Árin 1979 til 1995.

Hér birtist fjórði hluti úttektar þar sem stiklað er á stóru yfir sögu Austurbæjarskólans. Efnið er tekið saman til skemmtunar og fróðleiks, er stöðugt í vinnslu og er engan veginn tæmandi. Þeim, sem hafa eitthvað við þetta að bæta, er velkomið að hafa sambandi við stjórn Hollvinafélagsins. Virðið höfundarrétt. Copyright © 2019 Pétur Hafþór Jónsson.

 

ELDHÚSSTÖRFIN JAFNT FYRIR PILTA OG STÚLKUR

 

                                            

                              

                                     Unga stúlkan og eldhússtörfin 1967.   Unga fólkið og eldhússtörfin 1980.

 

HJÁ SKÓLATANNLÆKNINUM 

 

Hjá Láru Ólafsdóttur skólatannlækni. Tannlæknastofan er fyrir framan Bíósalinn.

 

 

1979-1980

 

 

Austurbæjarskólinn er í ár hálfrar aldar gamall og á sínar eigin hefðir umfram aðra barna- og grunnskóla borgarinnar. Og hann á meira að segja eigin höfunda, sem hann nýtir sér vel á jólaskemmtunum á þessu 50. afmælisári skólans. Fluttu skólanemendur mikið af efni eftir fyrrverandi kennarar í Austurbæjarskólanum í gær. Enda ekki í kot vísað, þar sem eru menn á borð við Jóhannes úr Kötlum, Stefán Jónsson og fleiri. Önnur hefð hefur haldist í Austurbæjarskólanum, sú að láta alla eða nær alla nemendur koma fram sjálfa á skólaskemmtunum og vera þátttakendur engu síður sen áhorfendur. Þess vegna eru hóparnir smærri í einu, en hver skemmtun tekur við annarri. … Það var sérlega gaman að koma á skemmtunina í gærmorgun í gamla samkomusalnum, sem hefur þann kost að brött hækkandi sætaröð veitir smáum sem stórum gott útsýni yfir sviðið. Áður var þar oft þröngt á þingi, meðan í skólanum voru 17-18 hundruð börn. En nú er hægt að bjóða foreldrum litlu leikaranna og voru ófáir mættir ásamt kennurum. Enda hafa foreldrar sjálfsagt orðið að undanförnu að lifa með þessum mikla undirbúningi fyrir skemmtunina, þegar leikarar gátu ekki sofið fyrir taugaóstyrk. 

   ...                                                                                                                                                                            

Þá léku börnin með miklum tilþrifum kvæðið um Jólasveinana eftir Jóhannes úr Kötlum … því næst kvæðið um skrópasýkina eftir Stefán Jónsson, sem kenndi í skólanum árum saman í stofu 17 á efri hæðinni. Stefán var oft nefndur faðir hann Gutta og því átti vel við að börnin fluttu og léku Guttakvæðið. Endirinn á dagskrá barnanna var söngleikurinn Litla Ljót eftir Hauk Ágústsson … var sýnd stutt gamanmynd með Chaplin, áður en krakkarnir fluttu sig yfir í leikfimisalinn, þar sem biðu hljóðfæraleikararnir Pétur H. Jónsson við píanóið og Eyjólfur Bjarni Alfreðsson með fiðlu og léku fjörlega undir sönginn meðan gengið var kringum jólatréð.

Elín Pálmadóttir: Jólaskemmtun í skóla með hálfrar aldar hefð. Morgunblaðið 21. des. 1979 bls. 36.

 

            

 Pennastokkur læknir eftir Stefán Jónsson í flutningi nemenda Dagnýjar Valgeirsdóttur. Frá vinstri: Harpa Rut Jensen           (Litla gula hænan), ? , Stefán Eiríksson (Pennastokkur læknir),    Auður Loftsdóttir (reglustikan).                                         Til hægri: Kirstín Erna Blöndal (sögurmaður).

 

 

Bekkur Nínu Magnúsdóttur sýnir Þrettándanótt, leikrit Stefáns Jónssonar.                                                

Leikararnir Einar Aron Pálsson og Sigriður Sigurðardóttir.

 

RITHÖFUNDARKYNNING Í BÍÓSALNUM

 

Þjóðviljinn greinir frá fimmtud. 24. ap. 1980. Í kaffi á kennarastofunni frá vinstri: Guðrún Helgadóttir og kennararnir        Þórður Pálsson, Guðríður Magnúsdóttir og Vilborg Dagbjartsdóttir.

 

50 ÁRA AFMÆLI SKÓLANS

 

 Tíminn laugard. 17. maí 1980.

 

 

Þjóðviljinn laugard. 17. maí 1980.

 

50 ÁRA AFMÆLIS SKÓLANS minnst með hátíðardagskrá, tónleikum og leiksýningum í bíósalnum, fimleikasýningum í íþróttasalnum auk sýningar á verkum nemenda um allt hús. AFMÆLISRIT eftir Gunnar M. Magnúss gefið út.

Það eru margar nemendamyndir á sýningunni og víst að margir gamlir nemendur munu sjá andlitið á sér á spjaldi ef þeir leita vel“ sagði Jón E. Guðmundsson, myndlistarkennari. Mikið var um að vera í Austurbæjarskólanum er Vísismenn bar þar að garði í vikunni og nemendur jafnt sem kennarar í óða önn við að undirbúa sýninguna. Meðal þess, sem vekur athygli á sýningunni, eru myndir 12 krakka úr níunda bekk, sem verið hafa í myndlistartímum hjá Jóni E. Guðmundssyni. „Ég er búinn að vera með þessa nemendur í mörg ár og ég vona að ég eigi eftir að fá fleiri slíka nemendur áður en mínum kennaraferli lýkur. Að minnsta kosti fjögur úr þessum hópi ætla í Myndlista- og handíðaskólann og ég er illa svikinn ef við eigum ekki eftir að heyra meira frá þeim í framtíðinni“, sagði Jón.

       Nemendasýning í tilefni 50 ára afmælis Austurbæjarskóla: „Ég vona að ég eigi eftir að fá fleiri slíka nemendur“.          Vísir 16. maí 1979 bls. 12. 

         Meðal nemenda Jóns E. Guðmundssonar þetta ár voru Guðrún Ólafsdóttir, Ólafur Sveinsson, Ólafur Guðbjartsson,            

         Einar Garibaldi Eiríksson og Jóhanna Ásgeirsdóttir.

 

Í handavinnuherberginu voru nemendur og kennarar að strauja, strekkja, teygja og negla upp verkefni nemendanna fyrir sýninguna. Þar var meðal annarra staddur Atli Gunnarsson, eini drengurinn á gagnfræðastigi í Austurbæjarskólanum sem var í handavinnu í vetur … Svo var Atli rokinn niður í kvikmyndasal, þar sem hann var að æfa sig í titilhlutverkinu í leikritinu „Hans Vöggur“, sem sýna á um helgina.

 

 

 

 HANS VÖGGUR OG LITLA LJÓT

 

 Leikritið Hans Vöggur í uppsetningu Guðrúnar S. Gísladóttur leikkonu. Guðrún er gamall nemandi Austurbæjarskólans og öllum hnútum kunnug í Bíósalnum. Þar tók hún sem nemandi þátt í uppsetningu á atriðum úr Pilti og stúlku en einnig Manni og konu Jóns Thoroddsen undir stjórn Alfreðs Eyjólfssonar og Jóns Marteinssonar (Jóns Kr. Hansen). 

 

Leikritið Hans Vöggur sýnt á 50 ára afmælishátíð skólans.

 

 Söngleikurinn Litla Ljót efitr Hauk Ágústsson fluttur af 10 ára börnum í tilefni af 50 ára afmæli skólans.

 

 

1980-1981

 

STÆRÐFRÆÐIBÓK Í TILEFNI MYNTBREYTINGARINNAR Í ÁRSBYRJUN 1981

 

Tvö núll eru tekin aftan af íslensku krónunni í ársbyrjun 1981. 

 

STOFNUN SKÓLADAGHEIMILIS

Hafinn er rekstur SKÓLADAGHEIMILIS í skólanum hinn 1. sept. 1980. Þar eru þrír starfsmenn, þar af tveir kennaramenntaðir. 22 börn eru þar í vetur, öll hjá einstæðum foreldrum. Gott samstarf hefur verið við önnur dagheimili borgarinnar. Skóladagheimilið er undir daglegri stjórn skólastjóra eins og önnur starfsemi skólans. Fjármál heyra undir Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur. Nokkrir foreldrafundir voru haldnir í skóladagheimilinu og kemur þar fram almenn ánægja foreldra með reksturinn. Aðeins er unnt að sinna litlum hluta þess fjölda sem sækir um vistun.

                                                      

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Anna og Didda á skóladagheimilinu.

 

LANDSMÓT ÍSLENSKRA BARNAKÓRA

Kór skólans syngur tvö lög á Landsmóti ísl. barnakóra í Háskólabíói 30. maí. Við fjallavötnin fagurblá (finnskt þjóðlag) og Fylgd, ljóð Guðmundar Böðvarssonar við lag Sigursveins. D. Kristinssonar. Undirleikari í síðara laginu er Ólafur Vignir Albertsson, en hann á dóttur í kórnum. Sigursveinn, fyrrum kennari við skólann, er svo ánægður með framtakið, að hann gefur skólanum áritað eintak af lagi sínu.

 

 

HUGMYNDIR UM AÐ GERA AUSTURBÆJARSKÓLANN AÐ RÁÐHÚSI REYKJAVÍKUR.

Sú athyglisverða hugmynd hefur komið fram nú síðustu daga að gera Austurbæjarskólann að ráðhúsi Reykjavíkur. Hugmyndin er snjöll og þörf …

                                                        B.P.M. Forystugrein Alþýðublaðsins 6. febrúar 1979 bls. 2.

 

Vísir með nýjustu fréttir.

 

"SKRIFBORÐSSKIPULAGNING SKÓLAMÁLA"

Nýjustu fréttir af skipulagningu skólahúsnæðis í Reykjavík eru þær að borgaryfirvöld hafa í hyggju að leggja niður Austurbæjarskólann og færa starfsemina þar niður í Miðbæjarskóla. Að öllum líkindum er þetta gert til að borgarstjórnin geti notað Austurbæjarskólann sem ráðhús. Í þessu máli sem öðru er varðar skólastarf er ekki verið að hugsa um hvað sé kennurum og nemendum fyrir bestu, heldur er aðeins farið eftir duttlungum embættis- og stjórnmálamanna … Aðferðin sem notuð var við afgreiðslu þessara mála er dæmigerð fyrir skrifborðsskipulagningu skólamála. Þetta er löngu ákveðið bak við tjöldin. Fyrir stuttu kvisaðist þetta út og komst í blöðin. Þá vissi enginn neitt … full ástæða er fyrir foreldra og kennara að fylgjast náið með þessu. … Sama er uppi á teningnum varðandi allt innra starf … Ákvarðanir eru teknar niðri í bæ og síðan tilkynntar kennurum … Afleiðingin er sú að skólarnir verða ósjálfstæðar og staðnaðar stofnanir sem gera ekki annað en að taka við fyrirmælum og vinna samkvæmt þeim.

                                                                      Stéttarbaráttan 6. mars 1979, bls. 3-4.

 

"AÐ LEGGJA NIÐUR SKÓLA"

Ég hef alltaf verið að búast við, að þeir aðilar sem að vísu telja sig einráða um þessi mál, sýndu íbúum þessa skólahverfis þá sjálfsögðu kurteisi, að bjóða þeim að velja sér fulltrúa til að hlýða á hin óumdeilanlegu rök, sem geri það nauðsynlegt að leggja þessa skólastofnun niður. Þó okkur kennurum, kennurum við stofnunina, komi þetta sýnilega ekkert við, því ekki hefir verið rætt við okkur, myndum við þó kannske fá þar málfrelsi en auðvitað engan tillögurétt.

Skólinn hóf starfsemi sína 1930. Strax í byrjun var skólinn of lítill og varð að taka annan leikfimisalinn ásamt hluta af söngstofunni og hólfa niður í þrjár kennslustofur. Fyrir nokkrum árum var söngstofan sett aftur í sitt upprunalega form en leikfimisalurinn er enn gangur og tvær kennslustofur og er nú skólasafnið í annarri stofunni. Já, skólinn var fljótt ofsetinn, ekki aðeins tví- og þrísettur heldur langt umfram það. Örugglega hefur ekkert skólahúsnæði á landinu verið svo fullnýtt sem Austurbæjarskólinn var um árabil, þegar nemendur hans voru tæp 2000 árum saman. Miðað við þá tíma má víst með sanni tala um lélega nýtingu á þessu húsnæði, sem byggt var yfir 600 nemendur í að nokkru leyti tvísettum skóla. Það eru kannske þessir gömlu, góðu tímar, sem ráðamenn borgarinnar miða við í dag?

                                               Pétur Sumarliðason: Að leggja niður skóla. Þjóðviljinn 23. ágúst 1979 bls. 8.

 

Gömul mynd úr skólaportinu.

 

„Breyting Austurbæjarskóla og Hvítabandsins ódýrasta lausnin“ – segir Albert Guðmundsson. „Ef það er rétt sem margir halda fram að Austurbæjarskólinn gegni minna þjónustuhlutverki en ætlað er og jafnvel svo að eðlilegt sé að leggja skólann niður, þá hef ég komið með tillögur um það í borgarstjórn og borgarráði að skólanum verði breytt í hjúkrunarheimili fyrir langlegusjúklinga, aldrað fólk sem er ekki sjúkt beinlínis en getur ekki verið einsamalt,“ sagði Albert Guðmundsson … „Fyrir nokkrum árum var þessi hugmynd könnuð af mér, Óttari Möller og landlækni og var þá gerð kostnaðaráætlun um breytingu á húsinu…“

Morgunblaðið 11. febrúar 1981 bls. 17.

 

Framlag Reykjavíkurborgar til árs fatlaðra 1981? Ginnungagap milli stjórnsýslu og fatlaðra … Ástæðan til þess að hús Austurbæjarbarnaskólans virðist liggja á lausu er sú stefna Reykjavíkurborgar að þenja byggðina út um holt og grundir, einkanlega holt, þar sem hægt er að hýsa fólk sem hæst ofan sjávarmáls, þar sem frost verða hörðust, rammastir vindar gnauða og félagslegur kostnaður reynist mestur. Í slíkum hverfum býr nú meginþorri ungra foreldra í Reykjavík ásamt börnum sínum, en í hinni upphaflegu Reykjavík býr aldrað fólk og fatlað og fær fæst að sjá barnabörnin sín nema endrum og eins. Í hverfi því sem Austurbæjarbarnaskólinn átti að þjóna búa nú fá börn, og er þá ekki tilvalið að stugga þeim burt og breyta skólabyggingunni í ráðhús? … Þegar Austurbæjarbarnaskólinn var byggður var það viðhorf algerlega ríkjandi að fatlað fólk væri utangarðsmenn í þjóðfélaginu og um það ætti alls ekkert að hugsa. Í samræmi við það var skólabyggingin teiknuð og byggð. Í engu húsi í Reykjavík af svipaðri stærð hefur verið komið fyrir jafn níðangurslegu tröppukerfi, erfið þrep sem teygja sig stall af stalli með greinum upp í afkima í öllum áttum. … Ef stjórnsýslukerfi Reykjavíkurborgar yrði komið fyrir í þessari byggingu, væri komið á algeru torleiði milli fatlaðs fólks og skriffinnskukerfis borgarinnar, einnig þeirra stofnana sem eiga að sinna fötluðum, öldruðum, sjúkum og snauðum. …

Magnús Kjartansson, Þjóðviljinn 13. febrúar 1979 bls. 9.

 

 

Önnur gömul mynd úr skólaportinu.

Þ.P. skrifar: *

Nokkur undanfarin ár hefur komið til tals af og til að leggja Austurbæjarskólann niður og taka húsnæðið til annarra nota. Nú síðustu dagana er rætt um að nota húsnæðið fyrir aldraða langlegusjúklinga í Reykjavíkurborg. Þetta eru umræður út í hött og má furðu gegna hversu þessar hugmyndir eru lífseigar. Nú skulum við athuga í stuttu máli hvernig þetta húsnæði er nýtt. Austurbæjarskólinn mun vera eitt vandaðasta skólahús landsins. Í skólanum eru um 500 börn á aldrinum 6-15 ára. Hver einasta stofa eða herbergi í húsinu er notað frá kjallara upp í ris, og kennslustofur margar tvísetnar. Skólabörn nýta húsnæðið mest en auk þess er þar mörg önnur starfsemi. Auk þessara 500 barna, sem eru í skólanum, hafa fleiri skólar aðgang að húsnæðinu, t.d. að sundlaug og kennslueldhúsi. Í skólanum er auk þess skóladagheimili, athvarf, skátastarfsemi, íþróttafélög í leikfimisal og oft leikæfingar og sýningar í kvikmyndasal. Í skólanum er vel séð fyrir þörfum barnanna, þar eru heilsugæsla, tannlæknaþjónusta, fullkomið bókasafn, þar sem bókasafnsverðir aðstoða börnin við nám og val á bókum, sérkennslustofur í ensku, eðlisfræði og hjálparkennslu, þar sem kennarar aðstoða börn sem dregist hafa aftur úr í námi o.fl.            Nú vilja nokkrir borgarfulltrúar leggja alla þessa starfsemi niður og hrekja börnin úr skólanum í annað skólahverfi, upp í Hlíðar eða vestur í bæ. Börnin þurfa þá að fara langar leiðir frá heimilum sínum, yfir margar umferðargötur. Er ekki nóg af umferðarslysum á börnum í umferðinni, þó að hættunni sé ekki boðið heim eða á að flytja börnin í skólabílum? Austurbæjarskólinn verður aldrei lagður niður vegna þess að það er borgarbúum nauðsynlegt að hafa barnaskóla á þessu svæði. Það er ekki hægt að leysa vandamál gamla fólksins á kostnað barna og unglinga í þessu skólahverfi og borgarfulltrúum til vansæmdar að vekja tálvonir gamla fólksins um að þarna sé einhver lausn á þess vandamálum, þar sem skólahúsnæði er á allan hátt óhentugt fyrir gamalt fólk, því að þar eru langir gangar og mikið um erfiða stiga, enda ætlað léttfættum skólabörnum en ekki öldruðu fólki. Ráðlegra væri að borgarfulltrúar hættu slíkum bollaleggingum um Austurbæjarskólann og sneru sér fyrir alvöru að vandamálum gamla fólksins, sem eru mörg.

            Að lokum þetta. Nú eru um 120 börn í 6 og 7 ára deildum Austurbæjarskólans en það bendir til að á næstu árum muni fjölga í þessu skólahverfi og það væri mikil skammsýni og óhapp nú að leggja skólahald niður í þessu hverfi.

Dagblaðið 21. feb. 1981. * Þórður Pálsson kennari.

 

Siglt með Herjólfi einhvern tíma á 9. áratugnum. Frá vinstri: Þórður Magnússon, Valborg Helgadóttir, ókunnur farþegi, Sigurlaug Sigurjónsdóttir, Indriði Halldórsson, Pétur Hafþór Jónsson og Þórður Pálsson

 

1981-1982 - SKÓLALÍFIÐ

Skólabyrjun er samkvæmt venju þessara ára. Skólinn settur 1. sept. Þann dag eru kennarafundir í skólanum. 2. og 3. sept. eru kennarar á haustfundum í ýmsum skólum borgarinnar. Kennsla hefst 4. sept. Einn dagur í sept. er notaður í HAUSTFERÐIR. Þá er farið í vettvangsferðir til fyrir fram ákveðinna staða innan borgarinnar eða í næsta nágrenni til athugunar á gróðri, dýralífi, jarðlögum og fl. Stundum er farið í leiki en ánægðust eru börnin þegar þau taka upp nestið sitt, því matur er mannsins megin. Tveir dagar eru venju samkvæmt notaðir til jólaskemmtana. 4.-6. bekkir fara í eins dags skíðaferð í Bláfjöll. 7.-9. bekkir fara í þriggja daga skíðaferð í Hveradali. Einn dag er skóla lokað til samráðsfundar kennara. Kynning atvinnuveganna og námsbrauta framhaldsskólanna fer fram í 9. bekkjum. Heimsóttir nokkrir vinnustaðir og skólar, t.d. Flugleiðir og Iðnskólinn. Nemendur 5.-9. bekkja fá KYNFRÆÐSLU, mismikla eftir aldri. Líffræðikennari skólans, skólalæknir og hjúkrunarfræðingur annast þá kennslu.                                                                                                                                                                  

 

Grímuball í tengslum við öskudaginn. Ártal ekki alveg víst.  

 

 

 VÉLFRÆÐI OG MÁLMSMÍÐI

 

Einar Guðmundsson vélfræðikennari ásamt nokkrum nemendum. Myndin er líklega frá skólaárinu 1992-1993.

Kennsla hefst í VÉLFRÆÐI og MÁLMSMÍÐI haustið 1981. Hefur Hilmar Hálfdánarson þá kennslu á hendi fram til áramóta. En þá tekur Einar Guðmundsson við kennslunni. Vélfræði er valgrein í 9. bekk, þriggja vikustunda grein. Tveir nemendahópar úr Austurbæjarskóla stunda námið, þrír frá Æfingaskólanum og einn úr Seljaskóla. Markmið kennslunnar er, að nemendur vinni með ýmis konar málma og vélar. Jafnframt verði þeir færir um að ráða fram úr minni háttar bilunum í litlum vélum, svo sem í vélhjólum. Veitt er fræðsla í meðferð logsuðu- og rafsuðutækja. Nemendur vinna við að standsetja kennslustofuna, sem áður var smíðastofa Sigþórs Lárusson og enn áður handavinnustofa stúlkna. Jafnframt fer fram kynning starfsfræðsla um alls konar málmiðnað og bent á þá möguleika, sem þar eru fyrir hendi, svo sem plötusmíði, blikksmíði, rennismíði, vélvirkjun, bifvélavirkjun og fleira. Farið í kynnisferðir í skóla og stofnanir sem tengjast greininni, t.d. vélsmiðjur, verkstæði og í skip Eimskipafélags Íslands. Málmblendiverksmiðjan á Grundartanga heimsótt. Til að nýta þá aðstöðu sem komið hefur verið upp í skólanum og ná jafnframt tilskyldum nemendafjölda í valgreinum, er höfð samvinna við Selja, Öldusels- og Æfingaskóla. Hið sama á við um teiknun, sjóvinnu og hússtjórn. Framhald verður á þessari samvinnu og bætast þá við nemendur úr Hlíða- og Langholtsskóla. Réttarholtsskólinn bætist einnig í þann hóp.

Fimmtán nemendur úr 9. bekk sækja námskeið í TÖLVUMEÐFERÐ. Í opnu húsi er m.a. boðið upp á MYNDBANDASÝNINGAR (VIDEO).

 

SPARKVELLIRNIR NEÐAN VIÐ SKÓLANN

Malbikuðu sparkvellirnir á neðri skólalóðinni njóta mikilla vinsælda. Þar er leikinn knattspyrna í frímínútum, eftir skóla, öll kvöld og allar helgar ef veður leyfir. Þar er oft margt um manninn, bæði börn og fullorðnir. 

 

 Einar Þór Karlsson skýtur að marki. Árni Haraldsson er til varnar.

 

 1982-1983 - STARFSKYNNING

Kennsla fer fram svipað og s.l. ár. 9. bekkjarnemar fá þriggja daga STARFSKYNNINGU og heimsækja m.a. lögreglu, tollgæslu, Landhelgisgæslu, fjölmiðla, sjúkrahús, matsölustaði, dagheimili, leikskóla, flugumsjón, Flugleiðir, vélsmiðjur, bílaverkstæði og fleira. Nemendur í hjálparbekk Njáls Guðmundssonar eru í verklegri kennslu í Iðnskólanum í Reykjavík frá áramótum og geta sér gott orð þar. Þar hefur hafist góð samvinna milli Iðnskólans í Reykjavík og Austurbæjarskólans. 

 

TÓMSTUNDASTARF - TÖLVUMEÐFERÐ

Æskulýðsráð Reykjavíkur gengst sem fyrr fyrir TÓMSTUNDASTARFI í skólanum í október – desember og aftur í febrúar – apríl. Kennt er í 10-16 nemenda hópum. Fyrra tímabilið er kennt í 12 hópum en í 5 hópum í hinu síðara. Vinsælustu viðfangsefnin eru borðtennis, leikræn tjáning, ljósmyndun og leirmótun. Tíu nemendur úr 8. og 9. bekk sækja námskeið í TÖLVUMEÐFERÐ fyrir áramót en tuttugu eftir áramót. 

   

FÉLAGSLÍF NEMENDA - MYNDBANDASÝNINGAR                                                           

Brugðið er á það ráð að auka skemmtanir fyrir 4.-6. bekk og eru þær haldnar á 6 vikna fresti, en á 3ja vikna fresti fyrir nemendur í 7.-9. bekk. Vegna kostnaðar er minna um OPIN HÚS, þ.e. skemmtanir með leiktækjum og MYNDBANDASÝNINGUM svo eitthvað sé nefnt. Að venju er foreldrum boðið að taka þátt í jólaskemmtunum barna sinna og er þátttaka góð. Nemendur annast sjálfir öll skemmtiatriði sjálfir með aðstoð kennara. Einn fulltrúi úr hverri bekkjardeild er í NEMENDARÁÐI en það kýs sér stjórn. Ráðið skal vera ásamt félagsstarfakennara mótandi um tilhögun félagslífsins í skólanum. Ef upp koma vandamál, skal ráðið sérstaklega taka það til umfjöllunar og gefa umsögn.   

  

SJÓVINNA

VÉLBÁTURINN ÞORSTEINN FRÁ REYKJAVÍK leigður og fara sjóvinnunemar í dagsróður undir leiðsögn kennarans Þorleifs Valdimarssonar.       

                                                                                                                                                                                      

Morgunblaðið 30. maí 1982.

 

Þegar skýrsla þessi er skrifuð eru 48 skólar byrjaðir sjóvinnukennslu skólaárið 1981-1982. ... Sex nýjir skólar á höfuðborgarsvæðinu báðu í vor um aðstoð til að koma kennslu af stað, og er kennsla hafin í þeim öllum. Þeir eru: Fellaskóli, Seljaskóli og Ölduselsskóli í Breiðholti og Lækjarskóli, Öldutúnsskóli og Víðistaðaskóli í Hafnarfirði. Heildarfjöldi nemenda í sjóvinnu á landinu er um 700 nemendur, þar af um 400 bæði í verklegu og bóklegu sjóvinnunámi.

...

Næstu nágrannar okkar meðal fiskveiðiþjóða virðast gera sér ljósa grein fyrir mikilvægi skólabáta. ... Undanfarin ár hefur verið töluverð umræða um þessi mál hjá okkur, en framkvæmdin því miður lítil, og hefur strandað á fjármagni fremur en skilningi. En að tengja námið í skólanum raunveruleikanum með tilkomu skólabáta tel ég bráðnauðsynlegt. ... Á nokkrum stöðum hafa verið gerðar tilraunir í smáum stíl, t.d. á Húsavík ... Nú í haust tóku sig saman þrír skólar í Reykjavík um að leigja bát og gera út sem skólabát fyrir sjóvinnudeildir skólanna. Stendur sú framkvæmd yfir þegar þetta er skrifað og lítur út fyrir að allir skólar á höfuðborgarsvæðinu, sem sjóvinnudeildir hafa, muni slást í hópinn. Fiskifélagið sér um skipulagningu og framkvæmd í samvinnu við viðkomandi skóla. Hefur þetta í einu orði sagt tekist frábærlega vel það sem af er, en búið er að fara 6 róðra. Róið er með handfæri, ýsunet og línustubb. Hver hópur, 6-8 nemendur, fer 1-2 róðra. Auk veiðarfærakennslunnar er nemendum kennd siglingarfræði, siglingarreglur og þeir kynnast almennri sjómennsku í raunveruleikanum.

...

Framtíðarvonin hlýtur að vera sú, að smíðað verði eða keypt skólaskip.

Þorleifur K. Valdimarsson:

SKÝRSLA FRÆÐSLUDEILDAR UM VERKLEGA OG BÓKLEGA SJÓVINNUKENNSLU 1981.

 

STARFSMANNAFÉLAGS STOFNAÐ

STARFSMANNAFÉLAG stofnað 20. sept. Félagar eru allir starfsmenn skólans. Stjórn félagsins skipa Pétur Hafþór Jónsson, Indriði Halldórsson og Bára Björnsdóttir. Varamenn eru Hjörleifur Jónsson, Valborg Helgadóttir og Anna Margrét Einarsdóttir.  

 

FORELDRAFÉLAG STOFNAÐ

FORELDRAFÉLAG stofnað 14. okt. Formaður: Karl Sigurbjörnsson. Aðrir í stjórn eru Anna Guðnadóttir, Kristín Finnsdóttir og Kristján E. Guðmundsson. Til vara: Petrína Steindórsdóttir og Þuríður Einarsdóttir. Einn fulltrúi úr hverri bekkjardeild er í foreldraráði. Foreldraráð kýs stjórn félagsins og skal einn vera úr hópi kennara.

Almennur fundur var haldinn síðari hluta síðasta vetrar til undirbúnings að stofnun félagsins.

 

JÓLAFÖNDURDAGUR HALDINN Í FYRSTA SINN

Foreldrafélagið sér um JÓLAFÖNDUR. Þar mæta um 200 manns auk nemenda. Þarna hefst nýr þáttur í starfi skólans, sem vænst er mikils af.   

 

UMFERÐARBIKARINN VINNST TIL EIGNAR 

 

Nemendur skólans vinna UMFERÐARBIKARINN þriðja árið í röð og þar með til eignar. Bikar þess er gefinn af tryggingarfélögunum og er veglegur silfurbikar, sem tólf ára börn keppa um. Úrslitakeppnin fer fram í útvarpi 28. maí og vinnur Austurbæjarskólinn með hæstu stigatölu sem um getur í þessari keppni. Það er Umferðarráð sem sér árlega um þennan viðburð.

FJÖLDI NEMENDA: 454.

 

 Vorferð Starfsmannafélagsins að gróðurreit Kennarafélagsins í Heiðmörk um 1987. Dagný Valgeirsdóttir lengst til vinstri. Valborg Helgadóttir önnur frá hægri. Barnið á myndinni er dóttir eins kennarans.

 

Kennararnir Nína Magnúsdóttir og Guðrún Halldórsdóttir ásamt fylgifiskum.

 

1983-1984

Skóli settur 1. sept. Samstarfsdagur kennara 2. sept. Aðrir SAMSTARFSDAGAR KENNARA eru 19. október, 22. febrúar og 15. maí. 7.-9. bekkir fer í þriggja daga skíðaferð í skíðaskála KR í Skálafelli. Allir nemendur barnadeilda vinna í skólaeldhúsi að MATARGERÐALIST. Opið félagsstarf með foreldrum og tólf ára nemendum í HÚSSTJÓRNARFRÆÐUM. Þar vinna foreldrar og nemendur saman að matargerð. Þráinn Bertelsson er formaður foreldrafélagsins. Elstu nemendurnir fá þriggja daga STARFSKYNNINGU að eigin vali. Tókst að koma nemendum þangað sem hugur þeirra stóð til, svo sem í brauðgerðarhús, Rannsóknarstöðina að Keldum, í fjölmiðla, Fæðingarheimili Reykjavíkur, matsölustaði, lögreglu, tollgæslu og fleira.

Vortónar skólanna – jólaföndur – kór í unglingadeild (Eyjólfur Alfreðsson). Þýska í vali. Sendiráðið gefur verðlaun.

 

HEIMSÓKN LEIKSKÓLABARNA

 

 

FYRSTA SKREFIÐ Á SKÓLAGÖNGUNNI: Muna ekki flest okkar eftir þessari undarlegu blöndu af eftirvæntingu og kvíða sem fyllti sálina þegar maður var fimm ára og bráðum sex, og vissi að skólinn þessi leyndardómsfulla stofnun, beið eftir að gleypa mann þegar sumarið yrði búið? Skyldi verða gaman - myndi verða leiðinlegt - og svo hlógu stóru systkinin að öllu saman og stríddu manni. 

Í Austurbæjarskólanum trítluðu hópar af fimm ára krökkum á eftir fóstrum sínum um skólann, opinmynnt að sjá dýrðina í fyrsta sinn. Þau voru úr barnaheimilum á svæðinu … og áttu það sameiginlegt að eiga að byrja í skóla næsta haust. Vilborg Dagbjartsdóttir tók á móti þeim á bókasafninu og sagði þeim sögu … Svo fóru þau í heimsókn á sex ára deildina og sáu hvernig skólastofa lítur út að innan, hittu þar sex ára krakka sem voru að reikna og sum voru alveg dolfallin yfir þessum miklu vísindum. En í söngtíma hjá Pétri H. Jónssyni datt af þeim allur drungi. … „Vitið þið hvað er bergmál?“ spurði Pétur. „Já,“ svaraði ein örsmá, „það er svona O-O-O-O-O“. … Pétur kenndi þeim svo að búa til alvöru bergmál með því að opna flygilinn og láta þau æpa ofan í hann. … allir æptu af lífs og sálar kröftum. … Eftir píanóundrin var haldið í skólaeldhúsið þar sem nokkrir sex ára puttar voru nýbúnir að baka heilhveitibollur með sesamfræi ofan á. Þeir voru vígalegir mjög með rauðköflóttar svuntur framan á sér, hálfhissa á þessari innrás, en sögðu það væri gaman í matreiðslu.

Össur Skarphéðinsson: Æpt ofan í flygil. Þjóðviljinn 16. maí 1984 bls. 9.

 

1984-1985 - NEMENDUR 473

Nemendur alls 473. Fimmtíu og einn í forskóla. Fimmtíu og átta í 5. bekk. Fjörutíu og sjö í 8. bekk. En tuttugu og tveir í 9. bekk. Lokað í tuttugu daga vegna VERKFALLS BSRB. Fyrir bragðið verða ÚTLÁN BÓKA minni en á síðasta skólaári. Nemendur hafa þó mikil og mestan part frjáls afnot af BÓKASAFNI SKÓLANS, sem og kennarar með bekkjum sínum. Safnkynning líkt og áður fyrir yngri nemendurna. Safnrýmið er hið sama og áður, þröngt og ónæðissamt til náms og kennslu, einkum með tilliti til eldri nemendanna, nema hinum yngri sé á meðan meinaður aðgangur að stofunni. Slíkt þykir slæmur kostur og er reyndar lítil trygging fyrir því, að ekki verði truflað með því að banka á hurðina. Notkun safnsins ræðst því af aðstæðum. Brýnt er að rýmið verði aukið, til þess að hægt verða að nota safnið meira til kennslu.  

 

ÍÞRÓTTADAGUR                                        

ÍÞRÓTTADAGUR haldinn 10. maí og eru útileikir og keppnisíþróttir á dagskrá fyrir alla aldurshópa. Stefnt að því að íþróttadagur verði árviss viðburður í skólastarfinu.

 

FYRSTA MYNDBANDSTÆKIÐ

Þetta ár er fyrst nefnt myndbandstæki í skrá yfir tækjakost skólabókasafnsins. Guðmundur Sighvatsson, yfirkennari kaupir tækið og fær alvarlegar athugasemdir frá innkaupadeild Reykjavíkurborgar.

 

ANNAR TÆKJAKOSTUR

Eitt sjónvarpstæki, þrjár skuggamyndavélar ("ein varla nothæf"), tvær kvikmyndasýningarvélar, tuttugu sýningartjöld, þrenn hljómflutningstæki, fjögur kassettutæki ("varla nothæf"), fjórar ritvélar ("ein varla nothæf"), ein ljósritunarvél, níu myndvarpar.

 

FJÁRVEITINGAR TIL SKÓLASAFNS OG BÓKAKOSTUR

Alls krónur 117.000. Fjárveitingar fyrra árs: Kr. 60.000.

Skáldsögur: 1784 bindi í ársbyrjun, 5 voru afskrifuð, 75 bættust við. Það gerir 1854 bindi.

Flokkabækur: 4109 bindi. 6 voru afskrifuð, 525 bættust við. Það gerir 4628 bindi.

 

NÝSIGÖGN Á SKÓLASAFNI

2076 skyggnur, 63 snældur, 24 hljómplötur, 58 glæruflokkar, 8 myndbönd.

Heimild: Ársskýrsla um skólasöfn skólaárið 1984 til 1985.       Bjarni Gíslason og Vilborg Dagbjartsdóttir.

 

1985-1986 - FJÖLBREYTT TÓMSTUNDASTARF

MIKIÐ TÓMSTUNDASTARF í samstarfi við Æskulýðsráð Reykjavíkur. Á fyrri önn voru 15 hópar en 9 eftir áramót. FLUGUHNÝTINGAR og LJÓSMYNDUN eru vinsælust. Héðinn Pétursson og Erling Ó. Aðalsteinsson sjá um þær greinar. Nemendur skólans taka þátt í fluguhnýtingakeppni á vegum Æskulýðsráðs og hreppa nokkra verðlaunapeninga og farandbikar til varðveislu í eitt ár.

VEGLEG SÝNING laugardaginn 3. maí í tilefni af 200 ÁRA AFMÆLI REYKJAVÍKUR.Við undirbúning sýningarinnar er megináhersla lögð á vinnu og nám í tengslum við sögu borgarinnar innan marka skólahverfisins. Líkön eru gerð af merkum húsum, svo sem Bernhöftstorfunni. Nemendur kynna sér sögu húsanna og byggðaþróun hverfisins. Á meðan þessi vinna fer fram er hefðbundið skólastarf brotið upp og samstarf kennara og nemenda aukið. Skilar það góðum árangri og eykur félagsandann (sjá síðar).

Nemendur 9. b. (þeir elstu) fá KENNSLU Í TÖLVUFRÆÐUM í Tónabæ við Skaftahlíð. Nemendur 7. og 8. b. fá allir kennslu í verklegri sjóvinnu í tólf kennslustundir. Fara þeir í sjóferð með vélbátnum Mími út á Faxaflóa þar sem færum er rennt. Nemendur 8. b. fá fá kennslu í vélfræði (hver nem. 16 st.). Nokkrir nemendur 9. bekkja fara í náms- og kynnisferð til DANMERKUR og dvelja á heimilum pennavina í Dianalund og Lyngby.

Tveir dagar eru notaðir til JÓLASKEMMTANA líkt og verið hefur undanfarin ár. Nemendur sjá um skemmtiatriði í bíósalnum undir stjórn kennara sinna og eru sýningarnar teknar upp í fyrsta skipti á myndbönd (video). Þökk sé framsýni og framtaki Guðmundar Sighvatssonar, yfirkennara. Hann hafði skömmu áður keypt fyrsta myndbandstæki skólans og fengið alvarlegar athugasemdir frá innkaupadeild Reykjavíkurborgar fyrir þau fjárútlát. Skólahald fyrir jól endar með því að farið er með nemendur 3. til 9. bekkja í Hallgrímskirkju þar sem hlýtt er á messu.

 Umsjónarkennararnir Jón Marteinsson og Kristín Alfreðsdóttir ásamt nemendum sínum úr unglingadeild.

 

 Jón Ólafsson, fyrrum skólastjóri í Gerðaskóla, kenndi um skeið við Austurbæjarskólann.

 

"NÝJUSTU TÖLUR ÚR AUSTURBÆJARSKÓLA"

Skólaslit fara fram fimmtudaginn 29. maí sökum undirbúnings fyrir borgarstjórnarkosningar sem fram fara laugardaginn 31. maí. Kjördeildir eru venju samkvæmt á neðri gangi skólans. Ýmsir kennarar, bæði núverandi og fyrrverandi, vinna við dyravörslu á kjörstað og fá vel borgað fyrir. Gangaverðirnir, Sigurgeir Líkafrónsson, Indriði Halldórsson og Ingvar Guðjónsson (ekki allir á sama tíma), baðvörðurinn Ragnar Jónsson ásamt húsvörðum skólans, Óskari, Hjörleifi, Gunnari og Valdimar, sem sumir stoppuðu stutt við, bera hitann og þungann af framkvæmd kosninganna.  Skólaportið fyllist af bílum og útsendingarbúnaði ljósvakamiðla. Orðtakið „nýjustu tölur úr Austurbæjarskóla“ heyrist iðulega í kosningasjónvarpi og verður ýmsum tamt í munni löngu eftir að hætt er kjósa og telja atkvæði í skólanum. Það gerist eftir að Ráðhús Reykjavíkur er tekið í notkun árið 1992. Á milli kosninga eru kjörkassar, fortjöld fyrir kjörklefa og fleira geymt uppi á háalofti skólans.

Valdimar Rósinkrans Jóhannsson, húsvörður á síðasta áratug 20. aldarinnar. Ljósm. RAX. Mbl. 18. apríl 1991.

Kjörkassar og annar búnaður tengdur kosningum er geymdur á háalofti skólans. Húsverðirnir hver á eftir öðrum: Óskar, Hjörleifur, Gunnar og Valdimar, gangaverðirnir Sigurgeir, Ingvar og Indriði og Ragnar baðvörður kunna einir manna skil á því dóti öllu saman. Engu er líkara en þeir hafi kosningarétt Reykvíkinga í hendi sér. Illa færi ef þeir myndu allir forfallast sama kjördaginn.

Austurbæjarskólinn er einn af kjörstöðum Reykvíkinga fram á niunda áratuginn. Kjördeildir eru á neðra gangi skólans. Yfirkjörstjórn leggur undir sig kennarastofuna og virkjar ótal símalínur sem liggja inn í húsið og eru aðeins notaðar á kjördegi. Talning atkvæða fer fram í íþróttasalnum og þar eru úrslit kosninga lesin upp í beinni útsendingu, fyrst í útvarpi og svo einnig í sjónvarpi eftir að það kemur til sögunnar árið 1966. Löngu eftir að talning atkvæða og miðstöð yfirkjörstjórnar flytjast í Ráðhúsið árið 1992, er gripið til orðatiltækisins “hér koma nýjustu tölur úr Austurbæjarskóla”. 

                             Atkvæði talin í íþróttasalnum. Magnús Bjarnfreðsson les upp nýjustu tölur úr Austurb.sk.                                                                                        

 Fróðlegt er að vera dyravörður í kjördeildinni í stofu 1 (núverandi tölvustofu). Þar kjósa m.a. fínar pelsklæddar frúr af Bergstaðastrætinu og “óstaðsettir” í Reykjavík, þ.e. útigangsmenn og fangar úr Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Mannlífsflóran gerist varla fjölbreytilegri en þarna en allir hafa sama atkvæðisrétt háir sem lágir. Einhvern kjördaginn mæta þeir sem hita og þunga bera af framkvæmd kosninganna snemma morguns til að ráða ráðum sínum og taka stöðuna. Þá gerist það, sem aldrei hafði gerst, að Ragnar baðvörður lætur bíða eftir sér. Það þykir undarlegt, þvi hann mætti yfirleitt manna fyrstur. Þá kemur maður gangandi og flytur mönnum þær sorgarfréttir, að Ragnar hafi andast í svefni þá um nóttina. Menn setur hljóða við tíðindin og þegja nokkra stund enda mjög brugðið. Loks er þögnin rofin þegar starfsmaður  yfirkjörstjórnar spyr:  “Á ég þá að taka hann af launaskrá?” “Nei”, segir Jón G. Tómasson formaður yfirkjörstjórnar að bragði, “hann er með okkur í anda”. 

Nýjustu tölur úr Austurbæjarskóla sæta stundum tíðindum, t.d. þegar Vigdís Finnbogadóttir er kjörin forseti Íslands. Stella, dóttir Sigurgeirs og Önnu, síðustu ábúendanna í skólanum rifjar upp  þann kjördag 40 árum síðar:

Í kjörstjórninni í Austurbæjarskóla fékk ég að valsa um óáreitt inn í íþróttasal þar sem talningin fór fram. Man ennþá þessa tilfinningu að eitthvað stórmerkilegt og sögulegt var að eiga sér stað, þó ég væri bara 10 ára. Mér þótti þetta allt svo ótrúlega spennandi og fannst ég skipta svo miklu máli þar sem ég endasentist um skólann með sínalcó, spur og smörrebröd. Finn ennþá lyktina og spennuna sem ríkti á meðal þeirra sem störfuðu við talninguna. Man ennþá eftir miðabunkunum og kjörkössunum ...

 

 Sigurgeir Líkafrónsson, dyravörður og Arnþór Ingólfsson, lögregluþjónn tilbúnir að loka kjörstað kl. 23:00.

 Ekki er kosið í Austurbæjarskólanum eftir að Ráðhúsið er tekið í notkun árið 1992. En nokkra kjördaga þar á eftir knýr fólk dyra í skólanum til að fá að kjósa, en lendir stundum í staðinn á vorhátíð skólans og bregst misvel við. 

                                                                                                                                                       PHJ

 

        Magnús Bjarnfreðsson, fréttamaður sjónvarpsins tekur viðtal á kjördag.

Mbl. 28.10.2017.

 

NEMENDASÝNING Í TILEFNI AF 200 ÁRA AFMÆLI REYKJAVÍKUR  -

MARGIR GAMLIR NEMENDUR KOMA Á SÝNINGUNA

Á sýningunni um helgina var lögð sérstök áhersla á sögu þess bæjarhluta sem telst vera skólahverfi Austurbæjarskólans, þ.e. frá Lækjargötu meðfram Tjörninni og suður að flugvelli, Þingholtin, Skuggahverfið og austur fyrir Snorrabraut. 

Undirbúningur sýningarinnar var þannig, að hver árgangur fékk viss verkefni. T.d. fékk 7 ára árgangurinn hafnarsvæðið og sjöundi bekkur vann verkefni um Bernhöftstorfu, svo eitthvað sé nefnt. “Það var ekki nóg fyrir 7 ára bekkinn að sjá höfnina eins og hún er í dag, heldur var farin vettvangsferð um borgina, m.a. til þess að sjá hvert grjótið var sótt, hvar járnbrautin hafði legið o.s.frv. Síðan var farið niður að höfn. Þá vildi svo til að nokkur alda var og braut yfir garðinn og þá sáu börnin tilganginn með því að hrúga öllu þessu grjóti þarna,” sagði Alfreð (Eyjólfsson, skólastjóri).

 Margir gamlir nemendur komu á sýninguna. Þeir halda flestir vissum tengslum við skólann og þykir gaman að fylgjast með því sem er að gerast, sagði Alfreð

Morgunblaðið 13. maí 1986.

 

1986-1987   - JÓLUM FAGNAÐ Í NÝVÍGÐRI HALLGRÍMSKIRKJU - BRUNI Í BEINNI ÚTSENDINGU

Síðasta skóladag fyrir jól er farið með alla nemendur í messu í nývígðri og glæsilegri Hallgrímskirkju. Nokkrir foreldrar taka þátt í athöfninni.

Röskun verður á kennslu nokkurra bekkjardeilda vegna verkfalls HÍK.

Það ber til tíðinda þetta skólaár, að kveikt er í byggingarefni (m.a. einangrunarplasti) í stigagangi í norðurálmu skólans, þ.e. gangi sem liggur að baki íþróttasalar og upp í bókasafn, sex ára deild (forskóla), kennslueldhús og stofu 25. Lögregla og slökkvilið mætir á staðinn sem og fjölmiðlamenn. Þeirra á meðal er fréttamaður nýstofnaðrar útvarpsstöðvar, Bylgjunnar sem staðsett er í byggingu sem áður hýsti Osta- og smjörsöluna við Snorrabraut. Lýsir hann brunanum í beinni útsendingu. Sá fréttamaður verður síðar vel liðinn smíðakennari við skólann. Stigagangurinn verður fyrir skemmdum og mengun er mikil af völdum reyks. Bókakostur og önnur safngögn verða ekki fyrir tjóni. En hreinsa þarf allt safnið og endurraða bókum. Tekur það mikinn tíma og truflar safnvinnu mjög mikið.

Safnvinna féll niður nokrrar vikur í vetur vegna brunaskemmda á norðurálmu skólans. Bókakostur eða önnur safngögn urður ekki fyrir skemmdum en gangur fyrir framan brann mikið og mengun var mikil. Það þurfti að hreinsa allt safnið og endurrraða bókum, tók þetta mikinn tíma, einnig var norðurálman máluð. Að sjálfsögðu truflaði þetta safnvinnu mjög mikið.

Heimild: Ársskýrsla um skólasöfn skólaárið 1986 til 1987.                                                  Bjarni Gíslason og Vilborg Dagbjartsdóttir.

BÓKASAFNIРþykir sem fyrr allt of þröngt. Nú er áætlað að taka alla neðri hæð norðurálmunnar undir safnið, þar eru ekki burðarveggir í skilrúmum og tiltölulega einfalt að breyta rýminu í nothæft skólasafn. Upphaflega var þetta lítill íþróttasalur fyrir ofan hinn leikfimisalinn. En aldrei fékkst fjárveiting til að setja trégólf í salinn og olli það miklum deilum fyrstu áratugina sem skólinn starfaði. En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.

Tónmenntarstofan, sem staðsett er í stórri stofu í norðurálmu, fæst loks máluð, sem og fleiri vistarverur sem urðu fyrir mengun og reykskemmdum í áðurnefndum bruna.

 

 Vorgleði á vegum foreldrafélagsins.

 

 

1987-1988 - SJÓVINNA - SKÓLASKIP - VÉLFRÆÐI - FJÖLBREYTT TÓMSTUNDASTARF

Nemendur 7. bekkja, sem nú myndu kallast 8. bekkir, fá kynningu á sjóvinnu- og vélfræðigreinum. Enn fremur fara þeir í stutta sjóferð með skólaskipinu. Hið sama á við um nemendur 8. bekkja sem velja sér verklega sjóvinnu. Fjórir ljúka námi í siglingarfræðum, sem gefa skipstjórnarréttindi á allt að þrjátíu tonna skipum.

Fjölbreytt tómstundastarf í samvinnu við Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar skilar skólanum nokkrum verðlaunagripum í ýmsum greinum. Átta hópar eru í ljósmyndun, sjö í borðtennis, átta í fluguhnýtingum og þrír í skák.

Tólf ára börn taka þátt í úrslitakeppni um umferðarmál í útvarpi og færa skólanum tvo bikara, annan til eignar.

Um haustið eru nemendur unglingadeildar eru „menn vikunnar“ í sjónvarpi og vekja mikla athygli.

Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur fyrir nemendur í kjallara Vörðuskólans í fremur þröngum húsakynnum. En óhætt er að segja að nemendur fái fagra tóna sveitarinnar beint í æð sökum nálægðar við hljóðfæraleikarana.

    Páll Pamplicher Pálsson stjórnar hljómsveitinni. Börn úr Tónmenntarskóla R. spila með í Leikfangasinfóníu L. Mozarts.

 

1988-1989

Skóla er lokað vegna bilunar á frárennslislögnum dagana 11. og 12. janúar og aftur vegna óveðurs 23. janúar. Veruleg röskun verður á íþróttakennslu í janúar og fram í febrúar vegna skemmda á gólfi íþróttasalar eftir vatnsflóð. Mikið tómstundastarf er í skólanum í samvinnu við íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar. Eru tuttugu hópar starfandi tímabundið. Í framhaldi af kennslu í framsögn er myndað ræðulið unglingadeildanna, sem tekur þátt í RÆÐUKEPPNI FRAMHALDSSKÓLANNA og hreppir farandbikar fyrir frammistöðuna (sjá síðar).

Enn er staðsetning skólabókasafnsins til umræðu. Það hefur lengi staðið til að rýmka um safnið, sem þykir bæði illa staðsett og alltof þröngt. Nú stendur til að taka stofur 9 og 10 ásamt milligangi undir safnið. Þessar stofur eru næstar kennarastofunni og skrifstofum skólans. Þannig yrði safnið eins miðsvæðis og hægt er að koma því. Gangi allt eftir áætlun, verður þetta gert í sumar.

Í lok maí sér foreldrafélagið um sumargleði í skólaportinu og er þátttaka nemenda og foreldra mjög mikil. Um líkt leyti gengst foreldrafélagið fyrir hreinsunardegi.

Yngri deildir skólans fara í vettvangsferðir um borgarlandið um haustið. Allmargir bekkir heimsækja söfn og stofnanir, t.d. Þjóðminjasafn, Árbæjarsafn, Sjóminjasafn og Náttúrugripasafn auk ýmissa listasafna og sýninga. Allir fara í lengri eða skemmri vorferðir. Nemendur frá 4. bekk fara einn dag í skíðaferð á Bláfjallasvæðið. En 8. bekkir fara í fjögurra daga skíðaferð til Akureyrar. Tveir bekkir fara í skólabúðir í Reykjaskóla í Hrútafirði. Nemendur 3. bekkja fara að Alviðru í Ölfusi í samvinnu við Landvernd og foreldra. 4. og 5. bekkir taka þátt í gróðursetningu á vegum Landverndar uppi við Rauðavatn. Allt gengur þetta áfallalaust fyrir sig.

 

1989-1990 

 

AÐALNÁMSKRÁ GRUNNSKÓLA 

 

 

Ný aðalnámskrá grunnskóla öðlast gildi og kemur til framkvæmda á skólaárinu 1989 - 1990. Hún kemur út í einni 196 blaðsíðna bók, Í formála Svavars Gestssonar menntamálaráðherra segir m.a.:

Aðalnámskráin byggist í fyrsta lagi á lögum landsins og stjórnarskránni. Í annan stað á þeirri reynslu sem fengist hefur í skólanum á undanförnum árum og áratugum. Í þriðja lagi er reynt eins og kostur er að taka tillit til þróunar í skólamálum og aðstæðna, bæði hér heima og erlendis. 

Sérstakur kafli er um gildi námsgreina og takmörk. Tekið er fram að þótt viðfangsefni grunnskóla séu hér flokkuð í afmarkaðar námsgreinar, geti einstakir skólar skipulagt starf sitt á annan hátt, t.d. með því að tengjasaman einstök viðfangsefni tveggja eða fleiri námsgreina.  

Námsgreinarnar sem sérstakan kafla fá í námskránni eru eftirtaldar: Erlend mál, danska, (norska, sænska), enska, heimilisfræði, íslenska, kristin fræði þar með talin siðfræði og trúarbragðafræðsla, mynd- og handmennt, háttúrufræði (eðlis-, efna- og líffræði), samfélagsfræði-samfélagsgreinar, skólaíþróttir, stærðfræði og tónmennt. Aðrir námsþættir eru taldir þessir: Almenn mannréttindi, félagsmál í skólum, fíknivarnir, jafnréttisfræðsla, kynfræðsla, skyndihjálp, tölvur í grunnskólum, umferðarfræðsla og valgreinar. 

 

LESTRARBÆKUR

 

                                                                    

 

                                                                    

 

 

ÍÞRÓTTIR    

                                                                              

    Keppt í langstökki á skólalóðinni. Jason Ívarsson kennari með kúst í hendi.

 

ÚR ÍÞRÓTTAANNÁL AUSTURBÆJARSKÓLA

Líkt og undanfarin ár hefur íþróttakennslunni í skólanum verið skipt í annir. Byrjað var á útileikfimi, þ.e. hlaupum, langstökki, knattspyrnu og leikjum. 19. október var síðan haldið skólamót í 5.-9. bekk. Þátttökugreinar voru þrjár, langhlaup (2200 m), spretthlaup (100 m) og langstökk.

...

Eftir að hafa byrjað úti í haust fluttum við okkur inn og tókum þá fyrir aðrar íþróttagreinar. Vetrinum var skipt niður í tímabil og tekin fyrir ákveðin grein íþrótta í ákveðin tíma. Má þar nefna knattspyrnu, körfubolta, blak, handbolta, fimleika og að sjálfsögðu dansinn vinsæla. Í dansinum unnum við alveg saman og dönsuðum fimm fimmtudagsmorgna með 5.-9. bekk. Gekk það mjög vel og krakkarnir fljótir að ná grunnsporunum. Eftir danstímabilið prófuðum við þau í polka og valsi og gekk það mjög vel og auðséð að þeir nemendur sem voru í dansi í fyrra, voru búnir að ná góðum tökum á dansinum. Dansinn á tvímælalaust rétt á sér í grunnskólakennslunni og vonandi að kennslan sú sé komin til að vera.

...

Í febrúar komu nokkrar stúlkur til kennara síns og spurðu hvort þær mættu skipuleggja og sjá um íþróttamót i höllinni einhvern daginn. Vildu þær hafa þar handknattleik, knattspyrnu og körfuknattleik. Þetta var auðsótt mál og tóku þær að sér að sjá um framkvæmdina að öllu leyti. Það skal tekið fram, að þarna voru kvenskörungar á fer sem vildu sinna sínu kyni og ætluðu ekki að sjá um neitt handa strákunum.

...

Þann 23.03. var haldinn íþróttadagur í Austurbæjarskóla. Sá háttur var hafður á fyrir ári síðan að tengja íþróttadag eldri nemenda við árshátíð þeirra. Reyndist þetta fyrirkomulag vel og var því ákveðið að endurtaka þetta. Þessi íþróttadagur tókst í alla staði vel rétt eins og árshátíðin um kvöldið.

...

4. maí var haldin í Laugardal og nágrenni Íþróttahátíð Grunnskóla Reykjavíkur … Viljum við íþróttakennarar Austurbæjarskóla koma á framfæri þakklæti til kennara og yfirvalda skólans, fyrir hversu vel var að þessu staðið að þeirra hálfu. Akstur frá og til skóla með yngri nemendur gerði þeim kleift að vera með. Það var umtalað hvað Austurbæjarskóli mætti með langflesta nemendur í yngri aldurshópum. … Að lokum viljum við benda á mikilvægi Laugardalshallarinnar í íþróttastarfi Austurbæjarskóla.

Eins og sjá má er mikið um að vera í íþróttunum í skólanum þó ekki fari alltaf mikið fyrir því.                                                                                       

Friðbjörn Örn Steingrímsson, Jóhanna Ásmundsdóttir.

 

Jóhanna Ásmundsdóttir íþróttakennari.

 

 Friðbjörn Örn Steingrímsson, Guðrún Halldórsdóttir og Héðinn Pétursson.

 

SLÆMT ÁSTAND HÚSNÆÐISINS

Það hefur ekkert orðið úr þeim breytingum, sem til stóð að gera á safninu, og stöðugt verður þrengra um safnkostinn. Nú er svo komið að ekki er lengur hillurými fyrir bækurnar og þarf að stafla þeim ofan á og á bak við í hillunum. Fjárveitingar til viðhalds skólans hrökkva engan veginn til allra nauðsynlegustu viðgerða. Foreldrafélagið efndi til herferðar í því skyni að vekja athygli á slæmu ástandi húsnæðisins og þegar myndir birtust í dagblöðum af salernum skólans, hélt fólk að þær væru af einhverju munaðarleysingjahælinu í Rúmeníu. Í sumar verður því hugað að salernismálum og einnig stendur til að lagfæra þakið sem lekur. Skólasafnið bíður betri tíma.

Heimild: Ársskýrsla um skólasöfn skólaárið 1989 til 1990.  Vilborg Dagbjartsdóttir og Alfreð Eyjólfsson.

 

ÚTISALERNIN

 

 

Það hefur verið mjög erfitt að fá borgina til þess að leggja fram fé til þess að viðhald skólanum. Skólinn þarfnast mikilla endurbóta og sérstaklega eru salernin fyrir neðan allar hellur, sagði Guðni Olgeirsson, stjórnarmaður í Foreldra- og kennarafélagi Austurbæjarskóla, í samtali við Þjóðviljann í gær. Félagið hefur kært hreinlætisaðstöðuna í skólanum til heilbrigðiseftirlitsins.

viðhald skólans hefur verið vanrækt um langan tíma og hann ber þess glögg merki.

Alfreð Eyjólfsson, skólastjóri Austurbæjarskóla, sagði við Þjóðviljann í gær að samkvæmt lauslegri áætlun þyrfti um 80 milljónir krónq til þess að gera nauðsynlegar endurbætur á skólanum. “Það er margt gott og sígilt í þessum skóla, en það þarf að laga húsnæðið og gera það að betri vinnuaðstöðu fyrir kennara og nemendur. Spurningin er um hver mikið fé yfirvöld vilja veita til verksins” sagði Alfreð.

gg. Þjóðviljinn 28. apríl 1990. Ljósmynd: Kristinn. 

 

 

 

VINÁTTUHÓPUR

Snemma árs 1989 kom fram sú hugmynd að vinna fyrirbyggjandi starf með nokkrum unglingum í Austurbæjarskóla. Ástæðurnar voru m.a. þær að félagsþörfum unglinga í hverfinu er illa sinnt. Starfið var ekki hugsað sem meðferð af neinu tagi, enda annarra að sinna því. Haustið 1989 bættist síðan þessi nýi þáttur við félagsstarf skólans. Tilgangur starfsins er m.a. að:

1. Skapa sem jákvæðasta sjálfsímynd hjá unglingum, byggða á þeirri hugmyndafræði að vera hæfur til einhvers, að vera einhvers virði og að geta ráðið við aðstæður.

2. Veita stuðning, fræðslu og ráðgjöf varðandi hin ýmsu mál sem snerta unglinga og út frá þeirra forsendum.

3. Fjalla á raunhæfan hátt um þá möguleika sem unglingar standa frammi fyrir og hjálpa þeim að velja.

...

Hópurinn hittist einu sinni í viku á miðvikudögum kl. 17-22. Sumir fundirnir stóðu þó lengur. Aðsetur hópsins var í þokkalegri íbúð í skólaathvarfinu.

Eiríkur Ellertsson og Vilborg G. Guðnadóttir:                                                        GREINARGERÐ. Starfsemi "Vináttuhóps í Austurbæjarskóla veturinn 1989-1990.

 

ATHVARF

Haustið 1974 hófst starfsemi í athvarfi skólans og hefur það verið rekið óslitið síðan. Það er til húsa í "skólastjóraíbúðinni" Í athvarfi hafa flest verið 16 börn samtímis en þau eru vistuð þar vegna ýmiss konar erfiðleika. Vistun barna í athvarf er ákveðin af skólastjóra að höfðu samráði við sálfræðing skólans eftir að athugun hefur farið fram. Ósk um athvarfsvistun kemur ýmist frá foreldrum eða kennurum. Þann tíma sem börnin dvelja í athvarfi er reynt að hafa viss uppeldisáhrif á þau, sem miða að því að auka andlega og líkamlega vellíðan þeirra og gera þau færari um að njóta sín og ná sem bestum árangri í námi og góðum samskiptum við önnur börn. Athvarf er ekki ekki dagheimili eða gæslustaður fyrir börn almennt.

Félagsleg þjálfun - aðstoð.

A. Starfið er fólgið í samveru - samskiptum og leiðbeiningum eins og starfsfólki finnst eðlilegt á heimilum og í skóla. Tölum við börnin og reynum að koma á móst við þarfir þeirra með umhyggju og atlæti. Aldur skiptir ekki máli í leik eða starfi. Góður vinskapur tengist oft í athvarfi. Margar heimsóknir frá eldri nemendum athvarfs sanna það. Tíð samtöl við aðstandendur - en flest koma börnin frá einst. foreldri.

B. Heimanám.

Öll fá aðstoð og er heimanám unnið í athvarfi. Vilja til verks getur skort og er þá reynt að finna leiðir gegnum leiki eða á annan hátt til þroska.

C. Bein kennsla.

Svo er yfirleitt ekki. Þó í samráði við umsjónarkennara, ef nem. hafa t.d. misst af kennslu - í einhv. grein. Ef nemi dregst aftur úr námi getur líka verið um beina innlögn að ræða - kennslu.

D. Annað

Hreinlæti og heilbrigði. Gott samstarf við hjúkrunarfræðing um þessa þætti. Borðhald og borðsiðir.Slegið á matvendni. Komið hefur fram í foreldraviðtölum að einstök börn borði ekki "grænmeti" heima hjá sér. Hjá okkur er allur matur MATUR.

Vikulegir fundir á mánudögum með skólastjórnendum, hjúkrunarfræðingi, sérkennurum, sálfr. og starfsfólki til að efla vægi starfsins. Farið hefur verið í einstakar ferðir,svo sem Náttúrufræðistofnun við Hverfisgötu 116 - Hallgrímskirkjuturn. Þá hafa reglulegar sundferðir barnanna f.h. í S.H.R. verið mjög vinsælar og gagnlegar.

Starfsfólk: Árni Gunnarsson kennari, Ása Guðjónsdóttir, húsm.skpr. Laugum, Jason Ívarsson kennari, Þórunn Einarsdóttir húsm.

 

 AUSTURBÆJARSKÓLINN 60 ÁRA

                                             

 

 

   DV greinir frá afmælinu 25. maí 1990. Ljósmyndir: GVA.

     

     

... og Morgunblaðið líka.                                 

 60 ÁRA AFMÆLIS SKÓLANS minnst 19. maí. Lúðrasveit verkalýðsins fer í fararbroddi um hverfið með fjölda fólks í skrúðgöngu. Svo er slegið upp hátíð í porti skólans. Hljóðkerfi borgarinnar fengið að láni og flutt skemmtiatriði á útisviði. M.a. fremur Ilmur Kristjánsdóttir, síðar leikkona, gjörning á sviðinu, er felst í því að borða banana. Eldri kór skólans flytur syrpu af léttum lögum í suður-amerískum stíl. Yngri kórinn syngur nokkur Reykjavíkurlög.

Um sumarið færir tónskáldið Jón Ásgeirsson tónmenntarkennaranum Pétri Hafþóri Jónssyni þrjú frumsamin lög. Þau eru samin við ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur, svilkonu tónskáldsins, í tilefni af sextíu ára afmæli hennar. Ófullburða flutningur fer fram utan við heimili Vilborgar á Bókhlöðustígnum á afmælisdegi hennar þá um sumarið. Ljóðin heita Tilbrigði við gamalt stef, Næturljóð og Á Vestdalseyri.

 

Frumflutningur á nýjum lögum Jóns Ásgeirssonar við ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur á afmælisdegi  skáldsins í júlí 1990. Erfitt er að safna kórfélögum saman þennan dag enda hásumar. 

 

RÆÐUKEPPNI GRUNNSKÓLABARNA

Ræðukeppni grunnskóla Reykjavíkur var haldin í fjórða sinn í gær. Að þessu sinni kepptu til úrslita elsti grunnskóli Reykjavíkur, Austurbæjarskóli, og sá yngsti, Foldaskóli. Austurbæjarskóli vann keppnina í fyrra og hafði því titil að verja. Keppnin var afar spennandi og tók langan tíma fyrir dómarana að skera úr um hvort liðið hefði unnið. Niðurstaðan var að Austurbæjarskóli sigraði, fékk 1488 stig. Foldaskóli fékk 1486 stig. Munurinn gat ekki verið minni, enda sagði dómarinn þegar hann tilkynnti úrslitin. „Hér kepptu tvö jafnsterk lið.“

Guðmundur Sighvatsson, yfirkennari í Austurbæjarskóla, sagði keppnina hafa margar jákvæðar hliðar. „Nemendurnir læra margt af þessu. Ég álít t.d.að keppnin sé mjög góð kennsla í íslensku. Nemendurnir leggja mikla vinnu í að semja góðan texta og þá er ímyndunaraflið virkjað til hins ýtrasta. Einn af íslenskukennurum skólans hefur verið með námskeið í framsögn í nokkur ár. Upphaflega var þetta valfag, en í vetur hefur, að ég held, allur áttundi bekkurinn verið í þessu námskeiði. Áhugi á framsögn er mjög mikill og hann má að miklu leyti þakka ræðukeppninni. Við höfum í mörg ár látið alla nemendur skólans, frá sex ára aldri til tólf ára aldurs, koma fram á sviði á jólaskemmtun. Þar hafa börnin þjálfast í framsögn og söng. Ræðukeppnin er gott framhald á þessu starfi … Jú, hún er vafalaust einn þáttur í því að kenna unglingum tjáningu, þannig að þeir þurfi ekki að tjá sig eins og frummenn“, sagði Guðmundur að lokum.

Egill Ólafsson, Tíminn Miðvikudagur 4. apríl 1990 bls. 8.

 

SKÓLABÓKASAFNIÐ

Sveinbjörn Markússon, fyrrverandi kennari við skólann, bindur inn tvö eintök af Barnabókinni eftir Stefán Jónsson, tvö heilleg eintök af næstum ófáanlegri bók, skreytir með gulli í minningu Stefáns og færir skólabókasafninu að gjöf. Enn fremur gefur Guðrún Halldórsdóttir kennari safninu gamlar bækur, þar á meðal nokkrar af gömlu barnabókunum sínum.

 

1990-1991

Unnið er að viðgerðum á skólahúsinu. Í fyrra var lokið við salerni í kjallara og í sumar verður gert við búningsklefa og sundlaug. Væntanlega kemur fljótlega að bókasafninu.

 

 

FÉLAGSSTARF VETURINN 1990 - 1991

 

 

Erling Ó. Aðalsteinsson sér um félagsstörf nemenda. Honum til fulltingis er Þór Björnsson íþróttakennari.

Félagsstarf í Austurbæjarskóla var unnið í samvinnu við Íþrótta- og tómstundaráð annað árið í röð. Samvinna þessi byggist upp á fjárveitingu sem gerði skólanum kleift að halda úti öflugu félagsstarfi í samvinnu og samstarfi með Í.T.R. Félagsstarfið er fólgið í alls kyns starfsemi sem fram fór bæði innan skólans og utan hans og er þar átt bæði við ferðalög, keppnir, opið hús og diskótek aðallega fyrir nemendur á aldrinum 10-15 ára.  ….

Tveir starfsmenn utan skólans voru ráðnir til starfa í félagsstarfið í vetur. Hér var um að ræða tvo 16 ára unglinga, fyrrverandi nemendur skólans. Þeir störfuðu á öllum diskótekum til umsjónar dýrum tækjum sem Í.T.R. hafði fjárfest í fyrir skólann. Ennfremur sáu þeir um að þjálfa upp tilvonandi plötusnúða. Kennarar skólans voru síðan ráðnir til starfa á kvöldskemmtunum skólans og gekk í alla staði mjög vel að manna þau kvöld. Undirrituðum hefur virst að samvinna krakkanna og kennaranna vera mjög góð ot telur að félagsstarfi sé vel sinnt í skólanum þar sem kennarar vinna með krökkunum.

Erling Ó. Aðalsteinsson:  Skýrsla um félagsstörf í Austurbæjarskóla 1990-1991.

      

  Á haustönn er boðið upp á ljósmyndun, fluguhnýtingar, leiklist og pílukast. Á vorönn eru í boði flokkar í ljósmyndun, fluguhnýtingum og skrautritun. Diskótek eru haldin þriðja hvern föstudag. Engin vandamál eru í sambandi við áfengisneyslu á þessum föstudagsböllum. Á opnum húsum á kvöldin er boðið upp á skipulagða dagskrá, horft á kvikmyndir af myndböndum, diskótek, billiard og önnur leiktæki í gangi. Nemendur sjá um ýmsar uppákomur, John Lennon kvöld, ratleiki og fleira. Einnig er boðið upp á opin hús eftir skóla, þ.e. frá 14:30 til 17:30. Þá er tíminn stundum nýttur til alls kyns leikja og keppna, s.s. í borðtennis, billiard, fótboltaspili og fl. 

Nemendur skólans taka þátt í ýmsum kppnum skipulögðum af Í.T.R. og fleiri aðilum. Þar má nefna ræðukeppni gurnnskólanna, skákkeppni, skíðakeppni, “pool”-keppni, handboltakeppni og fluguhnýtingakeppni. Héðinn Pétursson kennari er leiðbeinandi í fluguhnýtingum. Farið var í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði með 7. bekk í eina viku. 9. bekkur fór helgarferð í Landmannalaugar. Skólakórarnir fóru á landsmót ísl. barnakóra á Akureyri. 9. bekkur fór í fjögurra daga skíðaferð til Akureyrar í mars. 7. bekkur fór í tveggja daga ferð í Alviðru. 10. bekkur fór í maílok í Þórsmörk og dvaldi þar í þrjá daga. Sú ferð ásamt skólabúða- og skíðaferðum er orðinn fastur liður í skólastarfinu. 7. bekkur Valborgar Helgadóttur fór í tíu daga ferð til Noregs. Þá ferð skipulögðu Valborg og nokkrir foreldrar. Auk þessa voru farnar nokkrar styttri ferðir, s.s. í Bláa Lónið.

ÁRSHÁTÍÐIN tekst mjög vel. Engu er til sparað við undirbúninginn. Hljómsveitin Sex-menn leikur fyrir dansi í íþróttasalnum Plötusnúður er Þórhallur. Auk þess sjá nemendur um skemmtidagskrá í bíósalnum.

 

Aðgöngumiði á árshátíð Austurbæjarskóla 1992.

 

LANDSMÓT ÍSLENSKRA BARNAKÓRA er haldið á Akureyri dagana 16. og 17. mars. Þangað fara tveir kórar úr Austurbæjarskóla. Eldri kórinn („stóri kór“) frumflytur lag Jóns Ásgeirssonar við ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur, Á Vestdalseyri. Kórstjórinn á afmæli þessa helgi og mikið gaman. Afmælistertan lendir hins vegar óétin ofan í frystikistu vinafólks á Akureyri, þar sem bílstjóri kórsins vildi flýta sér suður enda allra veðra von. Áð var í Staðarskála á suðurleið síðla kvölds og hið nýja tónverk flutt fyrir starfsfólk staðarins. Sá flutningur tókst undra vel enda allir sultuslakir og glaðir í lok skemmtilegrar helgar.

 

LANDVERNDARNÁMSKEIР

Í júnímánuði hefjast LANDVERNDARNÁMSKEIÐ hjá níu til ellefu ára börnum úr skólanum. Börnin dvelja í fjórum hópum, tíu í hverjum á útvöldum bæjum á Snæfellsnesi og í Mýrdal. Tilgangur námskeiðanna er að fræða börnin um umhverfið, náttúruna og að kynnast lífi og störfum til sveita. Þar eru þau í umsjá heimilisfólks auk kennara frá skólanum. Undirbúningur verkefnisins hefur staðið yfir í vetur og hafa eftirtaldir aðilar tekið þátt í því: Frá Landvernd, Auður Sveinsdóttir; frá Menntamálaráðuneyti: Sigurður Helgason deildarstjóri; frá Landbúnaðarráðuneyti: Níels Árni Lund; frá Stéttarsambandi bænda: Hákon Sigurgrímsson og frá Austurbæjarskóla: Guðmundur Sighvatsson. Nokkur styrkur fæst frá Vonarsjóði K.Í. , Landvernd, Framleiðsluráði landbúnaðarins og Menntamálaráðuneyti.

 

 

 

 

 

1991-1992 - TÖLVUVÆÐING BÓKASAFNSINS HEFST

Skref stigin í átt að TÖLVUVÆÐINGU BÓKASAFNSINS. Skólastjóri telur það illa staðsett í norðurálmu. Sú var engu að síður hugmyndin örfáum árum fyrr. Tölvulagnir verði að fara fram í framtíðarhúsnæði safnsins. Um sumarið er SKÓLAPORTIÐ brotið upp og endurskipulagt.

 

KÓR AUSTURBÆJARSKÓLA - GÖMUL STEF OG NÝ

Kór Austurbæjarskóla hljóðritar fimmtán lög í Seljakirkju dagana 16. og 17. nóvember 1991. Sigurður Rúnar Jónsson í Studio Stemmu sá um hljóðritun. Þórunn Sigurðardóttir lék á píanó og Hörður Áskelsson á orgel. Vilborg Dagbjartsdóttir les upp ljóð þau er Jón Ásgeirsson hafði samið lög við árinu áður. Kjartan Sigurjónsson, dönskukennari, er jafnframt organisti í Seljakirkju og útvegaði kirkjuna til verksins. Að loknum upptökum kvöldið 17. nóvember er farið út að borða í veitingahúsinu Ítalíu að Laugavegi 11. Heiðursgestur er Erling Aðalsteinsson, enskukennari, sem sér um tómstundastarf í Austurbæjarskóla og ersérstakur velunnari kórsins.

 

 

 

 

Kjartan Sigurjónsson, kennari og organisti Seljakirkju er gamall nemandi Austurbæjarskólans. Fyrir hans tilstuðlan og velvilja fær kórinn inni í Seljakirkju til hljóðritunar. 

 

NOREGSFERÐ SKÓLAKÓRSINS

 

 Kór Austurbæjarskóla í Troldhaugen, fyrrum heimili norska tónskáldsins Edvard Grieg.

 Flogið er með sérstöku leiguflugi á vegum Flugleiða í tengslum við íslenska menningardaga í Bergen dagana 19. - 24. maí. Tuttugu manna hópur fer úr Austurbæjarskóla, sextán kórstúlkur, kórstjóri, skólastjóri og ein hjón sem eru foreldrar tveggja kórstúlkna. Móðirin er hjúkrunarfræðingur, faðirinn bankamaður og sér um fjármál kórsins. Fargjaldið með leigufluginu er áætlað kr. 17.000 á mann. Annar kostnaður um 10.000 kr. 200.000 kr. styrkur fæst frá Reykjavíkurborg. Eitthvað er til í ferðasjóði. Frá mánudegi til föstudags er sungið í skólum víðs vegar um borgina. Einnig er sungið í litlum sal í Grieg -höllinni á undan sýningu Leikbrúðulands á Fernisúlfinum. Á laugardagsmorgni er farið í siglingu út á norska firði með bátnum White Lady. Aðrir farþegar þennan dag eru frægir sænskir leikarar, þar á meðal Max von Sydow. Kórinn syngur eingöngu íslensk lög. Hvert lag er kynnt á norsku af einhverri stúlknanna úr kórnum. Dagný Valgeirsdóttir kennari sneri kynningunum yfir á norsku. 

 

 Tvær kórstúlkur, Kolbrún Ýr Gísladóttir og Agla Marta Sigurjónsdóttir ásamt sænska stórleikaranum Max von Sydow.

Skólarnir þar sem kórinn kemur fram heita Gimle ungdomsskole, Lynghaug skole í Fyllingsdal, Oppigard barnehage, Haukeland skole og Rolland skole. Sums staðar fara kórstúlkurnar í kennslustund með norskum jafnöldrum sínum eftir að þær hafa troðið upp í samkomusal eða á bókasafni viðkomandi skóla. Alls staðar er boðið upp á hressingu.

 

NOTKUN REIÐHJÓLAHJÁLMA HEFST

Í maímánuði er gert átak í umferðarmálum, þar sem notkun hlífðarhjálma fyrir hjólreiðafólk er kynnt í samráði við lögreglu og námstjóra í umferðarfræðslu.

 

1992-1993 

NÝI BARNASKÓLINN

10. mars 1992 sýnir Sjónvarpið þáttinn Nýi barnaskólinn. Dagskrárgerð er í höndum Sigrúnar Stefánsdóttur. Í þessum þætti er saga Austurbæjarskólans rifjuð upp í samtölum við kennara og nemendur og kemur ýmislegt fróðlegt fram.

 

SKÓLAPORTIÐ ENDURHANNAÐ

Skólaportið brotið upp, endurhannað og endurnýjað sumarið 1992. Til að gera það sem vistlegast eru m.a. sett þar upp hlaðin trjábeð auk annarra hluta. Áður hafði portið verið eitt stórt, malbikað flæmi, mikið notað fyrir stórfiskaleik og kíló. Eftir breytinguna virðist sem þessir leikir fjari út.

 

Morgunblaðið föstud. 24. júlí 1992.

 

BUSAVÍGSLUR

Svonefndar busavígslur eiga sér langa hefð í menntaskólum landsins. Stutt er í galsann hjá ungviðinu og hefur mörgum staðið stuggur af ýmsum þeim aðferðum sem beitt er. Meðal grunnskólanema eru þessar athafnir hins vegar tilhlökkunarefni enda mikilsverður áfangi á menntabrautinni. Í Austurbæjarskólanum í Reykjavík eru krakkarnir byrjaðir að taka forskot á þessa sælu og vígja sérstaklega þá nema sem flytjast milli 7. og 8. bekkjar. Fyrir tilstilli Alfreðs Eyjólfssonar skólastjóra fer athöfnin hins vegar prúðmannlega fram. Í stað vatnsgusu og málningarslettna fá krakkarnir rósir.

DV 5. september 1992, baksíða.

 

1994 - STOFNUN NÝBÚADEILDAR

 Haustið 1994 tekur Nýbúadeild Austurbæjarskóla til starfa. Haustið áður hafði kennsluráðgjafi tekið til starfa hjá Reykjavíkurborg fyrir þennan málaflokk og á vormánuðum hafði Austurbæjarskóli beðið um fund með honum vegna víetnamskrar stúlku sem hafði aðeins verið einn vetur í skólanum en átti að hefja nám í 8. bekk þetta haust. Kennsluráðgjafi fagnaði áhuga kennara stúlkunnar og skólastjórnenda og óskaði eftir að deild yrði staðsett í skólanum. 

Sumarið 1994 sóttu Nína V. Magnúsdóttir og Guðrún Halldórsdóttir tveggja vikna námskeið um kennslu íslensku sem annars tungumáls og kenndi einnig fjórar vikur í Sumarskóla Námsflokka Reykjavikur en þá var íslenskukennsla fyrir innflytjendur nýkomna til landsins og þá sem stutt voru komin í tungumálinu.

Árni Gunnarsson skyldi kenna nemendum deildar Austurbæjarskóla en Nína Magnúsdóttir fara með stjórnun hennar og jafnframt kenna þar nokkra tíma skv. beiðni kennsluráðgjafans Ingibjargar Hafstað.

Strax fyrsta veturinn var mikil ásókn eftir plássi í deildinni, enda bylgja erlends vinnuafls að hefjast á þessum tíma. Næstu ár á eftir fjölgar nemendum stöðugt og einnig kennurum sem kenna við deildina. Árið 2000 er deildin flutt í stærra húsnæði og Nína Magnúsdóttir gerð að deildarstjóra. 

 

1994-1995 - FREKARI TÖLVUVÆÐING SKÓLABÓKASAFNSINS

Tölvuvæðingin hefur verið í fullum gangi í vetur og hafa nánast öll gögn safnsins verið tengd við tölvukerfið Dobis sem hefur fengið íslenskt nafn og heitir nú Fengur. … Því miður er skólasafnið enn á saman stað … herma nýjustu fréttir að safnið verði flutt í 3 kennslustofur eftir 1 ár eða svo. … er þetta orðið mjög brýnt og vonandi verður ekki nein töf á þessum áformum. Húsnæði skólasafnsins er orðið mjög lúið svo ekki sé meira sagt og plássleysi algjört.

Guðmundur Sighvatsson, Ingibjörg Pálsd., Inga Lára Birgisd.:  Ársskýrsla um skólasöfn skólaárið 1994-1995.

 

 

1996-1997 - SKÓLABÓKASAFNIÐ FLYTUR

Mikið hefur breyst til batnaðar á þessu skólaári hvað varðar skólabókasafnið. Safnið hefur flutt sig um set í skólanum og er nú í mun betra húsnæði en áður. Í sumar verður svo þriðju stofunni bætt við þær tvær sem fyrir eru, safnið dúklagt og málað og keyptur nýr hillubúnaður. … Stefánsdagurinn var haldinn í skólanum 16. maí en þá komu 4 rithöfundar á bókasafnið og lásu úr verkum sínum fyrir 5 árganga skólans.

Guðmundur Sighvatsson og Inga Lára Birgisd.: Ársskýrsla um skólasöfn skólaárið 1996-1997.