eru Dagný Valgeirsdóttir, Þórður Magnússon, Gunnar Sigurðsson, Sigurður Runólfsson, Valgerður Guðmundsdóttir og Ingibjörg Júlíusdóttir.

Skemmtun 5. bekkjar stendur frá kl. 16:30-19:00. Bekkjardeildir þar eru fimm talsins. Umsjónarkennarar eru Siguringi E. Hjörleifsson, Dagný Valgeirsdóttir, Valborg Helgadóttir, Stefán Jónsson og Hallfríður Þorkelsdóttir.

 

JÓLASKEMMTANIR AUSTURBÆJARSKÓLA laugardaginn 17. des. 1966. Kl. 9:00 – 11:30. Skemmtun 4. bekkjar:

 1. Almennur söngur. Hallgrímur Jakobsson stjórnar.
 2. Í garðinum. Leikþáttur 4. A. (Bekkur Þórðar Magnússonar).
 3. Lúðrasveit drengja. Páll Pamplichter stjórnar.
 4. Mjólkurdrengur og kaffidrengur. Leikþáttur 4. C. (Bekkur Gunnars M. Magnúss).
 5. Samlestur barna. 4. B. (Bekkur Hallfríðar Þorkelsdóttur).
 6. Leikþáttur 4. A.
 7. Hjá augnlækninum. Leikþáttur 4. C.
 8. Kórsöngur. Hallgrímur Jakobsson stjórnar.
 9. Lína sér um sig. Leikþáttur 4. F. (Bekkur Sveinbjarnar Markússonar).
 10. Kálfur til sölu. Leikþáttur 4. C.
 11. Hljóðfæraleikur.
 12. Samsöngur. Sigursveinn D. Kristinsson stjórnar.
 13. Við jólatréð.

Skemmtun 3. bekkjar stendur frá kl. 13:30 til 16:00 sama dag. Þar eru sex bekkjardeildir í árgangi. Enn fremur er haldin þennan dag skemmtun 6. bekkjar frá kl. 17:30 til 21:30. Þar eru fimm bekkir í árgangi.

 

MYNDASPJÖLD - MYNDVARPAR

 

 Kennslumyndaspjöld hafa verið til í Austurbæjarskólanum frá upphafi. En nú kemur fyrsti myndvarpinn í hús, Overhead projector nefnist veggsjá og síðar myndvarpi á íslensku.

 

KENNSLUTÆKI Í PÖNTUN VORIÐ 1966

 1. Overhead projector.
 2. Ljósriti.
 3. Efni í Overhead projector.
 4. Landakort (Ásg. Th.).
 5. 8 mm sýningarvél, skermur og filmur.
 6. Heilsufræðilíkön (Ásg. Th.).
 7. Reikningstæki.
 8. Grasafræði- og húsdýramyndir (Ásg. Th.).
 9. Reiknað m. brot.
 10. Fuglar, sbr. námskrá.
 11. Dybalsmyndir, 2 seríur.
 12. Íslandskort, 2 eint.

 

Sent Hr. Þórði Kristjánssyni, fulltrúa á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur. Undirritað af Ársæli Sigurðssyni, skólastjóra. 

 

 1966 -1967 FYRSTI MYNDVARPINN, "VEGGSJÁIN"

 

 

Skólinn eignast „veggsjá“ (overhead projector). Er þetta prýðilegt kennslutæki sem kennarar nota mikið. Einnig eignast skólinn handsnúinn sprittfjölritara.

Myndvarpi (Overhead Projector) er tæki til að endurkasta mynd af plastfilmu og stækka mikið á stuttu færi. Tækið getur verið við kennaraborð og kastað á töflu eða vegg, en kennari getur snúið að  nemendum.                                                                 

Filmurnar hafa hlotið nafnið glærur (transparencies), og eru þær lagðar ofan á tækið. Getur kennari síðan bent á einstök atriði myndarinnar eða teiknað á myndina eftir vild með sérstöku merkibleki, sem hægt er að strjúka burt síðar. Stundum er myndvarpinn með keflum fyrir rúllur úr gegnsæju plasti, sem draga má yfir myndflötinn og teikna á. Kennarar geta á þennan hátt búið til marvíslegt sýningarefni, en tilbúnar glærur fást í fjölmörgum námsgreinum.

Fræðslumyndasafn ríkisins: Leiðbeiningar um tækjakaup árið 1971.

 

Tákn tveggja tímabila, myndvarpar og sýnikennsluspjald.

 

GREIPUR SVEINSSON

Og í kennaraliði skólans voru allskyns snillingar … en mest lotning var þó borin fyrir gangaverðinum sem hét Greipur. Hann var vinsæll af börnunum, stór, glaður og góður kall; var alltaf með hendur fyrir aftan bak, klæddur ullarjakka með olnbogabótum; hann rigsaði um ganga skólans með camel í munnvikinu og var geysilega hávær og töff og stundum sýndi hann ungum lærisveinum trix með sígarettuna; án þess mannshöndin kæmi þar nærri snerist sígarettan á milli varanna þannig að skyndilega vísaði glóðin inn en strókurinn stóð út um hinn endann og svo varð önnur kollsteypa og enn á ný sneri glóðin út eins og ekkert hefði í skorist og allir drengir sem einhvern metnað höfðu fundu í hjarta sínu að þeir skyldu sko reykja þegar þeir yrðu stærri.

Einar Kárason: KK Þangað sem vindurinn blæs bls. 58.

 

 SKÓLASTJÓRATÍÐ EINARS M. ÞORVALDSSONAR 1967-1968

Einar M. Þorvaldsson fæddist 1905 á Völlum í Svarfaðardal. Hann var skólastjóri í Hrísey og kennari á Akureyri, kennari í Reykjavík, fyrst við Melaskólann, síðan við Austurbæjarskólann, fyrst yfirkennari í veikindum Ársæls Sigurðssonar og skólastjóri frá 1967 - 1968. Hann hafði kynnt sér skólamál í Svíþjóð.

Gunnar M. Magnúss: Austurbæjarskólinn 1930-1980, Afmælisrit bls. 27.

 

 

 

Að lokum minntist Hannes (M. Þórðarson) Sigurðar Thorlacius sem hins víðlesna hugsjónamanns, er studdi við bak kennaranna, þegar þeir vildu koma einhverju nýju og nýtilegu að til framfara í starfi sínu. Hann taldi, að Einar Þorvaldsson væri einhver bezti yfirmaður, sem skólinn hefði haft eftir daga Sigurðar. Hann væri maður framkvæmda og alltaf boðinn og búinn til hjálpar. En hér þyrfti samstarf allra, eina heild. Allir þyrftu að keppa að því marki að gera menn úr börnunum.

Siguringi E. Hjörleifsson: Úr fundargerð kennarafundar 28. september 1967.

 

1967 - 1968

Unglingadeildir 10 og nemendafjöldi 252. 8. BEKKUR (sama og síðar var kallað 9. bekkur) starfræktur skólanum í fyrsta sinn. NEMENDAFÉLAG stofnað. MENGJAREIKNINGUR tekinn upp í tveimur deildum. Mikil UMFERÐARFRÆÐSLA vegna fyrirhugaðs H-DAGS. JÓLABALL … Þetta var mjög skemmtilegt ball, og allir í ofsa stuði, nema kennararnir, því þeir neituðu hverjum dansinum á fætur öðrum … ÁRSHÁTÍÐIN 1968 var haldin í TEMPLARAHÖLLINNI. Hljómsveitin ÓÐMENN lék fyrir dansi ásamt hinni nýju söngkonu Shady Owens ... Miðvikudaginn 22. maí var farið í hið svokallaða skólaferðalag … var farið að stað austur að Selfossi. Var stoppað þar dálítið lengi og fóru sumir að skoða sig um eða settust að snæðingi, eins og t.d. kennararnir.

Heimild: Gjörðabækur Nemendafélags Austurbæjarskóla.

 

HÆGRI UMFERÐ 26. MAÍ 1968

 

                 

 

Mikil umferðarfræðsla fer fram skólaárið 1967-1968 vegna fyrirhugaðs H-dags 26. maí 1968. Þá skiptu Íslendingar úr vinstri umferð yfir í hægri umferð. 

 

TÖLUR OG MENGI

 

 

 Mengjareikningur tekinn upp í tveimur deildum. 

 

SKÓLASTJÓRATÍÐ FRIÐBJARNAR BENÓNÝSSONAR 1968-1973

Friðbjörn Benónýsson fæddist 1911 í Laxárdal í Strandasýslu. Hann stundaði nám í uppeldisfræði í Svíþjóð 1945-1947, cand. fil. frá Háskóla Stokkhólms 1946, I. stigs próf 1947. Hann var kennari við skólann 1937-1938. Skólastjóri frá 1968 til dd. 1973.

Gunnar M. Magnúss: Austurbæjarskólinn 1930-1980, Afmælisrit bls. 28.

 

Friðbjörn Benónýsson er fjölhæfur maður. Hann hefur verið prófdómari í handavinnu drengja, þykir góður skákmaður og vill gera skákíþróttina að skyldunámsgrein upp að vissu marki. Hann beitir sér fyrir breytingum á skólahúsnæðinu.

 

 

Þótt Friðbjörn væri ekki skólastjóri Austurbæjarskólans nema fá ár, var hann nú þegar búinn að gera veigamiklar breytingar og lagfæringar á húsnæði skólans. Voru þær einkum miðaðar við þarfir nemenda og bætta vinnuaðstöðu fyrir kennara. Má þar fyrst nefna skiptingu húsnæðis fyrir barna- og gagnfræðastig eftir því sem hægt var, stækkun söngstofu um helming, hátalarakerfi í kvikmyndasal, aukna aðstöðu fyrir hjálparkennslu og síðast en ekki síst, sérstaka vinnustofu fyrir kennara, fyrir utan kennslutæki o.fl. o.fl. Einnig var hann öll árin búinn að berjast fyrir að áframhald yrði á framkvæmdum við neðri leikvöll skólans, þar er m.a. slysahætta, vegna þess að knattspyrnuvöllurinn er í halla niður að Barónsstíg, sem er eins og allir vita mikil umferð um. Þetta verk er enn ekki hafið og þótti skóllastjóra það mjög miður. Margar fleiri endurbætur hafði hann í huga, en tíminn, sem honum var ætlaður var ekki lengri og þótt nokkuð hefði áunnist, fannst honum margt ógert, sem hefði þurft að vera búið fyrir löngu síðan að fá gert. 

Sigþór Lárusson: Íslendingaþættir Tímans 24. janúar 1974. 

 

 Ragnar Kristjánsson smíðakennari. Ártal óvíst.

 

1968 – 1969

 

NEMENDAFÉLAG GAGNFRÆÐADEILDAR AUSTURBÆJARSKÓLA SKÓLAÁRIÐ 1968-69

Gerðabók nemendafélagsins greinir frá mörgu markverðu sem fram fer skólaárið 1968 til 1969. 

Í ritnefnd sitja Haraldur Jónsson (formaður), Bjarki Þórarinsson, Ragnheiður Thorlacius, Bjarni Guðmundsson og Jón Viðar Jónsson. 

Stjórn nemendafélagsins er þannig skipuð: Formaður: Jón Ingvar Ragnarsson. Gjaldkeri: Þórarinn Benediktz. Ritari: Kristján Guðmundsson. Meðstjórnendur: Hörður Kolbeinsson og Gísli Sighvatsson. Umsjón: Arnfinnur U. Jónsson.

Íþróttanefnd: Formaður; Gísli Guðmundsson. Meðstjórnendur: Elin Þorvaldsdóttir, Helgi Kjærnested, Grímur Sæmundsen, Sverrir Ögmundsson. Umsjón: Jón Marteinsson.

Meðal íþróttaviðburða skólaársins er sundmót skólanna, þar sem skólinn sendir tuttugu manna sveit til þátttöku í boðsundi drengja og hafnar hún í 6. sæti. Haldið er skólamót í handbolta og lið sent til þátttöku í Skákkeppni skólanna, sem Æskulýðsráð stendur fyrir. Loks má nefna keppni í langstökki, hástökki og þrístökki. Keppt er án atrennu. Sigurstökkin mældust 1,45 m í hástökki, 7,45 m í þrístökki og 2,45 m í langstökki.

Skemmtinefnd: Formaður: Helga Þórarinsdóttir. Meðstjórnendur: Gunnar Guðmundsson, Pétur Sverrisson, Sigríður Magnúsdóttir, Andrés Magnússon. Umsjón: Alfreð Eyjólfsson.

 

SKÓLABÖLLIN

Fyrsta ball vetrarins var haldið þann 7. nóvember og var beðið eftir því með  mikilli eftirvæntingu og var því nokkuð fjölmennt. Hljómsveitin TRIX lék fyrir dansi. Ballið hófst um hálf átta en því lauk um hálf tólf og var það því með lengra móti.

Laugardaginn 23. nóvember var haldið plötuball í skólanum. Það hófst um kl. 3 síðdegis. Framan af var lítið dansað en smátt og smátt færðist fjör í leikinn. Það var frjáls klæðnaður og tóku nemendur því fegins hendi ef dæma má eftir klæðaburði þeirra. Allir virtust skemmta sér vel þó að ekki gætu allir státað af því að hafa dansað mjög mikið. En þegar allt var loks komið í fullan gang var ballið búið og var það kl. rúmlega 18.

Jólaskemmtunin var haldin föstudaginn 20. desember. Fyrst var haldið niður í bíósal. Þar fóru fram ýmis skemmtiatriði. Fyrst flutti Sr. Ragnar Fjalar jólahugvekju og sungnir sálmar. Þá kom leikritið Sambýlingur, sem nokkrir nemendur úr II-A fluttu. Næst komu leikritin Í kennslustund og Olnbogabarn. 2. þátt leikritsins Piltur og Stúlka fluttu nemendur úr II-B. Að lokum var svo spurningakeppni.

Eftir það var ballið. Mikið var dansað, meira að segja fengust nokkrir kennarar út á gólfið. Allir fengu gefins epli og þykir það mjög rausnarlegt. Hljómsveitin POPS lék fyrir dansi. 

Skemmtunin byrjaði klukkan 6 og voru víst allir búnir að fá nóg eftir 6 tíma eða klukkan tæplega 12 þegar ballinu lauk.

Fimmtudaginn 6. febrúar var haldið ball og það fyrsta eftir jól. Menn mættu misjafnlega en það er eflaust vegna þess að einkunnirnar voru afhentar þennan dag. En það lagaðist fljótlega og komust allir í gott skap á ballinu. Hljómsveitin LOST lék fyrir dansi. Tveir af meðlimum hennar eru nemendur í II-B í Austurbæjarskólanum. ÞAð var óvanalega heitt í salnum og kemur það bezt fram í því, að söngvari hljómsveitarinnar var orðinn ber að ofan þegar verst lét. 

Ballið hófst klukkan 8 en því lauk klukkan rúmlega 11. Allir skemmtu sér víst vel og sumir dönsuðu mikið.

Árshátíðin var haldin þann 19. marz í Lídó, sem nú heitir reyndar Tónabær. Hljómsveitin Flowers lék fyrir dansi og var hún nýlega kosin næst bezta hljómsveitin á landinu. … Þegar búið var að dansa nokkurn tíma, var gert hlé meðan nokkrar námsmeyjar sýndu Go Go. Einnig söng Kristín Ólafsdóttir nokkur lög. Árshátíðin hófst klukkan rúmlega niu og henni lauk klukkan eitt eftir miðnætti.

 

SKÓLAFERÐALAG

Austo_edited.jpg

 

Vorferð gagnfræðadeildarinnar. Myndin er tekin undir Hafnarfjalli. Talið frá vinstri: Björn Birnir, Jón Marteinsson, Alfreð Eyjólfsson, Arnfinnur Jónsson, kona sem ekki hefur enn tekist að bera kennsl á og Ingimar Ingimarsson bílstjóri. Myndasmiður: Guðni Albert Jóhannesson, f. 1951.

Föstudaginn 23. maí var farið í skólaferðalag. Klukkan 9 um morguninn voru allir mættir með nesti og annan útbúnað. Allur hópurinn, nemendur, kennarar og annað fylgdarlið tók heila þrjá langferðabíla. Fyrsti áningarstaður var eins og venjulega sjoppa. Flestir fengu sér eitthvað hressandi en hinir fóru að mótmæla við herstöð varnarliðsins í Hvalfirði. Næst var stanzað við Saurbæjarkirkju og hún skoðuð vel og vandlega. Presturinn útskýrði, hinir hlustuðu. Síðan lá leiðin um Leirársveit og Melasveit, fyrir Hafnarfjall og í Borgarnes. Það var eins og allt væri dautt þar, ekki  nokkur sála á ferli. Það var ekki fyrr en rétt áður en lagt var af stað þaðan, að fólk sást gægjast út um gluggana til að sjá hvaða lýður þetta væri. 

Áfram var haldið upp í Stafholtstungur og yfir Norðurá, en það tók heilar 10 mínútur að aka yfir hana vegna stærðar bílsins og smæðar brúarinnar. Næst var áð við Húsafell. Þar átti að vera fótboltavöllur en hann fannst hvergi og þó víða væri leitað. Þá varð að notast við óslétt tún, sem þar fannst. Kennarar stóðu sig víst nokkuð vel eftir efnum og ástæðum að sögn þeirra, er sáu leikinn. Stanzað var við Hraunfossa og Barnafossa og allir virtu fyrir sér hið stórbrotna landslag. Síðan var haldið heim á leið og komið að skólanum klukkan tæplega 12 á miðnætti. 

Gjörðabók Nemendafélags Gagnfræðadeildar Austurbæjarskóla. Skólaárið 1968-69.

 

HÁTÍÐ FER AÐ HÖNDUM EIN

Sigursveinn D. Kristinsson, sá er Tónskólinn var síðar kenndur við, er bundinn hjólastól. En Greipur Sveinsson gangavörður ber hann jafnan upp tröppurnar og inn í skólann, þar sem Sigursveinn kennir stundum söng og blokkflautuleik. Haustið 1968 biður Sigursveinn fyrrum kennarann, Jóhannes úr Kötlum að yrkja ný erindi við gamalt viðlag sem hann hefur nýlega útsett. Það er reyndar ekki í fyrsta skipti sem þeir vinna saman.

Ljóðin í Fuglakantötunni átti Jóhannes í fórum sínum þegar Sigursveinn D. Kristinsson bað hann um að yrkja fyrir sig við litlu þjóðvísuna:

                                                       Sat ég undir fjallinu fríða,

                                                       heyrði fagran fuglasöng um dægur löng.

                                                       Ekki reikaði hugur minn þá víða.

Urðu þjóðvísan og smákvæði Jóhannesar efni í Vorkantötu Sigursveins árið 1968. Skömmu síðar leitaði Sigursveinn aftur til Jóhannesar með þjóðvísu, nú með gamalt viðlag sem Jón Ólafsson frá Grunnavík skrfaði í orðabók sína á 18. öld:

 

                                                       Hátíð fer að höndum ein,

                                                       hana vér allir prýðum.

                                                       Lýðurinn tendri ljósin hrein,

                                                                  líður að tíðum,

                                                                  líður að helgum tíðum.

 Vil þetta erindi orti Jóhannes fjögur ný og hefur þessi jólasálmur birst í Vasasöngbókinni og kennslubók í tónmennt fyrir 5. bekk.

                    Silja Aðalsteinsdóttir: Eftirmáli að 9. bindi ljóðasafns Jóhannesar úr Kötlum, Barnaljóð bls. 156.

 

 FUNDUR Á KENNARASTOFUNNI - LÍFIÐ Í SKÓLA MEÐ 807 NEMENDUM

Jónas B. Jónsson, fræðslustjóri situr kennarafund þann 16. janúar. Alfreð Eyjólfsson formaður kennarafélagsins stjórnar fundi. Margt ber á góma.

 

LESHJÁLP - HJÁLPARBEKKIR - BÖRN ÚR BREIÐHOLTINU ERU Í  AUSTURBÆJARSKÓLANUM

Sveinbjörn Markússon ræðir leshjálp og hjálparbekki, þróun lestrarnáms sjö ára barna og þann vanda kennarans að hjálpa seinfærum börnum. Telur hann að sérmenntaðir kennarar muni í framtíðinni fást við leshjálp. Hann víkur því næst máli sínu að Austurbæjarskólanum. Þar hafi sl. vetur verið varið átta kennslustundum til þessa verkefnis. Nú hefði nemendum hins vegar fjölgað mjög, þar eð öll skólaskyld börn úr BREIÐHOLTSHVERFI væru í Austurbæjarskólanum. Hann nefnir síðan svonefnda hjálparbekki með fimmtán nemendur að hámarki, sem sér hefði verið tjáð að starfi í sumum skólum borgarinnar. Þannig viðurkenni margir skólastjórar aðstöðu kennara í verki, þó ekki væri ákveðið hvernig velja skyldi nemendur í slíka bekki. Fræðslustjóri telur að vanda þurfi valið vel en að fækka þurfi hjálparbekkjum en auka stuðningskennslu. Allnokkrar umræður verða um málið.

 

HEIMANÁM - NIÐURRÖÐUN Í BEKKI - VERÐLEIKAR KENNARA OG SAMSTARF ÞEIRRA Í MILLI

Fræðslustjóri segir að 807 börn séu nú í Austurbæjarskólanum, þar af 209 sem ekki verða næsta vetur. Fundarmenn telja margir að heppilegt sé að hafa börn á líku þroskastigi saman í bekk. Hannes M. Þórðarson segir að Danir hafi orðið að hverfa frá því að skipta börnum niður í bekki eftir námsgetu vegna áhuga foreldra á því í hvernig bekk börn þeirra væru. Það kom einnig fram í máli Hannesar, að hann hefði fyrir tuttugu árum lagt niður heimanám hjá sínum nemendum. Síðar á fundinum segir Hannes, að hér njóti enginn kennari álits nema hann sýni sérstaka verðleika. Kennarar verði að hafa álit foreldra, vináttu og traust verði að ríkja milli þessara aðila. Þá vill hann samstarf milli kennara hvers bekkjar, þannig að hægt sé á foreldradegi að gefa foreldrum upplýsingar um sérgreinar líka.  

 

 

LEIKVÖLLURINN                               

Alfreð Eyjólfsson ræðir um leikvöll skólans. Fyrir nokkrum hafi verið gerður fótboltavöllur sem snýr frá austri til vesturs. Ber hann fram ósk um annan völl með varanlegu slitlagi. Spyr hvort hægt sé að fá gerða einn til tvo handboltavelli og tvo körfuboltavelli. Björn Birnir nefnir að laga þurfi handrið við Spennistöð vegna slysahættu.

 

AKSTUR MEÐ SKÓLABÖRN ÚR BREIÐHOLTI OG BLESUGRÓF 

Pétur Sumarliðason ræðir flutning barna úr Breiðholti og Blesugróf í Austurbæjarskólann. Hann hefur eftirlit í ferðum skólabíls fjórar ferðir á dag. Hann hafi talið liðlega 100 börn úr vagninum í hádegisferð. Sæti eru fyrir 32-34! Þá nefnir hann, að sum börn þurfi að vakna óvenju snemma eða fyrr en algengt er um fólk, sem fer til vinnu að morgni. Þá vill hann fá hljóðnema í bílinn.

 

 September 1963. Ljósmyndari: Bragi Guðmundsson. 

 

VINNUAÐSTAÐA KENNARA OG SÖNGSTOFA

Pétur Sumarliðason hefur orðið áfram og ræðir vinnuaðstöðu fyrir kennara, stofa 10 væri talin heppilegust í því skyni. Fleira er rætt á fundinum. M.a. segir Hallgrímur Jakobsson að söngstofu vanti í skólann. Alfreð Eyjólfsson segir, að söngstofunni hafi verið skipt í tvennt. Fræðslustjóri telur húsnæði nægilegt til að hægt sé að taka í notkun stærri söngstofu. (Því má skjóta hér inn, að það er fljótlega gert og er þar kenndur söngur og tónmennt til 1996. En vel má sjá á gólfdúknum að þar hafa áður verið tvær skólastofur.)

 

ÚTISALERNIN

Guðrún Árnadóttir, hjúkrunarkona skólans nefnir að útisalernin séu allsendis ófullnægjandi og telur þau raunar langt fyrir neðan virðingu og velsæmi. 

 

 Nóvember 1953. Salerni skólans. Ljósmynd: Sigurhans Vignir. 

 

MENGJAREIKNINGUR OG FLEIRI NÝJUNGAR

Jónas B. Jónsson segir skólann standa frammi fyrir nýjum þáttum, t.d. mengjareikningi og tungumálakennslu í tíu og ellefu ára bekkjum. Jónas telur einnig að flytja þurfi sumt námsefni tíu til tólf ára barna niður í sjö til níu ára bekkina.

 

1969-1970  MIÐBÆJARSKÓLINN LAGÐUR NIÐUR

Árið 1969 er MIÐBÆJARSKÓLINN lagður niður. Margir nemendur og kennarar þess skóla flytjast í Austurbæjarskólann. Þar má nefna brúðuleikhúsmanninn og teiknikennarann Jón E. Guðmundsson. Meðal annarra má nefna Sigfús Sigmundsson sem tekur við skólabókasafninu, Ólaf F. Hólm, Jóhönnu Þorgeirsdóttur og Hjalta Jónasson verðandi skólastjóra, Elínu Sigurvinsdóttur leikfimikennara og Ragnheiði Pálsdóttur sundkennara. 

 

                                                                                                                                                                 

Ingibjörg Erlendsdóttir er einn þeirra kennara sem koma úr Miðbæjarskólanum. Minningar margra nemenda frá þátttöku í jólaskemmtunum Austurbæjarskólans tengjast Ingibjörgu, því hún sminkaði yfirleitt leikarana áður en þeir stigu á svið. Einnig gætti hún búninga og ýmissa leikmuna á milli ára. 

 

Ragnheiður Pétursdóttir, ein þeirra sem koma úr Miðbæjarskólanum. Móðir hennar, Steinunn Bjartmars, kenndi lengi við Austurbæjarskólann.

 

SKÓLALÍFIÐ 1970

 

 Umhverfi skólans 1970. Turninn á Hallgrímskirkju, Gagnfræðaskóli Austurbæjar, síðar Vörðuskóli. Spennistöðin og örfá farartæki á bílastæðinu. Takið eftir því hvernig fótboltamarkið snýr.

 

8. bekkur Arnfinns Jónssonar. Arnfinnur verður síðar fyrsti formaður Hollvinafélags Austurbæjarskóla.  Hann er gamall nemandi og skyldur Arnfinni Jónssyni skólastjóra. Arnfinnur ungi er hann stundum kallaður til aðgreiningar frá frænda sínum skólastjóranum. Amma Arnfinns unga var systir skólastjórans og bjó í skólanum.

  

Kennslustund.  Fallegar munstraðar peysur eru algengar á þessum árum.

 

Gunnar Sigurðsson, síðar skólaritari, segir nemanda til. Gamall skápur við hlið hans. Honum til vinstri handar er veggskápur (sést ekki á myndinni). Þar eru lýsispillurnar geymdar. Sagan segir, að eitt sinn hafi drengur nokkur falið sig inni í þeim skáp í frímínútum og gleypt allar lýsispillurnar. Það fylgir sögunni, að honumhafi aldrei orðið misdægurt síðan.

 

 

 Leikfimi drengja hjá Þórði Pálssyni. 

 

1972-1973  - BRJÓSTMYNDIN AF AÐALSTEINI SIGMUNDSSYNI

 

 

Greint er frá því á aðalfundi Kennarafélags Austurbæjarskólans þann 20. nóvember, að Þórður Pálsson, kennari og stjórn félagsins hafi látið steypa gipsmynd þá, sem til er af Aðalsteini Sigmundssyni í varanlegt efni. Var sú afsteypa gerð í Noregi. Sem svar við fyrirspurn frá Alfreð Eyjólfssyni gat Magnús þess, að séð hafði verið fyrir fjárhagshlið þessa máls.  Í fráfarandi stjórn sitja Jón E. Guðmundsson, Jenný Birna Ingólfsdóttir og Magnús Þórðarson. Varamenn eru Jón Marteinsson, Margrét Guðmundsdóttir og Þórður Magnússon.  Eftirfarandi frásögn af styttu þessari birtist í fundargerð kennarafundar frá 3. desember 1971:

Fundarstjóri, Þórður Pálsson bauð orðið laust. Enginn kvaddi sér hljóðs. Þórður óskaði þá eftir að fá að segja nokkur orð. Hann kvað svo mál með vexti, að til væri stytta af Aðalsteini Sigmundssyni. Ættingjar Aðalsteins hafa nú í samráði við Þórð, ákveðið að afhenda Austurbæjarskólanum þessa styttu, en þar sem hún er aðeins gerð úr gipsi þarf að steypa hana í eir. Það fæst gert í Noregi og kostar 20 - 30 þús. kr. Þórður kvað hjúkrunarkonu skólans hafa á s.l. hausti afhent sér kr. 3.500. - í þessu skyni. En meira fé þarf og hvernig á að afla þess? Hjalti Jónasson lagði til að þær 7000 krónur sem hefðu verið afgangs kaffistofunni á s.l. vetri gengju í þetta og ef ríflega væri innheimt í vetur fyrir kaffi gætu verið komnar kr. 2000 í vor. Þessi tillaga Hjalta var samþykkt samhljóða.

Þá kvað Sigurður Runólfsson vera til kr. 1600.00 afgangs af afmælishófinu í vor og var samþykkt að sú upphæð gengi einnig til þessa verks. Samþykkt að fela stjórninni að vinna að framkvæmd í samráði við Þórð Pálsson.

Ingibjörg Erlendsdóttir: Fundargerð kennarafundar 3. desember 1971.

 

ELDGOS Í HEIMAEY

 

 

ELDGOS Í HEIMAEY 23. janúar. Íbúar flýja upp á land, flestir með bátum Eyjamanna. Tekið er á móti þeim í 5 skólum í Reykjavík. Í Austurbæjarskólann koma 10-12 rútur af fólki, á að giska 400 manns og fá þar mat og húsaskjól. Stórt veggteppi unnið til minningar um þennan atburð. Margar hendur komu að því verki.

 

 

Fyrsta skráning Eyjamanna þegar þeir komu á fastalandið í gosinu fór fram í skólum: Árbæjarskóli 497, Austurbæjarskóli 626, Hamrahlíðarskóli 680, Langholtsskóli 36, Melaskóli 716, Sjómannaskólinn 945, Vogaskóli 377, sjúkrahús og elliheimili 339. Á þriðja hundrað karlar urðu eftir í Eyjum við björgunarstörf. Forstjóri Múlakaffis og skólastjóri Matsveinaskólans hófu undirbúning að matseld í skólunum. MS gaf hráefni, einnig Silli og Valdi og fleiri aðilar. Vélsmiðjan Héðinn bauð 1000 manns í mat í hádeginu. Mjólkursamsalan bauð 100 manns í hádegismat. Leigubílsstjórar óku Eyjamönnum til þeirra heimila sem stóðu þeim opin. 8 vélritunarkonur hófu að gera lista úr spjöldum frá skólunum klukkan 5 um nóttina til að sameina Vestmannaeyinga á einn lista. IBM kom síðar til aðstoðar að útbúa 3 lista eftir stafrófsröð, heimilisföngum í Eyjum og á fastalandinu.

Rútan okkar nam staðar fyrir utan Austurbæjarskólann í Reykjavík í morgunsárið … Kennslu hafði verið aflýst … en kennarar skólans stóðu sína vakt, tilbúnir að taka á móti óvæntum flóttamönnum frá Vestmannaeyjum.         

Við gengum inn um aðaldyrnar … Og þarna voru hlýjar og góðar móttökur. Inni í hverri skólastofu var kennari sem sá um að koma flóttafólkinu í sæti, með elskulegri og hlýlegri framkomu. Og innan stundar voru svo bornar fram veitingar, heit súpa með brauði og eitthvað fleira góðgæti. Ég man nú ekki gjörla hvernig matarlyst barnanna okkar var en mér þótti gott að fá eitthvað hlýtt í kroppinn eftir allan þennan barning.

Og seint mun ég gleyma þeirri ágætu konu sem tók á móti okkar fjölskyldu þarna í Austurbæjarskólanum. Hún sagðist heita Vilborg Dagbjartsdóttir og vera kennari þar. Yfirveguð og róandi framkoma hennar er mér enn í fersku minni. Hún sýndi okkur virkilega og sanna hluttekningu, hún hafði róandi og góð áhrif á börnin, sem á þessum tímapunkti voru reyndar farin að verða eilítið óróleg (og lái ég þeim það ekki). En þessi móttaka í Austurbæjarskólanum og kynnin við skáldkonuna og kennarann Vilborgu Dagbjartsdóttur líða mér seint úr minni.

Sigurgeir Jónsson: Gosnóttin 1973.  

                           

 

Veggteppi unnið til minningar um eldgosið í Heymaey hékk lengi uppi í andyri skólans.

 

SKÓLASTJÓRATÍÐ HJALTA JÓNASSONAR 1973-1979

Hjalti Jónasson  var fæddur (1927) og uppalinn á Flatey á Skjálfanda. Eftir stúdentspróf 1951, tók hann BA-próf  við Háskóla Íslands (mannkynssaga og landafræði). Kom til Austurbæjarskólans 1969, er Miðbæjarskólinn var lagður niður, yfirkennari skólans 1972-1973, skólastjóri frá 1973-1979. Kona hans er Jóhanna Þorgeirsdóttir kennari.

Gunnar M. Magnúss: Austurbæjarskólinn 1930-1980, Afmælisrit bls. 28.

 

 

1973-1974    BÓKSTAFURINN Z AFNUMIN. 

AÐKEYPTAR HLJÓMSVEITIR BANNAÐAR Á SKÓLABÖLLUM MEÐ OPINBERU BRÉFI FRÆÐSLUSKRIFSTOFU

Það er skammt stórra högga á milli. Árið 1969 leikur hljómsveitin Flowers, "næst besta hljómsveit landsins", á árshátíð unglingadeildar. En fimm árum síðar gerist þetta:

Fræðsluskrifstofa Reykjavíkur ákveður að aðkeyptar hljómsveitir megi ekki ráða á skólaskemmtanir, heldur skuli nota hljómflutningstæki og halda alla dansleiki nemenda innan veggja skólanna.

 

Bréfið er svohljóðandi:

 

  

1974-1975 - GRUNNSKÓLALÖGIN

Skyldunámstigið nefnist nú GRUNNSKÓLI. Gefin eru út lög þar að lútandi sem og námskrár í níu litlum heftum. Greinarnar fá ný heiti, svo sem samfélagsfræði, tónmennt, skólaíþróttir, mynd- og handmennt og heimilisfræði.

 

Tónmenntarhluti aðalnámskrár grunnskóla kemur út í ágúst 1976. Áður hafa komið út: Almennur hluti, móðurmál. erlend mál - danska og enska. Væntanlegar eru námskrár i eðlis- og efnafræði, heimilisfræði, kristinfræði, líffræði, mynd- og handmennt, samfélagsfræði, skólaíþróttum og stærðfræði.

 

                         

Kennslubækur í nýrri námsgrein: Samfélagsfræði.

 

                                              

Námsefni í stærðfræði sem kom út í tilraunaútgáfu frá 1972 - 1975.                            

1. útgáfa: 1977-1979. Margendurprentað eftir það. Hér er útgáfa frá 1997 - 1999.

 

ATHVARFIÐ

STARFSEMI ATHVARFS hefst í gömlu skólastjóraíbúðinni fyrir ofan kennarastofuna. Þar eru að jafnaði vistuð 16 börn vegna ýmis konar erfiðleika. Ósk um athvarfsvistun kemur ýmist frá foreldrum eða kennurum. Þann tíma sem börnin dvelja í athvarfi er reynt að hafa viss uppeldisáhrif á þau, sem miða að því að auka andlega og líkamlega vellíðan þeirra og gera þau færari um að njóta sín og ná sem bestum árangri í námi og góðum samskiptum við önnur börn.

 Úr greinargerð um Athvarfið frá 1990.

                      

 

 Starfsmenn athvarfs, Guðmundur Sighvatsson, Bára Björnsdóttir og Ólafur Hólm.

 

HEILBRIGÐISÞJÓNUSTAN UM 1975.

Heilsuverndarstöð Reykjavíkur sendir eftirfarandi erindi til foreldra og forráðamanna skólabarna:

Heilsuverndarstöð Reykjavíkur langar til að kynna foreldrum og forráðamönnum skólabarna, hvað gert er á vegum heilsugæzlu í skólum.

Heilsverndarstöð Reykjavíkur annast alla heilsugæzlu í skólum og allt starfsfólk, sem vinnur við hana er á vegum stöðvarinnar.

Almenn læknisskoðun fer fram, þegar börn hefja skólagöngu 6 ára, síðan 9 ára, 12 ára og 14 ára, á nemendum landsprófsdeilda og 4. bekk gagnfræðaskóla, auk þess á börnum úr öðrum aldursflokkum, ef sérstök ástæða er til. Önnur börn skoðar hjúkrunarkona.

Öll börn eru: vigtuð og hæðarmæld árlega

                   berklaprófuð                  -

                   sjónprófuð                     -

Heyrnarmæling fer fram á börnum 7, 9 og 12 ára.

Tannviðgerðir fara fram á öllum börnum 6-12 ára og tennur þeirra burstaðar úr fluor 3-4 sinnum á ári.

 

Eftirfarandi ónæmisaðgerðir fara fram:

 

6    ára gegn    kíghósta og barnaveiki

9     -       -      mænuveiki

12   -       -      bólusótt (endurbólusetning)

14   -       -      mænuveiki

auk þess er bætt úr því, sem á kann að vanta af ónæmisaðgerðum.

Heilbrigðisfræðslu annast hjúkrunarkona og læknir eftir því, sem við verður komið.

11-12 ára stúlkur fá fræðslu um kynþroskann og ætlunin er að hafa fræðslu um getnaðarvarnir fyrir 14 ára börn, þó er það ekki enn orðið almennt.

Lækningar eru ekki framkvæmdar í skólanum, en börnum vísað til heimilislæknis þegar ástæða er til. 

Ef slys hendir barnið, veita hjúkrunarkona eða kennari fyrstu hjálp. Ef þörf er á að barnið fari á slysavarðstofu, fer hjúkrunarkona eða kennari með barnið, ef ekki næst í foreldra, en æskilegast er, að foreldrar fari sjálfir með það og þess vegna þyrftu hjúkrunarkona og kennari alltaf að hafa símanúmer annars eða beggja foreldra, og þá þann síma sem hægt er að ná í þau, t.d. í vinnu.

Hjúkrunarkona og skólalæknir vilja hafa góða samvinnu við börnin og fjölskyldur þeirra, þau reyna að sinna öllum börnum, sem leita til þeirra með sín vandamál.

Hjúkrunarkona fer á heimili barnanna, ef ástæða er til og hefur einnig viðtalstíma í skólanum.

Hjúkrunarkona á að vera tengiliður milli skólans og heimilanna og aðstoða við, að börnin fái þá meðferð, andlega og líkamlega, sem þörf er á.

Samvinnan milli fjölskyldu, skóla, og heilsugæzlu á að stuðla að sem beztri andlegri, líkamlegri og félagslegri velferð barnanna. 

 

HJALTI JÓNASSON OG SPENNISTÖÐIN

Hjalti Jónasson hóf störf við Austurbæjarskólann eftir að Miðbæjarskólinn var lagður niður árið 1969. Hann var settur skólastjóri haustið 1974 eftir skyndilegt andlát Friðbjarnar Benónýssonar veturinn áður. Skólahverfið nær yfir svæði sem nú gengur almennt undir heitinu 101. En gamli Austurbærinn hafði annað yfirbragð á þeim árum. Þar bjuggu t.d. fleiri félagsmenn Dagsbrúnar en í nokkru öðru hverfi. Víða var þröngt í búi. Athvarf var stofnað við þrjá skóla í Reykjavík haustið 1974. Nemendur, sem þar dvöldu glímdu að sögn við námsörðugleika, erfiðar heimilisaðstæður eða skort á aðlögunarhæfni. Hjalti var daglegur gestur í athvarfi Austurbæjarskóla. Hann lét sér annt um börnin þar líkt og aðra nemendur sem áttu undir högg að sækja. Mjög þrengdi að ungviði hverfisins á þessum tíma. Skátaheimilið við Snorrabraut hafði verið rifið og róluvöllurinn við Grettisgötu lagður undir bílastæði. Þegar fræðsluráð samþykkti áform Rafmagnsveitunnar um byggingu spennistöðvar á grasi grónu leiksvæðinu neðan við skólann var mörgum nóg boðið. Þar á meðal Hjalta Jónassyni. Með dyggum stuðningi kennara og íbúa skaut Hjalti föstum skotum að yfirvöldum. Rökvísi hans, orðkynngi og kímnigáfa nutu sín í blaðagreinum þar sem hann barðist gegn þessum áformum. Grunnskólar landsins heyrðu undir ríkið. Hjalti benti á að lóðin væri sameign ríkis og borgar og hlyti því neitun skólastjóra að vega jafnt og samþykki fræðsluráðs. Yngstu borgararnir hefðu trúað sér fyrir því verkefni að gæta lóðarinnar. Frekar en að bregðast þeim trúnaði sagðist hann hætta á að verða fyrir reiði forsvarsmanna Rafmagnsveitunnar. Afstaða hans var skýr en rök borgarinnar fjárhagslegs eðlis líkt og svo oft áður bæði fyrr og síðar. Hjalti sagði það óþolandi, að ódýrasta lausnin skyldi valin á kostnað barnanna. Til að gera langa sögu stutta reis þessi spennistöð aldrei á skólalóðinni heldur við hlið Sundhallarinnar. Þó ekki væri fyrir annað en þetta ættu menn að minnast Hjalta Jónassonar um ókomna tíð.   

Sjálfstæðismenn réðu borginni. Því greip Hjalti til þess ráðs að fá greinar sínar birtar í Vísi, Tímanum og Þjóðviljanum. Annars var hann íhaldsmaður að upplagi. Hann var til að mynda einn þeirra sem vildu halda bókstafnum z í íslensku ritmáli. Honum leiddust fundir. Sagði í hálfum hljóðum á einum slíkum að hann biði spenntur eftir dagskrárliðnum fundi slitið. Húmor hans varð seint haggað.                                                                                                         

Örlög mannanna eru ófyrirsjáanleg. Gangur sögunnar stundum eins og ævintýri. Á sumrin vann Hjalti í Hvalstöðinni. Þar kynntist hann röskum pilti úr Smáíbúðahverfinu og réð að skólanum. Strákurinn reyndist hvalreki og varð síðar skólastjóri. Þar tók Hjalti annað gæfuspor. En það er önnur saga. …

                      Pétur Hafþór Jónsson: Minningargrein um Hjalta Jónasson. Morgunblaðið 23. apríl 2015 bls. 24.

 

 

Þegar Austurbæjarskólinn var byggður þurfti að rífa nýreista spennistöð (aðveitustöð) Rafveitunnar sem stóð þar nú er efri lóð skólans. Nánar tiltekið uppi í portinu nærri vegg miðálmunnar. Þessa stöð, hvíta að lit, má sjá á loftmynd sem Loftur ljósmyndari Guðmundsson tók af skólanum í byggingu. En vegna legu þessarar stöðvar lágu rafmagnsleiðslur grafnar í jörðu um neðri lóðina þvera og endilanga. Því var það fjárhagslega hagkvæmt fyrir Rafveituna að reisa nýja spennistöð þar á sjálfri lóðinni, þ.e. á leiksvæði barnanna. Keyra átti málið í gegn á fundi borgarstjórnar. En vegna baráttu Hjalta Jónassonar og fleiri sem og undirskriftarsöfnunar meðal nemenda lagði Birgir Ísleifur Gunnarsson, borgarstjóri og gamall nemandi Austurbæjarskólans, óvænt fram breytingartillögu við dagskrá þess fundar. Lagði til að málinu yrði frestað en tekið fyrir á fundi borgarstjórnar hálfum mánuði síðar. Það var samþykkt og þannig gafst borgarstjóra frestur til að leita lausnar á þessu deilumáli. Spennistöðin var síðan reist við hlið Sundhallarinnar. Börnunum í skólanum fannst þau hafa unnið sigur í málinu enda skrifuðu líklega öll þeirra undir mótmæli gegn þessum fyrirhuguðu framkvæmdum á miðri skólalóðinni.

                                                                        

1976-1977 - FJÖLDI NEMENDA: 599.

Fjöldi nemenda: 599 samkvæmt haustskýrslu til Menntamálaráðuneytis miðuð við 1. nóvember. Fæstir eru í 2. bekk eða 42. Flestir í 7. og 8. bekk eða 83 í hvorum árgangi. Skóli var settur 1. sept. Kennsla hófst 6. sept.

 

1977-1978

Vilborg Dagbjartsdóttir kennari og skáld sér um barnasíðu í Þjóðviljanum er nefnist Kompan. Þar birtast oft fréttir og frásagnir af nemendum Austurbæjarskólans. 

 

 

 

Brynhildur Hall, nemandi Nínu Magnúsdóttur á afmæli. Hafsteinn Freyr Sverrisson, bekkjarbróðir hennar semur afmælisljóð í tilefni dagsins.

 

Ég yrkja vil nú lítið ljóð

um tíu ára flóð.

Í þennan heim það borið var

einn bjartan apríldag.

Þá sólin skein og fuglar sungu

vorsins gleðibrag.

Og mærin óx og dafnaði

uns hún hjá Nínu hafnaði.

Þar miklum fróðleik safnaði

og dvaldi í góðum fagnaði.

Brynhildur heitir hið mæta sprund

er flutt hef ég ljóð mitt léttur í lund.

Megi framtíðin þér hamingju færa

mín kæra.

 

Nýlega heimsótti Pétur Gunnarsson Austurbæjarskóla og las úr verkum sínum fyrir 6.,7.,8. og 9. bekki. Fyrst las hann nokkur ljóð, þá valda kafla úr Punktur, punktur, komma, strik og loks úr handriti. Það var upphafskafli nýrrar skáldsögu sem er væntanleg í haust og er beint framhald af Punktur, punktur, komma, strik. Krakkarnir fögnuðu Pétri innilega og það ríkti mikil kátína undir lestrinum, því brandararnir hittu í mark, samt fylgdi alvara gamninu og auðsjáanlega rataði Pétur rétta leið inn að hjarta unglinganna.

                                Vilborg Dagbjartsdóttir: Kompan, Þjóðviljinn 23. apríl 1978 bls. 23.

 

AUSTURBÆJARSKÓLINN FRIÐLÝSTUR

Austurbæjarskólinn á Skólavörðuholti er ein þeirra bygginga sem borgarstjórn hefur ákveðið að vernda með friðlýsingu.

Morgunblaðið 27. maí 1978.

 

 1978-1979 - HUGMYNDIN UM AÐ GERA AUSTURBÆJARSKÓLANN AÐ RÁÐHÚSI REYKJAVÍKUR

 

 "Vísir með nýjustu fréttir."

 „Já, það er rétt. Sú hugmynd að gera Austurbæjarskólann að ráðhúsi hefur komið upp og mér finnst það álitleg hugmynd“, sagði Sigurjón Pétursson, forseti borgarstjórnar, í morgun. „Ég vil þó taka það fram, að engar ákvarðanir hafa verið teknar í þessu máli og það hefur verið mjög lítið rætt í borgarstjórn. Þetta hefur aðeins komið til mála“. Sigurjón sagði, að undirrót þessara hugmynda væri sú, að samkvæmt ákvörðun um kennslukvóta í skólum, þyrfti að fjölga nemendum í sumum skólum og fækka í öðrum. Sumir skólar tæmdust alveg, það er skólarnir í gömlu hverfunum. Til dæmis færi nemendum í Austurbæjarskólanum stöðugt fækkandi og því það spurningin, hvernig ætti að nýta þetta húsnæði. „Eins og ég sagði áðan, finnst mér góð hugmynd að gera skólann að ráðhúsi. Þetta er myndarlegt hús og vel staðsett“, sagði Sigurjón Pétursson.

                                                                                                                ATA - Vísir 6. febrúar 1979.

 

 

 LÍFIÐ Í SKÓLANUM 

Haustferð nemenda í Saltvík á Kjalarnesi 1979. Sveinbjörn Markússon með nokkrum nemendum sínum.

 

Boðhlaup í haustferð í Saltvík með 3. GH, 3. DV, 4. RJ, 4. VD og 5. NM. Í sömu ferð er farið að Tröllafossi.

 

 

Handavinna á loftinu í norðurálmunni. Þar eiga óðöl sín Jenný Birna Ingólfsdóttir og Ragnhildur Rósa Þórarinsdóttir handavinnukennarar, Jón E. Guðmundsson og nokkrir sjóvinnukennarar.

 

Jólaball (diskó) í salnum á loftinu í suðurálmunni.

 

Bekkur Guðríðar Magnúsdóttur í fullum Betlehemskrúða á æfingu fyrir jólaskemmtun í Bíósalnum.

 

++

Tónmennt í norðurálmu. "Söngsalurinn" er stór og bjartur með glugga á tveimur veggjum. 

 

Hver stal kökunni úr krúsinni í gær? Tónmenntí 3. GH árið 1980.

 

Árshátíðardagurinn 1980. Uppboð í portinu. Ólafur Sveinsson býður upp böggul. Við hlið hans er Ólafur Loftsson.

 

 Leikþáttur á árshátíð unglinga síðasta vetrardag 1980. Læknar og hjúkrunarlið að störfum.                                                      

   Guðrún Grímsdóttir leikur skúringakonuna, þá lægst settu á skurðstofunni. 

 

Atli Gunnarsson leikur prest. Hann gerist síðar kaþólskur prestur í Liverpool. 

 

        

                         Það er kraftur í unglingunum þetta árið. Hér er gengið fylktu liði frá skólanum að íþróttahúsi

                         Hagaskóla þar sem íþróttadagur var haldinn. Fremst ganga Halla Margrét Árnadóttir,    

                         Ólafur Loftsson og Ólafur Haraldsson.

 

                                        Þriggja daga skíðaferð í Hveradölum. Bjarni Sigurðsson lengst til hægri.