ÁRIN FRAM TIL 1945

Hér birtist fyrsti hluti úttektar þar sem stiklað er á stóru yfir sögu Austurbæjarskólans. Efnið er tekið saman til skemmtunar og fróðleiks, er stöðugt í vinnslu og er engan veginn tæmandi. Þeim, sem hafa eitthvað við þetta að bæta, er velkomið að hafa sambandi við stjórn Hollvinafélagsins. Virðið höfundarrétt. Copyright © 2019 Pétur Hafþór Jónsson.

 

1862    BARNASKÓLI REYKJAVÍKUR STOFNAÐUR 

Barnaskóli Reykjavíkur stofnaður. Þar læra börn lestur, skrift, reikning, biblíusögur, réttritun, landafræði og dönsku. Kennt er í Flensborgarhúsi gömlu timburhúsi í Hafnarstræti. Aðstæður í húsinu þykja slæmar.

 

1883

Barnaskólinn flyst að Pósthússtræti 3 – 5, hús sem byggt er undir skólann. Það er teiknað af F. Bald líkt og Alþingishúsið. Byggingarefnið hið sama: Hlaðið grjót. Seinna verður önnur starfsemi í húsinu: Lögreglustöð og löngu síðar Hitt húsið.

 

1898

NÝTT L-laga BARNASKÓLAHÚS (síðar Miðbæjarskólinn) úr timbri vígt við Tjörnina. Þar stunda 285 börn nám. Eftir að suðurálma hússins rís, verður það U-laga með porti í miðju. Það port verður vettvangur margra, merkra útifunda og annarra viðburða á komandi árum.

 

1907

LÖG UM FRÆÐSLUSKYLDU taka gildi. Börn yngri en tíu ára eiga að fá heimakennslu. Tíu til fjórtán ára sækja skóla eða fjarkennslu. Skólavist skal vera minnst sex mánuðir á ári. Reykvískum nemendum fjölgar úr 407 í 772.

 

1916

Reykvíkingum heldur áfram að fjölga.

„ … bæjarstjórnin feli skólanefndinni að taka til sérstakrar yfirvegunar nauðsyn og möguleika þess að byggja á næsta ári nýtt barnaskólahús fyrir bæinn, eða viðbót við núverandi skólahús.

Tillaga Sigurðar Jónssonar bæjarfulltrúa.

 

1918

Horft í austurátt yfir Rauðarárholt, líklega frá þeim stað þar sem Barónsstígur liggur nú. Ef grannt er skoðað má sjá gosmokkinn úr Kötlu bera við austurhimin. Vatnsgeymirinn í Rauðarárholti sést sem dökk þúst nálægt miðri mynd. Bæirnir heita Háteigur (ofar) og Sunnuhvoll (neðar). Ljósmynd: Magnús A. Ólafsson.

 

1924   ARKITEKTINN SIGURÐUR GUÐMUNDSSON

SIGURÐUR GUÐMUNDSSON, sem er við nám í Danmörku,  fær það verkefni að HANNA NÝTT SKÓLAHÚSNÆÐI fyrir bæinn. Það á að geta rúmað 600 nemendur. En hönnunin á að bjóða upp á möguleika á að stækka skólann um allt að helming.     Sigurður Guðmundsson sigldi til Kaupmannahafnar árið 1915 og innritaðist í arkitektadeild Listaakademíunnar. Þar stundaði hann nám meira eða minna til ársins 1925 en lauk þó aldrei námi. Með náminu vann Sigurður fyrir sér á teiknistofum í Kaupmannahöfn og sem blaðamaður, m.a. hjá Berlingske Tidende. Víst má telja að verkefnið um teikningu nýs barnaskóla hafi ráðið mestu um að Sigurður kýs að flytja heim en ljúka ekki náminu. Af öðrum verkum Sigurðar má nefna Elli- og hjúkrunarheimilið Grund, Hafnarhúsið, Stúdentagarðinn við Hringbraut, Ljósafossvirkjun, Elliðaárvirkjun, Sjómannaskólann og Þjóðminjasafn Íslands. Hafnarhúsið og tvær síðastnefndu byggingarnar teiknaði hann ásamt öðrum.

 

 ÚR DAGBÓKUM SIGURÐAR GUÐMUNDSSONAR 1924

 16. feb. Byrjaði á barnaskólanum júní.

Byrjaði aftur að teikna barnaskólann.

 1. júní. Byrjaði aftur að teikna barnaskólann.
 2. júlí. Byrjaði aftur á barnaskólanum.
 3. ágúst. Sýndi skólastjóra barnaskólateikn. Talaði um skólabygginguna í 4 klukkutíma.
 4. ágúst. Skólanefndarfundur. Nefndin yfirleitt ánægð með teikninguna, en samkomulag fékkst ekki um legu hússins á lóðinni.
 5. ágúst. Lagði fyrir borgarstjóra nýja tillögu um legu skólans. Féllst hann á hana.
 6. ágúst. Skólanefndarfundur. Viðstaddir voru borgarstjóri P. Halldórsson, Sigurður skólastjóri, Hallbjörn, Ólafur Friðriksson og ég. Á eitt sáttir um legu skólans. Fórum allir upp í Holt að athuga staðinn.

 

ÚR DAGBÓKUM SIGURÐAR GUÐMUNDSSONAR 1925

    24. jan. Ziemsen borgarstjóri var heima hjá mér að skoða skólateikningarnar

    30. jan. Sýndi Gartner Brandt og próf. Thomsen barnaskólateikningarnar.

 1. apríl. Fékk skólaplönin og bréf frá Ingeniör Birch
 2. maí. Teiknaði barnaskólann. – Heimsótti Ingeniör Birch.

 

 ÚR DAGBÓKUM SIGURÐAR GUÐMUNDSSONAR 1926

 

 1. des. Mælt fyrir barnaskólahúsinu.
 2. des. Byrjað að grafa fyrir skólahúsinu.

 

1927-1928   ÚR GJÖRÐABÓK BYGGINGARNEFNDAR

Á fundi byggingarnefndar barnaskólans við Vitastíg þann 31. maí árið 1927 eru lögð fram tilboð í byggingu kjallara barnaskólans ásamt tilboðum um rafmagns- og pípuleiðslur. Samþykkt er að taka tilboði Kristins Sigurðssonar múrara fyrir kr. 123.900; J. Þorlákssonar og Norðmann um pípulagnir kr. 2.300 og Bræðranna Ormsson um rafmagnslagnir fyrir kr. 1.945. Ári síðar eru opnuð tilboð í byggingu barnaskólahússins ofan kjallara. Samþykkt að taka tilboði Kristins Sigurðssonar Óðinsgötu 132 fyrir kr. 169.500. 31. maí árið 1929 er samþykkt að taka tilboði sama verktaka um frágang á þaki og múrsléttun utanhúss fyrir kr. 144.500. Það er reyndar eina tilboðið sem barst í verkið. Risgjöld eru haldin laugardagskvöldið 13. október 1928. (Heimild: Gjörðabók byggingarnefndar.) Ekkert ris er á húsinu og þakið flatt.

 

VANGAVELTUR UM JARÐHITA

Hitun húsa með vatni úr laugunum komst enn á dagskrá í bæjarstjórn. Hið helzta, sem gerðist í því máli, var það, að bæjarstjórn fékk veðurstofustjóra Þorkel Þorkelsson, er staddur var ytra, til að skreppa á bæjarins kostnað til Ítalíu til þess að kynna sér boranir, sem þar höfðu gerðar verið í Larderello til þess að fá aukið vatnsmagn í laugar þar syðra. Sýndi þetta lofsverðan áhuga á þessu máli hjá bæjarstjórn, þótt ekki kæmi að þessu sinni til frekari framkvæmda í málinu. 

Dr. Jón Helgason: Árbækur Reykjavíkur 1786-1936 bls. 351. 

 

 

  Nýi barnaskólinn rís úr jörðu. 

 

 

 Legu hússins ræður sól og umhverfi. Aðalhúsið snýr frá norðaustri til suðvesturs, og frá hvorum enda þess gengur álma til suðausturs. Hvor þeirra hefir stefnu eftir sinni götu. En þær hafa jafnstór sljó horn við aðalhúsið. Leikvöllur barnanna verður í húsagarðinum milli álmanna, – nýtur þar vel sólar móti suðaustri og skjóls við norðanátt. Mundi heppilegt að skifta vellinum í tvennt, handa stúlkum og drengjum. Takmörk hans að suðaustan verður bogi, hornrjett á álmurnar, og er sett þar upp lág leikskýli, svo að völlurinn verður umluktur að mestu. …   

Fyrsta og bezta prýði hverrar byggingar er hreinn heildarsvipur og vel vegin hlutföll. Og miklu varðar að húsið sje í samræmi við sinn stað og njóti sín sem bezt, þar sem það er sett. Þetta hefur vakað fyrir mjer. Skólahúsið og umhverfi þess – heilar, langar línur og stórir fletir – sýnist mjer vel til fallið að gera undirstöðu eða aðdraganda að þyrpingu hinna viðhafnarmeiri stórhýsa, sem von er á uppi á hæðinni kringum Skólavörðutorgið.

Sigurður Guðmundsson: Barnaskólinn nýi í Reykjavík, Ný menntamál 1928.

 

 

Eins og sest í dagbók Sigurðar Guðmundssonar næst ekki strax samkomulag um legu skólahússins. Líklega stafar það af því að þessi nýlega reista spennistöð verður að víkja fyrir skólabyggingunni. Ekki óeðlilegt að það standi í bæjarstórnarmönnum fyrst í stað.

 

HÁBORG ÍSLENSKRAR MENNINGAR 

Af þessum orðum má lesa, að hugmynd Guðjóns Samúelssonar um „háborg íslenskrar menningar“ er mikilvæg forsenda við hönnun hins nýja barnaskóla. Bæjaryfirvöld höfðu séð fyrir sér aðalálmu hússins niður með Bergþórugötunni. Sökum landhallans kýs Sigurður fremur að koma skólanum fyrir samsíða Vitastíg, enda þótt það kosti niðurrif nýreistrar aðveitustöðvar rafveitunnar (spennistöðvar) sem lendir upp undir vegg inni í miðju skólaportinu, eins og sjá má á gamalli loftmynd af byggingunni.

Nýi barnaskólinn stendur um allan útbúnað á sporði bestu skólum á Norðurlöndum. Hann er fyrsti skólinn hér á landi sem byggður er eftir fyllstu nútímans kröfum … Legu hússins ræður sól og umhverfi.

Ný menntamál 1928

Eins og fyrr segir verða áfangaskil í íslenskri byggingarlist með komu Sigurðar Guðmundssonar til landsins árið 1925. Fyrsta stórverkið er Sigurður skóp var Austurbæjarskólinn, eitt merkasta verk þess tíma. Því hefur reitt ótrúlega vel af og er nú friðað. Um svipað leyti reis Elliheimilið Grund af grunni, annað þýðingarmikið verk frá þeim tíma. Hefur það og þolað vel tímans tönn og fengið að vera í friði fyrir listrænu hnjaski. Einnig þetta hús ber að friða. Þá ber að friða húsin frá hinu nýklassíska skeiði Sigurðar, eins og listmálarahúsin við Bergstaðastræti 74, 74A, 72 og Laufásveg 69.

Hörður Ágústsson: Íslensk byggingararfleifð II, Varðveisluannáll, 1863-1930            Verndunaróskir bls. 323

 

Loftmynd af skólabyggingunni frá 1928. Loftur Guðmundsson tók myndina. Takið eftir hvíta húsinu inni í portinu. Það er hin nýreista spennistöð sem víkja þarf fyrir skólabyggingunni.

Sprengja þurfti á víðu svæði og djúpt hina óbilgjörnu ísaldarklöpp, sem lá í hallanum frá austri til vesturs með djúpum rákum, sem núist höfðu í bergið, þegar ísaldarjökullinn skreið af landinu.

Gunnar M. Magnúss: Austurbæjarskólinn 1930-1980 Afmælisrit.

Rýni maður í myndina má m.a. sjá heysátur bak við skólann. Einnig litla kofa og lítið íbúðarhús þar sem nú er Tækniskólinn (áður Iðnskólinn). Í einhverjum þessara húsakynna bjó gömul kona, sem krakkarnir í skólanum kölluðu "ömmu gömlu". Að sögn seldi hún gestum og gangandi sprútt. Hér að neðan er svo annað sjónarhorn.

 

NÝR BARNASKÓLI

Nýi barnaskólinn í Reykjavík er nú kominn undir þak og hjelt skólabyggingarnefndin hátíðleg risgjöld hans á Hótel Ísland 13. þ.m. Var þar fjölment og fagnaður góður og boðið verkamönnum og öðrum starfsmönnum byggingarinnar, bæjarstjóra og blaðamönnum, og nokkrum fleirum. Guðmundur Ásbjörnsson, sem nú er borgarstjóri, bauð gesti velkomna og sagði fróðlega frá aðaldráttum í sögu barnafræðslunnar í Reykjavík. Einnig talaði fræðslumálastjórinn og Pjetur Halldórsson fyrir íslensku handverki og handverksmönnum og Hallgrímur Jónsson kennari. 

Nýi barnaskólinn, sem stendur í skólavörðuholtinu utanverðu, er víst stærsta hús bæjarins og sagður mjög vandaður, svo að ekki sjeu nú betri skólahús til í nágrannalöndunum og hefur skólabyggingarnefnd gert sjer mikið far um að gera það sem best úr garði. Sigurður húsameistari Guðmundsson hefur gert uppdrættina að skólanum og haft yfirumsjón með verkinu, en Kristinn Sigurðsson byggingarmeistari annaðist steypuna, samkvæmt útboði, en alt verkið var boðið út og síðan fengið ýmsum, sem best boð þóttu gera. Byrjað var á verkinu vorið 1927 og væntanlega hefst kensla í skólanum að hausti. 

Skólahúsið er, sagði borgarstjóri, 1500 fermetrar að flatarmáli, kjallari og tvær hæðir. Í því eru 20 skólastofur, smíðasalur, hannyrðasalur, teiknisalur, söngsalur, myndasalur með 150 sætum til skuggamynda og kvikmyndasýninga, tveir leikfimisalir, náttúrufræðisalur, safaherbergi, skólaeldhús, heit og köld böð, heilbrigðisdeild fyrir lækni, tannlækni og hjúkrunarkonur, og loks allstór sundlaug, og svo kennarastofur og íbúðir fyrir skólastjóra og umsjónarmann. Húsið er bygt í ferhyrning og opið svæði inni á milli álmanna, en austurálman er lægst. Skólinn verður hitaður með laugarvatni og það einnig notað í sundlaugina og böðin. Í öllum gluggum er sjerstök glertegund, sem ultrafjólublátt ljós getur skinið í gegnum og á því að hafa mikla þýðingu fyrir bætt heilsufar, en er fjórum sinnum dýrara en annað gler.

Allur byggingarkostnaður skólans er áætlaður um 900 þús. kr. og hefur bærinn þegar lagt fram um 500 þús. kr. 

Miklar breytingar hafa orðið síðan fyrst hófst barnaskóli í Reykjavík 1830, og var einkaskóli fyrir um 20 börn. Nú sjer bæjarfjelagið um 2000 börnum fyrir fræðslu, sagði borgarstjóri, og er þeim skift í 69 deildir. Barnaskólinn við tjörnina, sem reistur var 1898 og stækkur 1907, var því orðinn alt of lítill, og þörfin á nýju húsi mjög brýn. Úr þeirri þörf er bærinn nú að bæta á mjög myndarlegan hátt og verður framtaksemi Reykvíkinga væntalega öðrum til hvatningar og fyrirmyndar í því að leggja sem ríkasta og alúðlegasta áherslu á barnafræðsluna eftir því sem best á við á hverjum stað.

Lögrejtta 17. október 1928 bls. 2.

 

BARNASKÓLINN

Um 2100 börn eru þegar innrituð í skólann í vetur og er þó enn von á fleirum. Þar að auki verða um 60 börn í deildum Kennaraskólans. - Nú þegar eru teknar til starfa 50 deildir í gamla barnaskólanum og 2 deildir að Sjónarhól í Sogamýri. 20 deildir (600) börn eiga að vera í nýja skólanum í vetur, en þær geta ekki tekið til starfa fyr en seinna, vegna þess að skólinn er ekki tilbúinn. 1. okt. áttu þar að vera tilbúnar 8 stofur (7 kenslustofur og kennarastofa), en nú stendur á byggingameistaranum. Er nú fyrst verið að teikna hurðir, sem áttu að vera komnar fyrir löngu. Verður því að bjargast við bráðabirgðahurðir og mun auglýst með 1-2 daga fyrirvara hvenær þessar skóladeildir geta tekið til starfa. Enginn skóli verður við Laugarnesveg nje á Vatnsstíg í vetur. Börn þau, sem þangað hafa sótt kenslu áður, verða í nýja skólanum í vetur. Nokkur breyting hefir verið gerð á kenslu í neðstu bekkjum skólans í vetur, samkvæmt námskrám frá fræðslumálastjóra. En það er ekki hægt að fylgja þeim út í æsar, vegna þess að þrísetja verður í 16 deildir og næst þá ekki nægilegur stundafjöldi. 130-140 börnum varð að synja um skólavist vegna þrengsla. Eru það börn yngri en 8 ára, en í skólann voru tekin rúmlega 600 börn innan skólaskyldualdurs (8-10 ára). Kennarar verða alls um 60. - Þegar nýi barnaskólinn er tilbúinn mun hann undir eins fyllast, enda þótt tvísett verði í hverja stofu. Og það hrekkur ekki til, ef skólaskyldualdur verður færður niður í 8 ár, eins og til stendur, því að þá bætast við um 300 börn (10 deildir). Er þá óhjákvæmilegt að fara að hugsa fyrir nýju skólahúsi, og þá í Vesturbænum.

Morgunblaðið 6. okt. 1929 bls. 11.

 

1929    KENNSLA HEFST Í NOKKRUM KENNSLUSTOFUM

KENNSLA HEFST Í SJÖ KENNSLUSTOFUM. Auk þess hafa starfsmenn skólans eina stofu til afnota. Almennt er talað um nýja barnaskólann eða skólann við Vitastíg. Skólinn við Tjörnina nefndur gamli skóli í daglegu máli. Sá skóli er fyrst nefndur Miðbæjarskóli í fundargerð þann 6. nóvember 1930.

 

Nýi barnaskólinn 

við Bergþórugötu tekur til starfa næstkomandi laugardag. Hefir dráttur nokkur orðið á því, að skólinn gæti tekið til starfa, meðal annars sakir þess,að eitthvert ólag hefir verið á vatnsleiðslunni inn í húsið.

Vísir miðvikudaginn 6. nóvember 1929, bls. 3.

SAMKVÆMT ÞESSU HEFUR KENNSLA Í SKÓLANUM HAFIST 9. NÓVEMBER 1929.

 

1930    NÝI BARNASKÓLINN

 

Sú langþráða stund nálgast óðum, að hinn nýi, fullkomni barnaskóli í austurbænum geti tekið til starfa. Hefir alt verið gert til þess að þessi nýi skóli mætti vera Reykjavíkurbæ til sóma. Allur ytri og innri útbúnaður verður eins fullkominn og völ er á. 20 kennslustofur verða í skólanum, er rúma 600 börn; en tvísett verður í hverri stofu í vetur, og verða því 1200 börn í skólanum. Öll skólaáhöld verða af nýjustu og fullkomnustu gerð. Skólinn kostar alt í alt um 1 milljón króna.                                        Reykjavíkurbær hefir vissulega gert sitt til þess, að nýi barnaskólinn mætti verða sannkallaður gróðurreitur í bæjarfélaginu, þar sem þroska mætti og rækta alt það besta, sem í mannssálinni býr. 

Morgunblaðið 29. sept. 1930. Ljósmynd: Loftur Guðmundsson árið 1928.

 

LAUGAVATNIÐ

 

Ljósmynd: Loftur Guðmundsson.

Um sumarið er LEIÐSLA MEÐ HEITU VATNI FRÁ LAUGUNUM („Laugardalnum“) tekin í notkun og verður skólinn fyrsta húsið sem tengist þeirri hitaveitu. Ljósmyndin hér að ofan er reyndar frá lagningu veitunnar frá Reykjum í Mosfellssveit árið 1942.

Á þessu ári var lokið byggingu nýs barnaskólahúss fyrir austurhluta bæjarins (austurbæjarbarnaskólans) við Vitastíg. - Þá var einnig gerð hitavatnsdælan við laugarnar. Fékkst við það nægilega mikið vatn til hitunar hins nýja landsspítala, tveggja barnaskóla og 56 íbúðarhúsa. Vatnsmagnið var 15 lítrar á sekúndu (90°C.). Dýpsta holan var 246 m. 

Dr. Jón Helgason: Árbækur Reykjavíkur 1786-1936 bls. 367.

 

HÚSGÖGN OG TÆKI TIL SKÓLANS

Sama sumar eru Sigurður Jónsson skólastjóri og Helgi Elíasson kennari sendir til Þýskalands til  kaupa á húsgögnum og tækjum fyrir hinn nýja skóla. Með þeim í ráðum er Aðalbjörg Sigurðardóttir. Skólaborðin eru af nýrri gerð, þ.e. stólar eru ekki áfastir borðum. Borð og stólar eru af sex mismunandi stærðum. Einnig eru keypt sérstök áhöld í teiknistofu, náttúrufræði- og landafræðistofu auk skuggamynda- og kvikmyndavéla. 

 

AUGLÝSING Í DAGBLÖÐUM

Nýi barnaskólinn

Börn úr Austurbænum, sem eiga að ganga í Nýja barnaskólann í vetur, mæti til viðtals í skólanum á þeim tímum, sem hér segir: Mánudaginn 3. þ.m. kl. 8 að morgni, börn er eiga að vera í 7. og 8. bekk og sama dag kl. 1 e.h. börn sem eiga að vera í 6. bekk, þriðjudaginn 4. þ.m. kl. 8 að morgni börn, sem eiga að vera í 5. bekk, og sama dag kl. 1 e.h. börn sem eiga að vera í 4. bekk. Miðvikudaginn 5. þ.m. kl. 8 að morgni börn sem eiga að vera í 3. bekk, og sama dag kl. 1 e.h. börn sem eiga að vera í 1. og 2. bekk. öll börn, sem ekki hafa fengið læknisvottorð hafi með sér 50 aura fyrir læknisskoðun.

Sigurður Thorlacius

skólastjóri (settur).

 

KENNSLA SUMRA NEMENDA HEFST 9. NÓVEMBER EN ANNARRA Í LOK MÁNAÐARINS

"Nýi skólinn við Bergþórugötu tekur til starfa laugardaginn 9. nóv." segir Morgunblaðið. En nokkrir bekkir hefja ekki nám fyrr en í desember, sbr. eftirfarandi auglýsingu í Morgunblaðinu í lok nóvembermánaðar:

Börn fædd á árinu 1922, komi til prófs í Nýja Barnaskólanum 30. þ.m., drengir kl. 8 að morgni, stúlkur kl. 1 e.h. Föstudaginn 31. þ.m. komi til viðtals öll önnur skólaskyld börn sem ekki hafa áður verið í Barnaskóla Reykjavíkur. Sömuleiðis börnin sem voru í barnadeild Kennaraskólans síðastl. vetur og þau sem sótt hafa um inntöku í hann í haust. Drengirnir komi kl. 8 að morgni, stúlkurnar kl. 3 e.h. Börnin hafi með sér blýant.

Börn, sem eiga að vera í fyrsta bekk A og öðrum bekk D og E, komi í skólann miðvikudaginn 3. desember kl. 9 f.h. Þau börn, sem eiga að vera í fyrsta bekk B, C, og D, öðrum bekk A, B og C og þriðja bekk H, komi í skólann sama dag kl. 2 e.h.

…                                                                               

Börn úr austurbænum, sem eiga að ganga í Nýja barnaskólann í vetur, mæti til viðtals í skólanum á þeim tímum, sem hér segir: Mánudaginn 3. þ.m. kl. 8 að morgni, börn er eiga að vera í 7. og 8. bekk, og sama dag kl. 1 e.h., börn sem eiga að vera í 6. bekk, þriðjudaginn 4. þ.m. kl. 8 að morgni, börn sem eiga að vera í 5. bekk, og sama dag kl. 1 e.h. börn sem eiga að vera í 4. bekk. Miðvikudaginn 5. þ.m. kl. 8 að morgni börn sem eiga að vera í 3. bekk, og sama dag kl. 1 e.h. börn sem eiga að vera í 1. og 2. bekk. Öll börn, sem ekki hafa fengið læknisvottorð hafi með sér 50 aura fyrir læknisskoðun.

Sigurður Thorlacius skólastóri (settur).

Auglýsingar úr Vísi 30. nóvember, 1. og 2. desember 1930. Forsíða.

 

VEL ÚTBÚINN SKÓLI

ÞEGAR AUSTURBÆJARSKÓLINN TEKUR FORMLEGA TIL STARFA er hann talinn með best útbúnu skólum á Norðurlöndum. Þar eru m.a. náttúrufræðistofa, smíðastofa, saumastofa og leikfimisalir. Eftir er að fullgera KVIKMYNDASAL og SUNDLAUG. AÐSTAÐA er fyrir lækni, hjúkrunarkonu og tannlækni. TVÆR ÍBÚÐIR eru í skólanum, önnur fyrir skólastjórann og hin fyrir húsvörðinn. LÁGMYNDIR eftir Ásmund Sveinsson prýða bygginguna.

 

NÁTTÚRUFRÆÐISTOFAN

 

Náttúrufræðistofan er staðsett á hæðinni fyrir ofan kennarastofuna. Hún er m.a. útbúin kennslutækjum og fleiru fyrir grasafræði, likams- og heilsufræði, dýrafræði, eðlis- og efnafræði. Þar eru t.d. 64 dýrafræðimyndir Dybdahls, grasafræðimyndir Engleder und J. Eiehler, stjörnukíkir og 13 smásjár.

Myndin er ein þeirra ljósmynda sem teknar voru fyrir arkitektinn Sigurð Guðmundsson og afhentar voru Hollvinafélagi Austurbæjarskóla. Mörgum þykir þær bera höfundareinkenni Jóns Kaldal án þess að því sé slegið föstu hér.

Kennslutæki þessi eru stórum viðkvæm og hættara við eyðileggingu en kennsluáhöldum almennt, og hið góða ástand þessara kennslutækja er langsamlega mest að þakka náttúrufræðikennara skólans, Gísla Jónassyni, sem jafnan er vakinn og sofinn að hugsa um áhöldin og annast þau. Enda hafa fáir aðrir kennt í náttúrufræðifræðistofunni en hann. Einstaka áhöld komu skemmd upp úr kössunum frá útlöndum og hefið verið látið þar við sitja.

Jón Sigurðsson, yfirkennari: Skrá yfir áhöld og muni Austurbæjarskóla 1933, bls. 16.            Ritað 10.6.'33.

 

Svokölluð sýnikennslumynd úr náttúrufræðistofunni, norsk eftir þýskri fyrirmynd. Bopp's Vægtavler for Fysik. Udgivet efter    offentlig Foranstaltning efter den hos Eugen Ulmer, Stuttgart udkomne Originaludgave. ... Eneberttiget for Norge, Sverige og Danmark: P.T. Mallings Boghandel, Kristiania.

 

 KENNSLUELDHÚSIÐ

 

Kennslueldhúsið á efri hæð í norðurálmu skólans, þ.e. meðfram Bergþórugötunni. Þar eru m.a. 23 rafmagnsplötur með tengisnúrum og fjórar gaseldavélar.

Sú langþráða stund nálgast óðum, að hinn nýi, fullkomni barnaskóli í austurbænum geti tekið til starfa. Hefir alt verið gert til þess að þessi nýi skóli mætti verða Reykjavíkurbæ til sóma. Allur ytri og innri útbúnaður verður eins fullkominn og völ er á. 20 kennslustofur verða í skólanum, er rúma 600 börn; en tvísett verður í hverja stofu í vetur, og verða því 1200 börn í skólanum. Öll skólaáhöld verða af nýjustu og fullkomnustu gerð. Skólinn kostar í alt um 1 milljón króna.                                                                                           

Reykjavíkurbær hefir vissulega gert sitt til þess, að nýi barnaskólinn mætti verða sannkallaður gróðurreitur í bæjarfjelaginu, þar sem þroska mætti og rækta alt það besta, sem í mannssálinni býr.

Morgunblaðið 29. september 1930.

 

SKÓLAVÖRÐUHOLTIÐ

 

 Leifsstyttan sett á stall í september 1931. Skömmu síðar var Skólavarðan rifin.

Grjótið úr henni fór undir Barónsstíginn og í vegg sem liggur við lóð Heilsuverndarstöðvarinnar.

 Ljósmynd: Carl Christian Nielsen.

 Á þeim árum var holtið ekki annað en bersvæði, enginn braggi, enginn vísir að Hallgrímskirkju … ekkert mannvirki; nema ef vera skyldi undarlegar grjóthleðslur Bensa gamla, öldungsins sem vann þar að grjótnámi fyrir bæinn í hvaða veðri sem var og hlóð upp tilhöggnum steinum í einskonar borgir, þangað til komið var með bíla til þess að keyra þá burtu og nota þá í götur. Að vísu var Austurbæjarskólinn kominn … Einnig var Leifsstyttan á sínum stað … og sumir sögðu, að hún ætti ekki að vera þar. Það voru einkum þeir sem sáu eftir Skólavörðunni.

Elías Mar: Átökin um Skólavörðuholtið, Þjóðviljinn 1950.

Fyrstu nemendur Austurbæjarskóla nefndu stundum umræddan Bensa gamla í frásögum sínum af skólagöngu þeirra. Hann sat löngum stundum og hjó til grjót í Skólavörðuholtinu. Einn þessara nemenda, Gunnar Kristjónsson á Skólavörðustíg 26, sagðist hafa heyrt gamla fólkið tala um að túlkun leikarans Brynjólfs Jóhannessonar á gömlum körlum hefði minnt mjög á Bensa gamla í holtinu.

  

SIGURÐUR THORLACIUS SETTUR SKÓLASTJÓRI

 

 

 

Kennslumálaráðherra, Jónas Jónsson frá Hriflu setur Sigurð Thorlacius í stöðu skólastjóra þvert gegn vilja skólanefndar, fræðslustjóra og sextán kennara, sem mæla með Steingrími Arasyni. Stöðuveitingin veldur miklum pólítískum deilum og hatrömmum blaðaskrifum. Sigurður hafði menntast við Rousseau-stofnunina í Genf og m.a. notið kennslu og leiðsagnar Jean Piaget. Sigurður fær ásamt konu sinni, Áslaugu til afnota sérstaka skólastjóraíbúð á efri hæð í suðurálmu skólans. Tvö barna hans, Örnólfur og Krístín fæðast þar. 

Hún var svo ung að hún þurfti leyfi Danakonungs, sem þá var okkar æðsti yfirboðari, til að fá að giftast. Í staðinn fyrir brúðkaupsveilsu fóru þau í bíó. Þetta var látlaus byrjun á 15 ára ánægjulegri sambúð. Faðir okkar hafði nýverið tekið við ábyrgðarmiklu starfi sem fyrsti skólastjóri Austurbæjarskólans og ungu hjónin nýflutt í skólastjóraíbúðina á efstu hæð skólans.

Hallveig Thorlacius: Minningargrein um Örnólf Thorlacius, Morgunbl. 15. feb. 2017 bls. 20.

 

Sigurður Thorlacius er fæddur 4. júlí árið 1900 og ólst upp að Búlandsnesi við Berufjörð í Suður-Múlasýslu. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1922 eftir að hafa lesið að mestu utanskóla. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands og prófi í forspjallsvísindum við Háskóla Íslands árið 1924. Dvaldist eftir það á Djúpavogi, kenndi þar unglingum og stundaði sjó. Kenndi við Samvinnuskólann í Reykjavík veturinn 1927-28. Stundaði frönskunám í Besancquon sumarið 1928 og hóf um haustið nám í uppeldisfræði við Rousseaustofnunina í Genf. Lauk fyrrihlutaprófi vorið 1929. Næsta vetur kenndi hann við Héraðsskólann að Laugarvatni. Haustið 1930 varð hann skólastjóri Nýja barnaskólans í Reykjavík (Austurbæjarskólans) en hélt öðru sinni til Genfar sumarið 1931 og tók um haustið lokapróf í uppeldisfræðum við Rousseaustofnunina. 

Meðal þess sem skrifað er um Sigurð Thorlacius í blöðin er, að hann sé „bráðónýtur skólastjóri“. Þegar hann neyðist til að taka sér frí frá störfum vegna veikinda, er spurt „hve lengi á maðurinn að hanga í embætti úr því hann ekki getur sinnt starfinu?“ Einnig er ritað „í því að sjá um agaleysi í skólanum“ sjálfsagt vegna þess að börnin í Austurbæjarskólanum eru ekki látin fara í raðir að loknum frímínútum, eins og tíðkast t.a.m. í Miðbæjarskólanum. Einnig:  „koma börnunum til að hlýða ekki kennurunum. Halda hlífiskyldi yfir þeim starfsmönnum skólans, sem ala vilja æskulýð bæjarins upp í anda hins rússneska kommúnisma?“ Jafnframt er talað um að láta reka það fólk sem „fyrir tilstilli Hriflumanna og annara samsekra hefir safnast utan um Sigurð þennan verði þaðan rekið.“ Ýmislegt fleira er látið flakka. Ýmsir koma Sigurði til varnar í blöðum, s.s. Aðalsteinn Sigmundsson, Jón Sigurðsson yfirkennari og fleiri. Sigurður tekur engan þátt í þeim blaðadeilum en fær ofangreind orð dæmd ómerk fyrir dómi.

 

1931-1932  HEIMSKREPPAN

Í september kemur byggingarnefndin saman í skólanum, gengur þar um öll húsakynni og ræðir það sem enn er ógert í skólahúsinu, sem auk sundlaugar og kvikmyndasalar er ýmislegt smávegis. Ákveðið að ljúka því fyrir næsta haust. HEIMSKREPPA er skollin á með miklum hörmungum. Vegna fátæktar í Reykjavík framan af öldinni voru mörg börn vannærð og beitti Bríet Bjarnhéðinsdóttir sér fyrir því, að teknar voru upp matgjafir í Barnaskólanum við Tjörnina árið 1908. Þeim er nú haldið áfram.

 

MATGJAFARELDHÚSIÐ

 

          

            

 

MATGJAFARELDHÚS er starfrækt í Austurbæjarskólanum, nánar tiltekið í norðurálmunni, þar sem síðar varð enskustofa. Þann 22. desember 1931 borða 320 börn  hakkað kjöt með brúnuðum kartöflum og ávaxtagraut með mjólk í eftirrétt. Í febrúarmánuði 1932 borða að meðaltali 250 börn á dag. „Mötuneytið var helgidómur hjá börnunum sem á þurftu að halda. Vinsamlegar konur bjuggu til mat sem maður gleymir ekki enn þann dag í dag. Sérstaklega var plokkfiskurinn góður“ sagði gamall nemandi þegar hann rifjaði upp gamla tíma tæpum sjötíu árum síðar.

Heimild: Dagbók S. Kristjánsdóttur um Matgjafareldhúsið og munnleg heimild: Anton Erlendsson.

Sú nýbreytni er tekin upp á þessum vetri að selja og gefa börnunum mjólk í skólanum. Samið er við Mjólkurfélag Reykjavíkur um að selja mjólkina fyrir 40 aura lítrann. Skal félagið flytja mjólkina í skólann og úthluta henni á pelaglösum. Koma mjólkursendingarnar tvisvar á dag. Venjulega fá 800 börn mjólkina daglega. Ekki kemur starfsemi þessi að fullum notum vegna þess, að fé skortir til þess að gefa fátækum börnum. Um 2000 kr. vantar til þess að svo megi verða. Nokkrir áhugasamir menn gefa fé í þessu skyni. Er því hægt að úthluta ca. 1500 lítrum. „Tóku nokkur veikluð börn greinilegum framförum, er þau fóru að fá mjólkina; þyngdust, stækkuðu og fjörguðust“, eins og segir í skólahaldsskýrslu Sig. Thorl.

 

Sem dæmi um HEIMILISAÐSTÆÐUR fólks á þessum árum heimskreppu og hörmunga má nefna, að neðarlega á Njálsgötunni búa átta manns í tveggja herbergja íbúð. Fimm börn búa með foreldrum sínum í tveimur stofum á Bergþórugötunni og deila eldhúsi með annarri fjölskyldu.                                                                                                         

Heimild: Nemendaspjaldskrá.

 

 

Skólaeldhúsið í norðurálmunni meðfram Bergþórugötunni.

Í MATREIÐSLU hjá HELGU SIGURÐARDÓTTUR þykir réttara að taka tillit til aldurs en bekkja. Þess vegna er elstu stúlkunum úr 4. og 5. bekkjum gefinn kostur á matreiðslunámi. Eru þær aðeins fáar úr hverjum bekk, en alls c.a 30. Þá fá og nokkrir drengir að læra matreiðslu. Helga Sigurðardóttir er matreiðslukennari Austurbæjarskólans frá 1930 til 1942 þegar hún gerist skólastjóri Húsmæðrakennaraskólans. Hún sækir menntun sína einkum til Danmerkur. Það sem lengst hefur haldið nafni hennar á lofti er bókin Matur og drykkur, sem kölluð hefur verið „matarbiblía Íslendinga“ og komið hefur út sex sinnum frá 1946 til 2009.

 

 Fræg og margendurprentuð bók Helgu Sigurðardóttur, fyrsta matreiðslukennara skólans.

 

Kennslueldhús skólans var stórt og fullkomið, fengum við stelpurnar kennslu í 12 ára bekk, þá fékk hver stelpa eina gashellu til að malla á, svo var skipt niður skápum, skúffum og eldhúsáhöldum sem hver og ein notaði í tímanum, en þetta voru tveir tímar í einu. Matreiðslukennarinn skrifaði upp á töflu uppskriftir sem við áttum að fara eftir, allt þetta var mjög einfalt, en alltaf einhver grautur sem venja var. Eftir eldamennskuna lögðum við á borð, 4 við hvert borð, borðuðum svo saman matinn, síðan var gengið frá öllu og skápar borð og öll áhöld þvegin mjög rækilega. Í 13 ára bekk breyttist þetta aðeins, þá skiptum við með okkur verkum og voru nú notaðar eldavélarnar, sem líka voru gasvélar og eftir matseld borðuðum við saman eins og fyrr. Ekki man ég nú mikið frá þessum kennslutímum, þó hversu oft og lengi átti að skafa ýsuna og ef laukur var skorinn, á að vera undir kalda krananum eða nálægt bununni, þetta hefur nýst vel í mínum búskap. Ekki veit ég hvað strákarnir hafa fengið í staðinn fyrir matreiðslutímana hjá stelpunum, en óþarfi þótti að kenna strákum heimilisstörf, auðvitað voru þetta eingöngu kvennastörf.

Handrit Hallfríðar Georgsdóttur skrifað í apríl 1996. Birt í tilefni 70 ára afmælis Austurbæjarskóla árið 2000.

 

Auk þess sem hver bekkur hefur eina stund á viku í SÖNG eru æfðir stærri flokkar og varið til þess 2 st. vikulega. Meðal fyrstu söngkennara skólans eru Páll Halldórsson frá 1930 og Jóhann Tryggvason 1938-1945. Frá honum segir síðar en Páll Halldórsson var einnig organisti Hallgrímskirkju um skeið. Meðal kennara hans eru Páll Ísólfsson, Sigfús Einarsson og dr. Urbancic. Einnig sækir hann nám í Basel í Sviss og í Danmörku. Hann gerist nokkuð afkastamikill námsefnishöfundur. Eftir hann og Friðrik Bjarnason liggja meðal annars bækurnar Skólasöngvar, Söngbók barnanna og Nýtt söngvasafn handa skólum og heimilum. Jón Ásgeirsson (f. 1928), síðar tónskáld býr á Bergþórugötu 11 og er nemandi Páls Halldórssonar í Austurbæjarskólanum. Hann minnist hans í útvarpsþætti Bjarka Sveinbjörnssonar löngu síðar:  

 „Já, þar var Páll Halldórsson, hann var með orgel, lítið orgel og lét okkur syngja. … ég var tíu ára hjá honum. Þá var byrjað að kenna músík. Við vorum voðalega óþekkir við hann sko. En milli mín og Páls var alltaf gott samband. … Páll var eðalmenni, alltof góður fyrir þennan heim. … en við vorum að spila í tímum … stelpurnar voru voðalega móðgaðar, þær vildu syngja…. en við vildum ekkert vera að syngja, gaurarnir …“

Páll Halldórsson kenndi við skólann frá 1930 til 1959. Hann lést í bílslysi á Miklubrautinni í júnílok 1988.  

     

                      

Aðalsteinn Eiríksson frá Krossavík í Þistilfirði er meðal höfunda Skólasöngva. Hann kennir við skólann frá 1930 - 1934. Aðrir höfundar eru Friðrik Bjarnason, Páll Ísólfsson og Þórður Kristleifsson. Páll Halldórsson er höfundur Söngbókar barnanna ásamt Friðrik Bjarnasyni.

 

Drengir, sem ekki fá SMÍÐAÁHUGA sínum fullnægt í skyldutímum bekkjarins, er gefinn kostur á einni eða tveimur aukastundum. Smíðakennari skólans frá 1930 er Þórarinn Einarsson. Prófdómari í smíðum er Ríkarður Jónsson myndhöggvari og þiggur ekki eyri fyrir.

 

SKÓLASLIT

Skólanum er sagt upp 14. maí. Söngflokkar skólans syngja nokkur lög. Um 100 börn, stúlkur og drengir sýna leikfimi í tveimur flokkum undir stjórn íþróttakennaranna Unnar Jónsdóttur og Aðalsteins Hallssonar. Við skólauppsögn fá 3 börn verðlaun úr sjóði Thomsens kaupmanns fyrir siðprýði og góðar framfarir. Verðlaunin eru Myndir, bók Ríkarðar Jónssonar.           

UNNUR JÓNSDÓTTIR f. 1916, stundar nám við Paul-Petersen Institut í Kaupmannahöfn 1924-26 og lýkur þaðan kennaraprófi í leikfimi, sundi, íþróttum og dansi, fer á námskeið í Danmörku og Finnlandi 1930 og 1932, útskrifast úr Kennaraskólanum 1932 og stundar nám í Stokkhólmi 1947-48. Hún er formaður Íþróttafélags kvenna frá 1934-47. Hún kennir við Austurbæjarskólann frá 1930 og er mörgum eftirminnileg. Hún leikur jafnan á píanó sem komið hefur verið fyrir í öðru marki íþróttasalarins og ganga stúlkurnar teinréttar í takt við tónlistina í upphafi hverrar kennslustundar. Hreystin uppmáluð neyðist hún til að hætta kennslu haustið 1977 samkvæmt landslögum enda orðin sjötug. Hún dvelur á Droplaugarstöðum síðustu æviár sín. 

 

Unnur Jónsdóttir íþróttakennari er formaður Íþróttafélags kvenna frá stofnun 1934-1947.

 

ÍÞRÓTTASALURINN

 

Leikfimisalurinn, sem landsmenn hafa séð þegar verið er að telja atkvæðaseðla eftir kosningar, var mjög fullkominn á þessum tímum. Unnur kenndi okkur stelpunum, spilaði hún oft á píanó meðan við gengum nokkra hringi í salnum, oftast var það Siggi var úti með ærnar í haga, við gengum tvær og tvær saman í fallegri röð, en oft kallaði Unnur, gangið ekki eins og skessur stelpur, gangið eins og ég, en Unnur var klædd í dragt sem þætti kannski ekki mjög íþróttamannslegt núna, en við stelpur vorum í byrjun í ljósbláum buxum með teygju í mitti og skálmum og hvítum ermalausum bolum við, ekki voru alltaf notaðir skór, en oft þunnir skór með teygju yfir ristina. Seinna varð leikfimibúningurinn hvítur, vítt pils með þröngum bol, nokkurs konar kjóll og var hann til dæmis reimaður að framan, minn búningur var saumaður úr hveitipokum, bæði var vont að fá efni á þeim árum en líka kjóllinn sig vel úr þessu efni, mamma skreytti minn með því að sauma fangamarkið mitt í hann.

Birt í tilefni 70 ára afmælis Austurbæjarskóla, handrit Hallfríðar Georgsdóttur skrifað í apríl 1996.

 

AÐALSTEINN HALLSSON lýkur kennaraprófi 1928 og íþróttakennaraprófi frá Statens Gymnastik Institut í Kaupmannahöfn 1929. Kennir við Austurbæjarskólann 1930-44. Hann tekur saman kennslubók í fimleikum, rit um leiki fyrir heimili og skóla, almennar reglur ÍSÍ um handknattleik og fleira.

 

 

FASTRÁÐNIR KENNARAR: Ásgerður Guðmundsdóttir, Aðalsteinn Eiríksson, Aðalsteinn Hallsson, Aðalsteinn Sigmundsson, Anna Bjarnadóttir, Arngrímur Kristjánsson, Bjarni Bjarnason, Gísli Jónasson, Gunnar Magnússon, Hafliði Sæmundsson, Hannes Þórðarson, Helga Sigurðardóttir, Hermann Hjartarson, Ísak Jónsson, Jóhanna Þorsteinsdóttir, Jón Norðmann Jónasson, Jón Jónsson frá Flatey, Jón Sigurðsson, Jónas Jósteinsson, Konráð Kristjánsson (í forföllum Valgeir Helgason), Kristín Þorvaldsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Páll Halldórsson, Sigríður Hjartardóttir, Margrét Magnúsdóttir, Sigurður Runólfsson, Siguringi Hjörleifsson, Sigurlaug Guðmundsdóttir, Ragnheiður Kjartansdóttir, Stefanía Ólafsdóttir, Steinunn Bjartmarsdóttir, Unnur Briem, Unnur Jónsdóttir, Vigdís Blöndal, Þóra Tryggvadóttir, Þórarinn Einarsson.

STUNDAKENNARAR: Elísabet Helgadóttir, Einar Guðmundsson, Gísli Sigurðsson, Guðmundur Árnason, Hallgrímur Jónasson, Hólmfríður Jónsdóttir, Jón Þórðarson, Kjartan Sigurðsson, Sigríður Pétursdóttir, Svanhildur Jóhannsdóttir, Steingrímur Arason. KENNARASKÓLINN lagði til 60 stunda kennslu á viku. Af hálfu Kennaraskólans kenndu þeir Hallgrímur Jónasson og Steingrímur Arason.

 

 

Fremsta röð frá vinstri: Arngrímur Kristjánsson, Jón Sigurðsson, Vigdís Blöndal, Aðalsteinn Sigmundsson, Þóra Tryggvadóttir, Steinþór Guðmundsson, ? Gísli Jónasson, Sigurður Thorlacius. 

Önnur röð frá vinstri: Ísak Jónsson, Helga Sigurðardóttir, Jakob Sveinsson, Gísli Sigurðsson, Steinunn Bjartmars, Skúli Þorsteinsson, Sigurður Runólfsson, Marteinn Skaftfells, Stefanía Ólafsdóttir.

Þriðja röð frá vinstri: Bjarni Bjarnason, Elísabet Helgadóttir, Haraldur Björnsson, Helgi Hallgrímsson, Eiríkur Baldvinsson, Sigríður Magnúsdóttir, Gunnar M. Magnúss, Sigmundur Guðmundsson, Jónas Jósteinsson.

Fjórða (efsta) röð frá vinstri: Páll Halldórsson, Jón Jónsson frá Flatey, Hafliði Sæmundsson, Hermann Hjartarson, Svanhildur Jóhannsdóttir, Anna Bjarnadóttir frá Sauðafelli, Páll Stefánsson gangavörður.

 

 

NÁMSMAT OG EINKUNNIR

 

 

EINKUNNAGJAFIR OG SAMSTARF VIÐ FORELDRA

Þetta samband milli heimila og skóla er að byrja að komast á. Það er ekki von að það komi allt í einu, og foreldrarnir verða að leggja sinn skerf til samvinnunnar, ekki síður en skólinn. Kennarar og foreldrar verða að mætast á miðri leið, og talast við á máli skilnings og vináttu um sameiginlegt hlutverk, veglegasta hlutverk mannkynsins.

Sigurður Thorlacius: SKÓLAMÁL, einkunnagjafir og fleira. sérprent 1932 bls. 24.

 

Á fyrstu árum Austurbæjarskóla var mörkuð stefna um að minnka vægi einkunnagjafa í skólastarfinu. Sigurður Thorlacius, fyrsti skólastjórinn, lagðist gegn því að börn væru einungis metin með hefðbundnum prófum. Hann taldi að þær einkunnir gæfu falska mynd af námsárangri barna og væru til lítils annars en að blekkja foreldra og börn. Þá vildi hann meina að nemendur gætu fengið „sæmilega einkunn án þess að hugsa persónulega hugsun, án þess að vinna dyggilega dagleg skyldustörf, án þess að hafa auðugt ímyndunarafl, án þess að vera viljasterk, án þess að elska sannleikann, án þess að þekkja aðalatriði frá aukaatriðum, án þess að kunna ráð við algengustu flækjum daglegs lífs, án þess að kunna að átta sig á nýjum viðfangsefnum, án þess að hafa áhuga á sigri góðra málefna, í stuttu máli: Án alls annars en þess, að kunna utan að vissa kafla úr nokkrum kennslubókaágripum.“  Með þessu lagði hann áherslu á að þekkingarmiðlun átti ekki að vera eina viðfangsefni skólans heldur einnig félagslegt og siðferðislegt uppeldi. Í staðinn fyrir prófin komu sýningar þar sem foreldrum gafst tækifæri til þess að skoða afrakstur þeirrar vinnu sem börnin höfðu innt af hendi í skólanum. Þannig væri hægt að sýna þeim sterku hliðar barnanna, sama hverjar þær væru, í staðinn fyrir að senda heim einkunnabók sem gæti orðið eins og „eitrað fræ“ ef frammistaðan var bágborin. Auk þess hefðu foreldrarnir á sýningum beinan aðgang að kennaranum sem gat sagt þeim hvernig barnið þeirra hagaði sér í skólanum og hvernig það stundaði námið.

Arnfinnur Jónsson, fyrsti formaður Hollvinafélags Austurbæjarskóla aftan á jólakorti Hollvinafélagsins 2012.

 

 

KENNARAFÉLAG AUSTURBÆJARSKÓLA STOFNAÐ

 Laugardaginn 14. mars 1931 var kennarafundur haldinn í Austurbæjarskóla Reykjavíkur. Til fundarins boðuðu Sig. Thorlacius skólastj. fyrir hönd nefndar þeirrar, er kosin var á kennarafundi (     ) og semja skyldi frumvarp til laga fyrir væntanlegt kennarafélag við Austurbæjarskólann í Reykjavík. Skyldi þetta verða stofnfundur félagsins. Í nefnd þessa höfðu verið kosin: Sig. Thorlacius, Sigríður Magnúsdóttir, Konráð Kristjánsson, Ísak Jónsson og Jón Sigurðsson.

                        Lög Kennarafélags Austurbæjarskóla Reykjavíkur:

 

 1. Félagið heitir Kennarafélag Austurbæjarskóla Reykjavíkur.

 

 1. Tilgangur félagsins er að auka kynningu og samvinnu með kennurum skólans.

 

 1. Tilgangi sínum hyggst félagið að ná, með því að halda fundi eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði. Séu á fundinum tekin til meðferðar:

 

 1. Mál, sem varða skólann og starfsemi hans sérstaklega.
 2. Mál, sem varða uppeldis-og kennslustarfsemi yfirleitt.
 3. Skulu og á fundinum vera um hönd höfð einhver skemmiatriði, þegar ástæða þykir til, eða sérstakar skemmtisamkomur haldnar.

 

 1. Félagar geta þeir einir orðið, sem eru starfandi kennarar vil Austurbæjarskóla Reykjavíkur.

 

 1. Félaginu stjórnar forseti, kosinn á aðalfundi til eins árs í senn og nefnd fjögra manna, sem kosin er á hverjum fundi þannig, að forseti skipar einn og fundurinn kýs hina þrjá.

 

 1. Aðalfund félagsins skal halda í október ár hvert. Til fundar skal boða með tveggja daga fyrirvara og er þá fundur löglegur.

 

 1. Félagsgjöld skulu engin vera. En hafi félagið með höndum einhverjar framkvæmdir er fjár þarf til, skal þess aflað með frjálsum tillögum meðlimanna, enda skal ekki í meiri útgjöld ráðist án samþykkis meiri hluta félagsmanna.

 

(Allir sem voru á fundinum skrifuðu nöfn sín undir lög félagsins og gengu þar með í félagið. Og síðan gengu flestir kennarar skólans í félagið.) Var þá gengið til stjórnarkosningar: Forseti kosinn: Ísak Jónsson. Í stjórnina skipaður af forseta: Aðalsteinn Eiríksson. Í stjórnina kosnir af fundinum: Ragnheiður Kjartansd.Margrét Jónsdóttir, Hannes M. Þórðarson.

 

                                                                       Fleira ekki gert.

                                                                       Fundi slitið.

 

                                                                       Ísak Jónsson

                                                                       (fundaritari).

 

  Þekkir einhver börnin á myndinni?

 

1933-1934 

VORSKÓLI AUSTURBÆJAR

Reykjavík er þegar orðin borg með einkennum annarra borga, illum og góðum. Borgin hefir vaxið svo ört, að menn hafa ekki áttað sig nægilega fljótt á ýmsu því nauðsynlegasta fyrir borgarbúa. Börnin hafa að vissu leyti verið útundan á örustu vaxtarárum Reykjavíkur. Borgin kefir ekki séð börnum sínum fyrir rúmgóðum, ryklitlum leikvöllum eða öðrum hollum vistarverum. Þó hefir nú á seinni árum verið reynt að bæta úr hinu slæma ástandi með ýmis konar starfi meðal barnanna vor og sumar. Ein slík starfsemi er Vorskóli Austurbæjarskólans, sem nú byrjar annað starfsár sitt. Vorskólastarfsemi byggist mjög á útilífi í nágrenni borgarinnar og fræðslu um þá hluti, sem sjálfsagt er að beina hugum barna að, t.d. Gróðri, veðurfari, fuglalífi, fjörulífi o. fl. o. fl. auk bóklegs náms. - Í fyrra sóttu Vorskóla Austurbæjar yfir 300 börn, og hefir fjöldi þeirra barna nú aftur sótt um skólavist, enda hefir nú einnig bæzt merkilegur og lífsnauðsynlegur liður inn í starfsemi skólans. Það er sundið. Bærinn er nú að láta fullgera hina nýju, sundlaug skólans. Vonandi á þessi starfsemi eftir að hjálpa mörgu barni til meiri þroska en ella mynd 

 

                                                                         Alþýðublaðið 17. maí 1933 bls. 3.

 

SUNDSÝNING

 

Á morgun kl. 2 sýna 80 - 100 börn sund í sundlaugunum innfrá. Flest þessi börn voru í vorskóla Austurbæjarskólans nú í vor eða hafa verið á sundnámskeiði vorskólans, sem byrjaði í júlí, þegar vorskólinn hætti. Börnin eru á aldrinum 5 - 14 ára og aðeins örfá þeirra höfðu áður fengið lítils háttar tilsögn í sundi. Á morgun ætla þau að sýna hvað þau hafa verið dugleg að læra að synda í 4 - 5 vikur og bjóða bæði pabba og mömmu, afa og ömmu inn eftir og horfa á sig busla í vatninu. Öll börn sem lært hafa að fleyta sér á sundnámskeiði vorskólans, eru beðin að mæta í Austurbæjarskólanum kl. stundvíslega á morgun. 

 

                                                                           Alþýðublaðið 12. ágúst 1933 bls. 4.

  

 

SUNDLAUGIN TEKIN Í NOTKUN 2. JÚNÍ 1933

Sund var fyrst kennt í lauginni föstudaginn 2. júní s.l. og voru nemendur börn úr Vorskóla Austurbæjarskólans. Síðan hefir stöðugt verið kennt þar um 400 börnum úr vorskólum barnaskóla bæjarins. Sundlaugin er ennþá ekki fullgerð að öllu leyti, en vorskólinn fékk leyfi til að nota hana til júníloka. Verður laugin hin fullkomnasta, að öllum frágangi og tvímælalaust eitthvert almesta menningartæki skólans.

Jón Sigurðsson, yfirkennari í handskrifaðri Skrá yfir muni og áhöld Austurbæjarskóla 20. júní 1933.

  

Jón Sigurðsson yfirkennari Austurbæjarskóla frá 1931-1935. Varð þá fyrsti skólastjóri Laugarnesskólans. Hann lauk kennaraprófi 1921 og stundaði framhaldsnám í Þýskalandi og í London.

Miklar deilur um LITLA LEIKFIMISALINN sem svo er nefndur. Hann er fyrir ofan leikfimissalinn sem enn er notaður. Deilan snýst um það, að viðeigandi gólfefni hefur ekki verið lagt á þennan sal þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar að lútandi. Því neita íþróttakennarar skólans að kenna þar en gefa eftir þegar skólanefnd hótar að dregið sé af kaupi þeirra.

 

BARNABÓKAHÖFUNDAR

                                 

  Skáldið Margrét Jónsdóttir er í hópi fyrstu kennara skólans. 

Þegar fram líða stundir, þekkja flestir ljóð hennar Ísland er land þitt.

 

KVEÐJA TIL NORRÆNNA KENNARA

er sóttu Ísland heim sumarið 1938.

 

Farið heilir, frændur góðir,

flytjið kveðjuorð frá storðu

elds og ísa, fjalls og fossa,

finnskum, dönskum, norskum, sænskum.

Norrænn andi, norræn tunga,

norræn glóð í hjörtum þjóða

lýsi og brenni um ár og aldir.

Allir heilir! Verið sælir!

 

Stefán Jónsson ræðst sem kennari að skólanum. Sigurður Thorlacius hafði kynnst honum sem nemanda við Héraðsskólann á Laugarvatni, þegar hann kenndi þar veturinn 1929-1930. Stefán varð síðar þjóðkunnur rithöfundur.

... var minn aðalkennari frá byrjun 7 ára eða 1938. Það er margs að minnast. Stefán minn sögðum við og enginn var honum fremri né betri í okkar augum. Allar vísurnar, sem við fengum að kynnast og læra strax hjá honum, sem seinna áttu eftir að verða frægar, maður var dálítið montinn og lenti stundum í metingi við vini úr Miðbæjarskólanum, bara við í E. bekknum áttum Stefán. (Í Austurbæjarskólanum var ekki raðað niður í bekki eftir stafrófi).

Í frímínútum var keppst við að ná í putta Stefáns til að halda í, okkur til trausts og halds, og fingur hans voru langir, mjúkir og hlýir. Við vorum mörg sem héngum þannig í honum úti, já, þá voru kennararnir úti með bekkjunum sínum, hver og einn.

Ólatur var Stefán að fara með okkur í leiki og þá t.d. Inn og út um gluggann, sem hann söng og kenndi okkur, ég man enn rödd hans vel, bjarta og svolítið hvella. Guttavísurnar áttum við með honum, svo voru líka sögurnar hans í miklu uppáhaldi, eignaðist ég fljótt bækurnar Vinir vorsins og Skóladagar … ljúfar voru þær og meira að segja borgarbarn, sem ekkert þekkti til lífsins í sveitum landsins, gat lifað sig algjörlega inn í sögurnar af Hjalta litla, einhvern veginn fannst mér Hjalti vera Stefán sjálfur.

Hallfríður Georgsdóttir f. 1931. Skrifað í apríl 1996.

 

Saga Austurbæjarskóla og saga íslenskra barnabókmennta fléttast smám saman órjúfanlegum böndum. Gunnar M. Magnúss, og fleiri verða með tímanum kunn af ritstörfum, ekki síst ljóðum og sögum handa börnum. Aðalsteinn Sigmundsson, Margrét Jónsdóttir, Ragnheiður Jónsdóttir, Sigurður Helgason, Jóhannes úr Kötlum, Vilborg Dagbjartsdóttir Kennarar Austurbæjarskólans eru ákafir talsmenn nýjunga í skólamálum, þeir Aðalsteinn Sigmundsson, Arngrímur Kristjánsson, Jón Sigurðsson og fleiri. Skólinn verður eins konar framkvæmdamiðstöð þessara nýjunga. Deilt er hart á gamlar kennsluaðferðir:

 

                                                              Og æskan á bekkjunum húkir hljóð,

                                                               þetta hundsaða efni í lifandi þjóð, -

                                                               með starandi augu og staðnað blóð

                                                               og stautar í andvana skræðum. –

 

                                                                                              Jóhannes úr Kötlum

 

 

 

FÆREYJAFERÐ NEMENDA

 

 

Árið 1933 ræðst Aðalsteinn Sigmundsson, kennari í það þrekvirki að fara með 23 drengi úr 8. A auk þriggja drengja úr öðrum bekkjum TIL FÆREYJA. Með í för var Stefán Jónsson. Simon av Skarði og Rikard Long sáu um móttökur. Sá síðarnendi skrifaði m.a. í „Skúlablaðið“ færeyska:

Ég var nú komin at kenna drengirnir so væl, at teir prátaðu við meg sum við gamlan kenning, og vildu teir hava meg í bílin hjá sær, og var hetta ein hin besta löta í lívi mínum, hesi trý korterina til Sörvágs – saman við hesum fríska, lívstreysta ungdómi. Drengirnir sungu, eitt lag fyrir og annað eftir, Karl kvað „lausasvísur“ og einn teirra, vísti sig at vera eins góður sögusmiður og frálíkur frásögumaður, og segði hann mangar skemtilegar sögur, ið elvdu miklan látur. Tað mest hugnaliga av öllum var tann samkensla, ið var yvir hesum drengjum, tað skiluligt, at teir kendu seg sum eina heild, og at hvör setti eina æru í at gera sitt til, at „áttundi klassi A“ skuldi ikki gera sær fyrir skommum í hesi ferð …“

1934 var ferðasaga drengjanna prentuð í Ísafoldarprentssmiðju. Nefnist hún Til Færeyja, ferðasaga íslenskra skóladrengja vorið 1933. Í formála Aðalsteins Sigmundssonar segir m.a.:

Ýmsir góðir menn og konur styrktu ferðasjóðinn með gjöfum. Ríkarður Jónsson myndhöggvari gaf 24 eintök af Myndum sínum. Var hvert eintak selt á kr. 10,00, svo að þar kom inn laglegur skildingur … Þá veitti forsætisráðherra okkur 250,00 kr. ferðastyrk úr ríkissjóði. Ég sótti um sömu upphæð úr bæjarsjóði, en þeirri beiðni var synjað. Þá er ótalið það tvennt, sem mest munaði til að gera ferðina kleifa: „Det Bergenske Damskibsselskab“ varð góðfúslega við beiðni minni um það, að veita afslátt af fargjaldi og fæðisverði á „Lyru“, fram og aftur á 3. farrými. En félagið lét ekki sitja við þetta, heldur flutti okkur á 1. farrými fyrir þetta verð …                                                                                        

 

Myndir Ríkarðar Jónssonar.

 

Sama ár heimsóttu færeysk skólabörn Austurbæjarskólann.

 

SIGURÐUR THORLACIUS beitir gáfum sínum, þekkingu, færni og skilningi til að leysa mál á jákvæðan hátt. Hér skal nefnt dæmi um slíkt. Vorið 1934 hlaupa drengir úr tíma í bíósalnum til að fara í fótbolta í skólaportinu. Einhverra hluta vegna er hurðinni skellt í lás svo kennarinn lokast inni. Forsprakkinn segir svo frá:

Svo kom til refsingar. Ég var kallaður upp til skólastjóra. Ég get aldrei gleymt því þegar ég gekk upp stigann, því ég vissi ekki hverju ég mátti búast við. Þegar ég kom upp á efstu tröppu, þá kom þessi heiðursmaður fram og rétti mér höndina. „Vertu velkominn“ sagði hann. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Svo var ég leiddur til stofu, frúin kom og mér var boðið kaffi og meðlæti. Þetta var afskaplega fallegur vordagur. Alltaf beið ég eftir því að eitthvað gerðist. Svo lauk kaffidrykkju og ég orðinn svo eirðarlaus, að ég vissi ekki hvað ég átti af mér að gera. Sigurður Thorlacius fylgdi mér til dyra og ég man ekki eftir að hafa verið kvaddur með öðrum eins virktum eins og þarna frammi á pallinum. Þá skammaðist ég mín svo mikið, að ég ætlaði ekki að komast niður tröppurnar. Svona tók hann á þessu.

Munnleg heimild: Anton Erlendsson. Pétur Hafþór Jónsson og Guðmundur Sighvatsson skráðu.

 

 

SKÓLASÝNING

Á þessu vori gerðist sá atburður í skólasögu okkar, að haldin var ein allsherjar sýning á skólavinnu víðsvegar að af landinu, ásamt nokkru sýnishorni af skólavinnu, kennslubókum og áhöldum frá Norðurlöndum … í stofum Austurbæjarskólans í Reykjavík. Þessi innlenda sýning fyllti næstum því 20 stofur … Sænska sýningin var sett upp í allstórri stofu og sú danska hafði annan fimleikasal skólans. Í stærri leikfimisalnum voru sýnd allskonar kennsluáhöld og bækur frá Danmörk, Svíþjóð og Noregi … Sýningin stóð almenningi opin frá 23. júní til 8. júlí … Austurbæjarskóli Rvíkur sýnir í nokkrum stofum í röð. Yngstu börnin þar eru á líku reki og þau elstu hjá Ísak og vinna þeirra er í svipuðum stíl, aðeins lengra komið. Líkt má segja um alla smábarnavinnu, sem sást á sýningunni. Kemur hér í ljós alveg skýrt, að kennsluaðferðin við smábörn er gjörbreytt víða, og annarstaðar er hún á leiðinni frá þreytandi stöfunaraðferð til meira skapandi og lifandi kennslu.

Nú skulum við athuga hvað eldri börnin sýna. Stúlkurnar sýna prjón, hekl, útsaum og einfaldar flíkur, drengirnir allskonar hluti úr tré: stóla, skápa, kassa, hyllur, sleða, leikföng o. fl., körfur, kústa og bursta úr hári og basti. Auk þess er mikið sýnt af teikningum stúlkna og drengja. Eru myndirnar sumar ótrúlega vandaðar, en vantar aftur frumleik og „fantasi“ hjá eldri börnum, og sýnir það, að teiknikennslan hefur verið of ströng og fagleg. Þá eru myndir skornar í linoleum o. m. fl.

En eitt af því, sem mest vekur eftirtekt eru vinnubækurnar(starfsbækurnar). Allmargir skóla sýna þær, en mest ber á þeim í stofum Austurbæjarskólans í Rvík og Akureyrarskóla. Í starfsbókunum er í stuttu máli skriflega gert grein fyrir aðalatriðum þess, sem verið er að nema. Margar þeirra eru mjög vandlega skrifaðar og prýddar myndum, línuritum o. fl. efninu til skýringar.     Þarna bólar á nýrri námsaðferð, - sem er þó löngu orðin reynd víða erlendis, - nefnilega sjálfsnámi í stað lexíunáms með yfirheyrslu. Er hér ótvírætt sigld í rétta átt …

Dagur     28. júlí 1934 bls. 234.

 

 

 

VINNUBÆKUR         

Í fyrsta tölublaði Foreldrablaðsins sem út kom 1. desember 1934 skrifar Aðalsteinn Sigmundsson grein um vinnubækur og telur þær meðal merkustu nýjunga sem barnaskólar hafi tekið upp í seinni tíð. Hann greinir frá því að vinnubækur, sem settar séu saman úr lausum blöðum, hafi rutt sér til rúms um öll Norðurlönd á síðari tímum. Svo lýsir hann eðli og útliti þessa nýja fyrirbæris í nokkrum orðum:

Blöðin, sem bækurnar eru settar saman úr, jafnóðum og börnin vinna, eru mjög margbreytt, eftir því til hvers þau eru ætluð: Skrifpappír, óstrikaður og strikaður með ýmsu móti, teiknipappír af ýmsum litum, pappír fyrir línurit og veðurathuganir, umlínukort af löndum og álfum, fyrir bornin að fylla út í með litum og nöfnum, blöð með margvíslegum verkefnum úr sögu, náttúrufræði o. fl. Öll eru blöðin götuð. Vinnubókarkápurnar eru stinnar og sterkar, með útbúnaði til að festa blöðin inn, á svipaðan hátt og bréf eru fest inn í bréfabindi.

 Foreldrablaðið 1. des. 1934.

Nú á tímum eru bækurnar sameiginlegt minni þjóða og mannkyns. Það er því ekki nauðsynlegt, og það er ekki hyggilegt heldur, að skólar nútímans séu að troða höfuðskeljar nemendanna fullar af allskonar minnisatriðum og fræðsluhrafli úr allskonar námsgreinum. … Hlutverk nútímaskólans er að leita að andlegum og líkamlegum hæfileikum nemandans, draga það fram og veita þeim þjálfun og næringu til vaxtar og þroska – veita nemendum yfirleitt sem mest að þeirri alhliða æfingu sem lífið heimtar af hverjum einstaklingi.

Aðalsteinn Sigmundsson: Mentamál 1935, 1. tölubl. bls. 49-50.

 

                         

 

 

 

            Magnús S. Oddsson er nemandi Aðalsteins Sigmundssonar í eitt ár. 17. febrúar 2015 gefur hann Hollvinafélagi    Austurbæjarskólans tvær vinnubækur sem hann vann hjá Aðalsteini og eru þær varðveittar í Skólamunastofunni.

 

BARNADAGURINN

Þann 20. apríl er Barnadagurinn haldinn hátíðlegur í Reykjavík með skrúðgöngum og inniskemmtunum á sex stöðum. Austurbæjarskólinn sér um skemmtun í K.R. húsinu undir stjórn ungfrú Margrétar Jónsdóttur og Aðalsteins Eiríkssonar kennara. Þar sýna börnin m.a. sjónleik saminn af ungfrú Margréti. Vísir greinir frá. Leikþátturinn Árstíðirnar, sem Jóhannes úr Kötlum samdi fyrir börnin í Austurbæjarskólanum, birtist í blaðinu Unga Ísland.

 

                                             1. drengur: Hvers vegna eru augun í þér svo blá?

                                             Sumarið: Þau eru búin til úr bláberjum.

                                             1. stúlka: Hvers vegna er hárið þitt svona gult?

                                             Sumarið: Það er búið til úr fíflum og sóleyjum.

 

Þann 4. júlí fer skólanefnd fram á að KVIKMYNDASALUR skólans verði fullgerður til notkunar á þessu hausti. Þess er og getið í fundargerð, að SUNDLAUG skólans sé enn ekki fullgerð.

 

1934-1935

Vegna þess að verið er að mála skólahúsið innan, verður skólasetningu frestað nokkra daga.

Vísir 30. september 1934 bls. 3

 

SKÓLALÆKNIR OG TANNLÆKNIR

 

Aðstaða skólalæknis og skólahjúkrunarkonu við ganginn fyrir framan Bíósalinn.

 

Óskar Þórðarson ráðinn SKÓLALÆKNIR og Thyra Lange TANNLÆKNIR skólans. Hafa þau bæði gegnt þessum störfum síðan skólinn tók til starfa en ekki verið ráðin fyrr en nú.

 

 Gunnar Kristjónsson Skólavörðustíg 26 var einn af fyrstu nemendum Austurbæjarskólans 1930.

 

Útskurður nemenda í 13 ára A árið 1935. Unnið eftir teikningum nemenda, sjá hér að neðan:

 

 

 

1935-1936 BARNALESSTOFA, BERGMÁL OG JÓLAFAGNAÐUR

FJÖLDI NEMENDA ÞENNAN VETUR: 1342. En skólahúsið var hannað fyrir 600 börn. Skólahald hefst ekki fyrr en 18. okt. vegna lömunarveikifaraldurs. BARNALESSTOFA Alþýðubókasafnsins starfrækt í matgjafarsal skólans. Kennarar kvarta formlega yfir miklu BERGMÁLI í skólastofum. Fundur er haldinn í Kennarafélagi Austurbæjarskólans 12. des. 1936 kl. 17,15. Formaðurinn Skúli Þorsteinsson setur fundinn. Fundarstjóri er Bjarni Bjarnason en Sig. Runólfsson fundarritari. Fyrsta mál á dagskrá: JÓLAFAGNAÐUR. Framsögumaður Sigurður Thorlacius segir frá því, að í ráði sé að taka fimleikasal skólans til jólaskemmtana fyrir börnin síðasta skóladag þeirra fyrir jól. Kveður hann nefndir til undirbúnings verða skipaðar í næstu viku.

 

HÚSGÖGN OG BÚNAÐUR SKÓLANS

 

 

Norræni dagurinn 1936. Stofa 10 (núverandi vinnustofa kennara). Aðalsteinn Sigmundsson kennari með 11 ára bekk sínum. Nemendavinna á veggjum. Takið eftir tækjakostinum: Útvarpsviðtæki og loftvog. Myndin sýnir nokkuð vel húsgögnin sem keypt voru til skólans árið 1930. Þá um sumarið voru Sigurður Jónsson skólastjóri og Helgi Elíasson kennari sendir til Þýskalands til kaupa á húsgögnum og tækjum fyrir hinn nýja skóla. Með þeim í ráðum var Aðalbjörg Sigurðardóttir. Skólaborðin, sem þeir keyptu voru, vor af allt annarri gerð en hér hafði áður tíðkast. Voru þau með stálpípum, tréplötu og hillu úr tré. Stólar voru af tilsvarandi gerð og lausir frá borðunum. Borð og stólar voru í sex stærðarflokkum.

 

Vinna nemenda 1935. 13 ára B og 9 ára A. Stofa 10. Á myndinni sést vel gerð og lögun   skólaborðanna sem keypt voru í Þýskalandi árið 1930.

 

Austurbæjarskóli er fullbúinn um 1930 og þar var öll hin besta aðstaða. Þar var meðal annars kvikmyndasalur, sem reyndar nýttist ekk mikið til kvikmyndasýninga fyrst á eftir vegna tæknibreytinga. Það voru 35 mm kolbogavélar sem fylgdu, sem engar fræðslumyndir voru fyrir, en hann var notaður sem leiksvið og skólaleikhús, má segja, og til söngkennslu. Svo var fullbúin smíðastofa með hefilbekk fyrir hvern nemanda og fullbúið skólaeldhús með gaseldavélum fyrir 30 nemendur og þarna er fullbúin náttúrufræðistofa með stjörnusjónauka og smásjám og öllu mögulegu. Landafræðistofa, þar sem er sérstök geymsla með kortum, saumastofa með stignum saumavélum fyrir heilan bekk, og svo framvegis. Þetta nýttist þó ekki sem skyldi, af því að um það leyti sem ég fer í skólann eru flestar þessar stofur komnar undir almenna kennslu, vegna þess hversu þröngt var í skólanum. Það var gríðarlegt innstreymi af fólki, mikil fólksfjölgun, sérstaklega á stríðsárunum, og það varð að tví og þrísetja kennslustofur. Því nyttust þessar sérstofur illa, þær urðu bara að venjulegum bekkjarstofum. Kennarar gátu þó sótt sér þau gögn sem þeir þurftu; ég man samt að náttúrufræðistofan nýttist ákaflega illa, það var mjög lítil notkun á þeim gögnum sem þar voru. Landakortin voru talsvert mikið notuð og það var áhugasamur maður sem sinnti því, Jón Þórðarson, faðir þess fræga Megasar, hann var mikill áhugamaður og raunverulega mikill landfræðingur og hélt utan um kortin og endurnýjaði þau gögn sem þar voru.

Örnólfsbók. Örnólfur Thorlacius 75 ára bls. 15.

 

Svona lítur Bíósalurinn út í upphafi. Hann er þó ekki tilbúinn fyrr en um 1934-35. Í horninu hægra meginn neðst í salnum er tafla með tónstiga og G-lykli á nótnastreng. Líklega er hljóðfæri þar hjá, píanó eða fótstigið harmóníum. Seinna er byggður pallur undir píanó í þessu horni. Árið 1980 er sviðið svo stækkað en við það þarf að fjarlægja fremsta áhorfendabekkinn. Sætum í salnum fækkar við það úr 150 í 135.

Austurbæjarskólinn var og er enn þá mjög fullkomin bygging, með bíósalnum þar sem við vorum í söngtímum hjá Jóhanni Tryggvasyni, þar voru líka haldnar leiksýningar í sambandi við jólin, man ég eftir söngleik sem æfður var og sýndur sem hét Árstíðirnar …

Hallfríður Georgsdóttir, nemandi frá 1938. Skrifað í apríl 1996.

 

1936-1937  NÝ FRÆÐSLULÖG – HANDAVINNA, LEIKFIMI OG SUND VERÐA SKYLDUGREINAR

NÝ FRÆÐSLULÖG gera ráð fyrir skólaskyldu frá sjö ára aldri. 7 til 10 ára börn sækja skóla frá 1. sept. til 15. júní. 11 til 13 ára börn frá 1. okt. til 10. maí. HANDAVINNA. LEIKFIMI og SUND  eru nú skyldunámsgreinar. Austurbæjarskólinn er vel undir þetta búinn með sundlaug, íþróttasal, smíðastofu með hefilbekkjum og saumastofu með stignum saumavélum fyrir heilan bekk.

 

 Rannveig Jónasdóttir handavinnukennari.

 

AUSTURBÆJARSKÓLAHVERFI nær nú yfir austurhluta Reykjavíkurbæjar og eru takmörkin þessi að vestan: Öll hús við Njarðargötu og Urðarstíg og götur sem liggja að Óðinsgötu að austanverðu og öll hús við Týsgötu og að austanverðu við Klapparstíg.                   

LESSTOFA starfar í skólanum daglega frá kl. 3-7. Bæjarbókasafnið leggur til bækur og gæslumann. Gísli Jónasson, yfirkennari er málshefjandi á kennarafundi um JÓLAFAGNAÐ FYRIR BÖRNIN í skólanum þann 20. desember og bendir á ýmis atriði í sambandi við hann.

 

1937-1938   LJÓSASTOFA – LÆKNISSKOÐUN – ÓKEYPIS TANNLÆKNINGAR

 

 

LJÓSASTOFA fyrir framfaralítil börn í skólum Reykjavíkur er starfrækt í fyrsta sinn frá 1. feb. til 15. júní í húsnæði skólans, nánar tiltekið, fremst hægra megin við ganginn sem liggur að bíósalnum, þar sem skólahjúkrunarfræðingurinn er nú. Njóta þar ókeypis ljósbaða rúm 600 börn. Öll börn fá ÓKEYPIS LÝSI og mjólk … og 600 börn smurt brauð með.

Nú er tekin til starfa … ljósastofa þar sem börn úr barnaskólum bæjarins geta baðað sig í geislum „háfjallasólar“, hvernig sem viðrar. Á síðasta ári veitti bæjarstjórn 5000 krónur til kaupa á ljósalömpum og öðrum útbúnaði til stofunnar … Um nokkurra ára skeið hafa öll börn í barnaskólunum notið mjólkur- og lýsisgjafa. Hvert einasta barn fær ókeypis tannlækningar. Börn frá efnalitlum heimilum fá ókeypis mat. Leikfimisæfingar hafa verið auknar og í sundlaug Austurbæjarskólans læra börnin sund og í sambandi við það – sem ekki er lítils vert – bað tvisvar í viku. …        

                                                                                                                                                                               Óskari Þórðarsyni skólalækni sagðist svo frá um hina nýju ljósstofu: Keyptir hafa verið 5 ljósalampar og 4 hitalampar og eru tækin af nýjustu og fullkomnustu gerð, sem völ er á.  Mörg börn þurfa á slíkum ljósböðum að halda, t.d. þau, sem eru lystarlaus, kirtlaveik eða börn sem taka óeðlilega litlum framförum. … Sagði hann að heilsufari barna hjer í bæ hafi farið afar mikið fram síðan 1930. Áður var það algengt að börn komu í skólana með hryggskekkju eða önnur líkamslýti og fóru úr skólunum verri en þau komu í þá. Nú er hryggskekkja eða viðráðanleg líkamslýti á börnum næstum alveg að hverfa, m.a. vegna þess að börn, sem hafa óeðlilega líkamsbyggingu, t.d. vegna beinkramar, eru tekin til lækninga strax og þau koma í skólana, 7 ára gömul, aðstandendum að kostnaðarlausu. Þá hafa tannskemmdir verið mjög algengar í börnum, en fara nú minnkandi vegna ókeypis tannlækninga í skólunum.

                                                                                                                                Morgunblaðið 27. janúar.

 

Ljósastofa var líka í skólanum og þeir sem ekki þóttu nógu hraustlegir voru settir í ljósaböð, kannski voru allir látnir fara einhvern tíma í ljós, ég man sjálf eftir ljósaböðum og lyktin er líka minnisstæð, þessi ljós sá skólahjúkrunarkonan um. Einnig veit ég um að börn voru sett í þrifaböð, ef ekki þótti nógu vel hugsað um þau heima hjá sér á þennan hátt. Ekki má gleyma lýsinu sem við vorum látin taka, lýsið var sett í könnu og geymd uppi í glugga þar til kom að því að taka það inn, en inntakan fór þannig fram, að við fórum í röð upp að kennaraborði og svo hellt oní okkur, var það vænn sopi, en með lýsinu höfðum við mjólk, um tíma var komið með mjólk í skólann úr Mjólkursamsölunni, hún var í pelaflöskum, ísköld og góð, en oft kom það fyrir að stúturinn á flöskunni var ekki heill, varð maður að passa sig að skera sig ekki á glerinu. Seinna, þá sáu foreldrar sjálfir um mjólkina handa okkur og keyptum við gjarnan mjólk í sultukrukku með loki í stóru frímínútunum, var það mikið lystugra en að koma með mjólkina að heiman í töskunni. Eitt var það enn sem ég man vel eftir, að sumir krakkar fengu smurt brauð á bakka og fengu þá einstaka krakkar að velja sér af bakkanum, það var ekki laust við að maður horfði öfundaraugum á fína smurbrauðið, svo flott var maður ekki með sér að heiman, ekkert var verið að brjóta heilann hvers vegna sumir fengu svona fínt, en sjálfsagt hafa verið erfiðar heimilsaðstæður víða.

Hallfríður Georgsdóttir f. 1931. Skrifað í apríl 1996.

 

1938-1939      1.857 NEMENDUR Í SKÓLANUM

EITT ÞÚSUND ÁTTA HUNDRUÐ FIMMTÍU OG SJÖ (1.857) BÖRN í skólanum. NÍU bekkjardeildir í árgangi. Aldur: sjö til þrettán ára. Bekkir merktir bókstöfum A, B, C, D, E,F,G,H og Í. Allt að 33 BÖRNUM Í BEKK. 13 ára H er drengjabekkur Aðalsteins Sigmundssonar. Sum barnanna búa langt frá skólanum, t.d. í Laugarnesi, Fossvogi eða Kópavogi. Ein stúlka býr í Sundhöllinni og Örnólfur Thorlacius í 7 ára B býr í skólanum sjálfum, enda sonur skólastjórans og Áslaugar konu hans.

 

ÖRNÓLFUR THORLACIUS

Örnólfur Thorlacius fæddist í Austurbæjarskólanum 9. september 1931 … elstur fimm systkina: Kristínar Rannveigar, Hrafnkels, Hallveigar og Kristjáns. Örnólfur og Kristín voru mjög samrýnd og höfðu gaman af því að stríða yngri systkinum sínum. „Ég leit alltaf upp til hans og elti hann út um allt. Hann var sífellt að fræða mig um eitthvað, en ekki veit ég hvort öll viskan var úr bókum eða hans eigin vangaveltur,“ segir Kristín. ... Áslaug minnist sonar síns sem þægilegs barns, hann hafi verið rólegur og svolítil pempía, rétt eins og bræður hans. „Örnólfur varð t.d. alveg ráðalaus ef hann óhreinkaði á sér hendurnar. Hann var líka dálítil skræfa, vildi ekki fara einn í neinar „svaðilfarir“. En hann var mjög vænn og góður, snemma skýr og fljótur að læra. Hann lá í bókum og varð læs á fjórða ári.“   

Níu ára gamall féll Örnólfur af efstu hæð í Austurbæjarskólanum niður lyftuop. Öllum til mikillar furðu slapp hann ómeiddur. En hann var ekki heilsuhraustur og dundaði sér við kyrrsetustörf. Hann fékk snemma áhuga á náttúrufræði og var ekki nema tíu ára þegar faðir hans gaf honum ársáskrift að National Geographic. Nokkru áður hafði hann fengið forláta kassamyndavél að gjöf og var duglegur að taka myndir. Þá var hann liðtækur teiknari og safnaði blómum og grösum, sem hann þurrkaði. … Málgefinn var hann, sérstaklega við fullorðna. Föðurbróðir hans, Birgir Thorlacius segir Örnólf hafa verið glaðan og góðan kút, óvenju greint barn sem hafi verið gaman að tala við. Og Örnólfur var fljótur að svara fyrir sig. Sex ára gamall kom hann á bæ þar sem bjuggu gormæltir bræður. Annar þeirra greip strák í bóndabeygju og spurði hvað hann gæti nú gert. „Ég get sagt R“ svaraði Örnólfur að bragði.

                                                                                                                      Morgunblaðið 19. mars 1989 bls. 38 C.

 

Örnólf sá ég fyrst haustið 1938 þegar við hófum nám í Austurbæjarskólanum hjá kubbakennaranum góða, Valgerði Guðmundsdóttur. Kubbarnir voru uppeldisleikföng. Hún hafði ári áður, að áskorun Sigurðar skólastjóra, sótt nám í kennslu- og uppeldisfræðum í Genf. Við sátum þvers og kruss í skólastofunni þessi sex ár sem við vorum undir ljúfum verndarvæng Valgerðar. ... Okkur grunaði að þetta væri besti bekkurinn þar sem Örnólfur, sonur skólastjórans var með.

Bergþóra Sigurðardóttir: Örnólfur Thorlacius, minningargrein Morgunblaðið 15. feb. 2017 bls. 21.

 

MÁLFRÆÐIKENNSLA Í FRÖNSKUM SKÓLUM - MONTESSORI - VALGERÐUR GUÐMUNDSDÓTTIR

Á KENNARAFUNDI er farið yfir ýmsar nýjungar í skólamálum. Aðalsteinn Sigmundsson les upp viðtöl og greinar frá Norðurlöndunum. Sigurður Thorlacius bendir á greinar í blöðum sem liggja frammi á kennarastofunni, skýrir frá efni þeirra og hvetur menn til að kynna sér þau nánar. Að lokum les hann upp úrdrátt úr grein eftir málfræðinginn Ferdinand Brunot um málfræðikennslu í frönskum skólum. Síðan er gengið til kennslustofu til að skoða ný áhöld (Montessori) sem Valgerður Guðmundsdóttir notar við kennslu í tveimur sjö ára bekkjum.  Valgerður lauk kennaraprófi 1935 og lagði að því loknu stund á nám við L‘Institut J. J. Rousseau í Genf með áherslu á smábarnakennslu, almenna barnasálarfræði og kennslufræði. Sigurður Thorlacius hafði áður numið við þá sömu stofnun.

 

 1939-1940     GLAUMUR OG GLEÐI Á KENNARSTOFUNNI

Skemmtifundur var haldinn í Kennarafélagi Austurbæjarskólans laugardaginn 9. mars 1940 kl. 20 e.h. Hófst fundurinn með því, að formaður bauð þá velkomna er mætt höfðu stundvíslega, kvaðst engan fundarstjóra ætla að skipa og engin fundarsköp láta gilda, til þess að glaðværð og andríki manna gæti notið sín. Settist fólk þá að spilum jafnótt og það kom, en er sýnt þótti að ekki kæmu fleiri, bar fundarnefnd, þau Steinunn Bjartmarsd. Jónas Jósteinsson og Hermann Hjartarson fram kaffi, te og kökur. Þótti öllum þeim vel takast og sýndu þau mikla rausn og prýði í starfi sínu.

Undir borðum hafði skólastjóri Sig. Th. ætlað að halda alvöruþrungna ræðu, en féll frá því áformi sínu, er hann sá blæ þann er ríkti yfir fundinum. Sagði hann í þess stað frá skíðaferð nokkurra kennara, er þegið höfðu boð frá Íþróttafélagi kvenna og dvalið í skála þess og notið þar margskonar hlunninda og góðs skíðafæris. Voru þátttakendur þeirrar farar hamingjusamir mjög og létu gleði sína í ljós bæði í bundnu máli og óbundnu. Þegar skólastjóri hafði lokið frásögn sinni af þessari merkilegu ferð, gerðist glaumur mikill og hávaði. Síðan fóru menn að spila og yrkja. Mun óhætt að fullyrða að yfir hálft hundrað vísna voru ortar þetta kvöld í kennarastofunni. Lengi nætur skemmtu menn sér á fundi þessum og fóru því næst heim til sín og fannst þeir hafa varið vel kvöldinu

Fundargerð: Jarþrúður Einarsdóttir formaður, Stefán Jónsson ritari.

 

BLEKFJÖLRITARINN

 

 

VÉLRITUN 

 

ZXZXZ

 

DAGNÝ VALGEIRSDÓTTIR

                                                                              

Við Laufásveg 67. Þrjár unglingsstúlkur, Bryndís Þorsteinsdóttir, Sigríður Ólöf Steingrímsdóttir og Dagný Valgeirsdóttir. Faðir Dagnýjar, Valgeir Björnsson tók myndina. Dagný f. 1924 hóf nám í skólanum á þriðja starfsári hans 1932-1933. Þá innritaðist hún í 4. bekk B hjá Vigdísi B. Blöndal. Hún þótti stór eftir aldri 145 cm að hæð og vó 33.8 kg. Móðir hennar var norsk, Eva Björnsson fædd Borgen. Valgeir, faðir hennar, var verkfræðingur Reykjavíkurbæjar og vann náið með byggingarnefnd Austurbæjarskólans þegar skólinn var reistur. Þekkt loftmynd af skólanum í byggingu prýddi herbergi Dagnýjar. Nágrannarnir voru valinkunnir góðborgarar, t.d. Valtýr Guðmundsson ritstjóri, Ásmundur biskup og Kristín Jónsdóttir listmálari. 

Dagný kom aftur að Austurbæjarskólanum árið 1961 og þá sem kennari. Hún hugsaði vel um nemendur sína og bar hag þeirra fyrir brjósti. Hjá henni var allt í föstum skorðum og hana vantaði sjaldan til vinnu. - "Hún hefur ekki orðið veik síðan ég var í níu ára bekk" - sagði nemandi einn kominn á gelgjuskeið og þótti nóg um stöðugleikann. En Dagný var afburða kennari og kollegum þótti gott að leita til hennar. Þar kom enginn að tómum kofunum. Hún var há og grönn, glæsileg á velli og fallega klædd, orðvör og vönduð manneskja. Hún var listunnandi, sótti tónleika og myndlistarsýningar og fylgdist vel með á menningarsviðinu.

 

ÍSLAND HERNUMIÐ

AÐFARARNÓTT 10. MAÍ ER ÍSLAND HERNUMIÐ af Bretum. Árla morguns leggur setuliðið hald á Austurbæjarskólann.

Og rétt í þeim svifum óku nokkrir flutningabílar inn á leiksvæði skólans. Bílarnir voru hlaðnir teppaknippum, pokum og þá öðrum farangri. Alvopnaðir dátar stukku af bílunum, lögðu byssur sínar í raðir upp við skólaveggina og tóku að ryðja af bílunum. Varð nú samstundis fullkomið los á öllu skólastarfi. Framandi menn voru á svipstundu orðnir herrar stofnunarinnar að börnunum ásjáandi, og nokkrir kennarar fengu fyrirskipanir að ryðja stofur sínar í snatri. Þetta var fyrsta snerting hersins við íslenzk börn og fyrsti skólinn, sem tekinn var. Börnunum var sagt a halda heimleiðis og bíða frekari tilkynninga. Hófst þá samtímis tvenns konar flutningur í byggingunni. Kennarar roguðust með bækur og áhöld yfir svæði skólans úr norðausturálmu, sem herinn tók fyrst, - en dátarnir ýmist veltu, köstuðu eða handlönguðu pjönkur sínar inn, fyrst í fimleikasalinn. Í þessum hluta skólans voru nokkrar kennslustofur, eldhús skólans, saumastofa, fimleikasalur, teiknistofa, steypibaðklefar, salerni og geymslur.     

Þegar Bretar höfðu komið inn nokkru af farangri sínum, lituðust þeir um og spurðu forráðamenn skólans, hvar þeir mættu geyma kol, sem þeir kæmu með til upphitunar. – Kol – hingað þarf engin kol að flytja, þessi stofnun er hituð upp með vatni úr iðrum jarðar. – Ha! sögðu þeir aðkomnu og lyftust við, - það er ómögulegt, - slíkan skóla höfum við ekki í brezka heimsveldinu, - skyldu fleiri fara eftir þessu! Og þeir skrúfuðu frá krönum og vellandi laugarvatnið bunaði þóknanlega eins og hver vildi.                                                                          

Börnunum varð tafsamt í portinu á heimleiðinni. Þau hnýsnustu gerðust nærgöngul og vildu snerta á farangri. Var þeim þá stuggað burtu. Og innan stundar óku bílarnir á brott og hermennirnir flestir hurfu frá skólanum um sinn. Skólastarfsemin leystist þannig upp í skyndi í þessari skólastofnun. Hinir skólarnir voru svo teknir hver af öðrum, bæði barnaskólar og framhaldsskólar, þó ekki eins fyrirvaralaust.

Gunnar M. Magnúss: Virkið í norðri I. bindi bls. 95.                                                                                         

 

Okkur finnst að það samræmist illa að hafa hermannaskála, þar sem börnum er kennt. Hér hjá mér er flokkur hermanna. Hann er með sífellda flutninga, bifreiðar, byssur og önnur vopn. Hér er ekki staður fyrir börnin, úr því sem komið er.

Sigurður Thorlacius, skólastjóri.

 

Kennsla stöðvast í Miðbæjar- og Austurbæjarskóla. Vorskóli og haustskóli falla niður. Þetta hefur áhrif á nám um 2000 barna. Próf, önnur en fullnaðarpróf, falla niður samkvæmt fyrirmælum kennslumálastjórnarinnar. Auk þess var skólanum lokað vegna inflúensufaraldar í einhverja daga.

 

 Þann 17. ágúst gerist þetta á skólanefndarfundi:

Yfirkennari skýrði frá því, að fimmtudaginn 15. þ.m. hefði laut. Townsend komið í skólann og farið fram á að fá skýrslu um ásigkomulag skólahúss og áhalda, er herinn tók þann 10. maí. Lagði hann fram skoðunargerð, er hann hafði samið, um ásigkomulag húss og áhalda nú. Yfirkennari taldi sér ekki fært að láta umbeðna skýrslu í té að svo stöddu. Lautenantinn tilkynnti þá, að skólinn myndi verða tekinn undir spítala. Kvaddi yfirkennari þá bæjarverkfræðing til ráðuneytis, en lautenantinn catp. Buckland, og lýsti bæjarverkfræðingur yfir því, að bærinn gæti ekki af skólahúsinu séð undir spítala. Varð ekki af samkomulagi um þetta mál, og sneri yfirkennari sér þá til formanns skólanefndar og mæltist til þess, að hún taki málið fyrir.                                                                                                                                                                                                                    Arnfinnur Jónsson skólastjóri: Drög að sögu Austurbæjarskólans (handrit) bls. 22.

 

Skólanefnd samþykkir að biðja bæjarverkfræðing, yfirkennara og dyravörð skólans að semja nú þegar skýrslu um ásigkomulag skólahúss, áhalda og eignarinnar eins og það var 10. maí s.l. Ennfremur skorar nefndin á ríkisstjórnina að gera allt sem í hennar valdi stendur til að kennsla geti hafist á reglulegum tíma. Skýrslan er lögð fram 7. október.) Skólastjóri skýrir þá frá því að vegna hins óvenjulega ástands geti kennsla ekki hafist fyrr en miðvikudaginn 16. október.

 

 9. maí 1941. Bæjarbúum sýnd meðferð íkveikjusprengja. Líklega sandpokavirki hægra megin á myndinni.

Ljósmyndari: Skafti Guðjónsson.

 

 

 Mynd þessi birtist í Fréttabl. 9. maí 2020, þegar 80 ár eru liðin frá hernáminu. Ljósmyndara er ekki getið.

 

23. október 1940 sendi Sigurður Thorlacius, skólastjóri, forsætisráðherra eftirfarandi bréf:

Hér leyfi ég mét að beina til yðar, hæstvirtur forsætisráðherra, eftirfarandi málefni:

Breska setuliðið hefir undanfarið haft og hefir enn, ýmiskonar heræfingar á neðra leikvelli Austurbæjarskólans. Æfingar þessar draga mjög að sér athygli barnanna, - trufla leiki þeirra í kennsluhléum og dreifa jafnvel huga þeirra frá náminu í kennslustundum. Einnig er augljóst, hve óheppilegt það er, að börn séu áhorfendur að æfingum í meðferð allskonar vopna, þ.á.m. æfingum í að reka byssustingi í ímyndaða óvini. - Þá hefir setuliðið gjört sér vígi á leikvellinum og alldjúpar loftvarnargryfjur (trenches).

Nú er að beiðni mín til yðar, að þér hlutist til um við forráðamenn setuliðsins:

1) að heræfingum á leikvelli skólans verði hætt,

2) að áminnst vígi verði flutt burtu, eða a.m.k. afgirt svo að börn komizt ekki að því. Þó má ekki girða það með gaddavír, því að á honum gætu börnin auðveldlega meitt sig og rifið föt sin.

3) að fyllt verði upp í loftvarnargryfjurnar.

 

SKIPTON CAMP Á SKÓLAVÖRÐUHOLTI

Bretarnir reisa tjald- og braggabyggð á Skólavörðuholtinu og næri hún yfir allt holtið niður að Barónsstíg og þétt að Austurbæjarskólanum enda Iðnskólinn, Hallgrímskirkja og Gagnfræðaskóli Austurbæjar ekki risin.

Bretarnir reistu fljótlega braggabúðir á Skólavörðuholtinu. Ég fylgdist náið með þeim framkvæmdum út um gluggann á Barónsstígnum.   Þarna settist meðal annars að skoskt lið, og því fylgdi myndarleg sekkjapípuhljómsveit. Á hverjum sunnudegi marseraði öll sveitin frá búðahliðinu upp á Eiríksgötu og niður Barónsstíginn að Sundhöllinni þar sem snúið var við og haldið sömu leið til baka. Þetta var geysilega gaman að sjá. Skotarnir höfðu flinka trommarasem sveifluðu kjuðum og voru að sjálfsögðu allir í pilsum. Ég gætti þess að missa ekki af þessari sunnudagsskemmtun.                     

Stundum birtust þýskar herflugvélar yfir Reykjavík og loftvarnabyssurnar byrjuðu að gelta. Fólki hafði verið sagt að fara niður í kjallara eða koma sér af hættusvæði þegar þannig stæði á. Ég gerði það nú ekki, heldur var úti í glugga á þriðju hæð og reyndi að sjá sem mest.       Einu sinni varð ég áhorfandi að því þegar sprengjubrot eða eitthvað þvíumlíkt úr loftvarnabyssu skall niður á einn braggann sem stóð næst Barónsstígnum. Það þeyttist það aftur upp í loft og einhver aumingja hermaður sem þar stóð nærri henti sér niður og glápti síðan í forundran á þetta stykki sem lent hafði örskammt frá honum. Þarna munaði mjóu.

Páll Kristinn Pálsson: Góðra vina fundur. Minningar Kristins Hallssonar söngvara bls. 59

 

 Skipton Camp 1945-1950. Ljósmyndari: Guðbjörg María Benediktsdóttir.

Íslenskir blaðsölustrákar voru sumir hverjir duglegir að selja hermönnunum blaðið Daily Post.

Bestu vinir mínir voru kokkarnir glöðu í  skoska herfylkinu á Skólavörðuhæð, sem marseraði í dómkirkjuna á sunnudagsmorgnum í skotapilsum með sekkjapípur og trommur. Ég var fastur gestur í eldhúsinu hjá Leifsstyttunni og bragðaði þar te í fyrsta skipti. Ég fékk að reyna mig á blokkflautu og sekkjarpípu og kokkarnir sögðu mig bara efnilegan.

Þór Whitehead: Ísland í hershöndum bls. 151 Frásögn Óskars Jóhannssonar.

 

 Braggabyggðin náði yfir allt holtið frá Njarðargötu að Barónsstíg. Ljósmynd: Þjóðviljinn.

 

 ... það gekk ýmislegt á þegar heimili manns var hertekið. Ég hygg það hafi verið talsvert gegnumstreymi, jafnóðum og þeir byggðu yfir sig. Fyrst voru þeir í tjöldum út um allt eða í skólanum, fóru svo þaðan í bragga og nýir komu í staðinn. Undir haustið tel ég að skólinn hafi veriðo orðinn að nokkurs konar hersjúkrahúsi, því þeir áttu náttúrulega von á að gerð yrði innrás, svo þeir bjuggu sig undir það með því að setja upp spítala. Ég man eftir því að það urðu einhverjar skemmdir á hvössum járnköntum, brúnir á fótunum sem skárust í linoleumdúkana, svo það þurfti að dúkleggja talsvert vegna þessa. Og eins var það að eitthvað af skjölum skólans glataðist. Þegar skólinn var hernuminn, samdi faðir minn við yfirmenn um að gögn, sem tilheyrðu skólanum, yrðu lokuð inni í ákveðnum hluta skólans sem þeir lofuðu að láta í friði. En það brást. Ég held það hafi ekki verið af neinum illvilja, heldur vegna hins öra gegnumstreymis af fólki í hernum að þetta gleymdist og þessar stofur voru opnaðar og eitthvað af gögnum skólans fóru forgörðum.

Örnólfsbók. Örnólfur Thorlacius 75 ára, bls. 14-15.

 

1941 -1942   HÚSNÆÐISLAUST FÓLK BÝR Í SKÓLANUM 

Samkvæmt niðurstöðum húsaleigunefndar eru 2739 einstaklingar húsnæðislausir í Reykjavík haustið 1941. Skóli hefst ekki fyrr en 21. október. Stafar drátturinn á skólasetningu af því, að húsnæðislaust fólk býr í hluta af skólahúsinu. Mjólkur-, lýsis- og matargjafir voru engar þetta skólaár. 

Skólinn er með flötu þaki og ofan á húsinu risastórar svalir. Brattar en þröngar tröppur liggja þangað upp og eru staðsettar nálægt göflum norður- og suðurálmunnar. Sumarið 1941 bregður kona sér upp tröppurnar norðan megin í húsinu á eftir barni sem farið hafði út á þaksvalirnar. Ekki vill betur til en svo, að konan fellur við og liggur meðvitundarlaus á gólfinu, þegar komið er að henni. Er hún flutt á Landspítalann þar sem kemur í ljós, að hún hefur fengið allmikinn heilahristing en er þó ekki talin í neinni hættu. Nýja dagblaðið greinir frá 13. júlí 1941.

Skrá yfir námsbækur sem nota skal þetta skólaár nefnir m.a. eftirfarandi bækur: Gagn og gaman; Litla gula hænan og Ungi litli, öll ritin í tveimur heftum. Enn fremur Reikningsbók Elíasar Bjarnasonar 1.-4. hefti.

 

                                      

 

 

HALLGRÍMSSÖFNUÐUR FÆR INNI Í SKÓLANUM

 Síðasta kvöldmáltíðin. Gömul biblíumynd úr fórum skólans. 

 

Nýstofnaður Hallgrímssöfnuður (1940) fær inni í Austurbæjarskólanum og er messað þar í fyrsta sinn á jólum 1941. Þá messar sr. Sigurbjörn Einarsson á neðri ganginum en síðar eru guðsþjónustur færðar í bíósalinn og altari komið þar fyrir. Sr. Jakob Jónsson er einnig prestur safnaðarins. Stríðið setur svip á skóla- og kirkjustarf á þessum árum. Bíósalurinn er loftvarnabyrgi og sandpokum hlaðið fyrir alla glugga. Skólavörðuholtið fyllist af hermannabröggum. Nokkuð er þar einnig af „platbyssum“, þ.e. máluðum trébyssum til að villa um fyrir njósnaflugvélum Þjóðverja (munnleg heimild: Örnólfur Thorlacius). Haldnar eru tvær vel sóttar guðsþjónustur hvern helgan dag. Auk þess barnamessur kl. 10, sem enda stundum á stuttri Chaplin-mynd, enda hæg heimatökin í Bíósalnum. Þetta fyrirkomulag varir til ársins 1958 er nýbyggð kapella Hallgrímskirkju er vígð af biskupi Íslands. Þá er Kvenfélag Hallgrímskirkju stofnað 8. mars 1942 í bíósal Austurbæjarskóla. Stofnfundurinn hófst með guðsþjónustu kl. 14 og er bíósalurinn troðfullur. Sr. Sigurbjörn Einarsson setur fundinn og gefur biskupi Hr. Sigurgeiri Sigurðssyni orðið. Sr. Jakob Jónsson predikar. Framsögumaður undirbúningsnefndar er Guðrún Jóhannsdóttir frá Brautarholti.

 Eins og plagsiður var um land allt á þessum árum, urðu talsverðar sviptingar í fyrstu prestkosningum í Hallgrímssókn, ekki fyrst og fremst milli umsækjenda sjálfra, heldur milli ötulla og aðgangsharðra stuðningsmanna, … Sjálf kosningin fór fram í Austurbæjarskólanum. Á kjördag, 15da desember, opnuðu stuðningsmenn Sigurbjörns skrifstofu í Grænuborg … Þegar leið á daginn gerði óveður með þeim afleiðingum að allt rafmagn fór af. Sigurbjörn var þá staddur í Grænuborg og smalar hans að tínast inn fannbarðir og kuldalegir. Þá fauk alltíeinu upp stór gluggi sem vissi til suðurs og stormhrinan skellti um koll borði sem á var kaffi og ýmislegt meðlæti. Það fór allt í gólfið. Sjálfur stóð hann í miðri hrúgunni og uppgötvaði sér til stórrar furðu, að ekkert af leirtauinu hafði brotnað. Það varð hróp mikið og halló; ekki bryti gæfumaður gler. Smávægilegt atvik, en einkar eftirminnilegt. 

Ein afleiðing veðurofsans og rafmagnsbilunarinnar var sú, að kjósa varð við kertaljós í Austurbæjarskólanum og olli verulegum vandkvæðum, því senda varð í nærliggjandi verslanir til að útvega kerti og síðan koma þeim fyrir í göngum og stofum skólans. Var heldur drungalegt yfir athöfninni þegar leið á kvöldið. …                                                                          

Fyrsta misserið og fram á haust 1941 fékk söfnuðurinn inni í Dómkirkjunni og Fríkirkjunni á víxl. Jafnframt var leitað að aðstöðu innan prestakallsins, en þar var ekki margt í boði og raunar ekkert nema Austurbæjarbarnaskólinn. Varð að ráði að hagnýta hann, en dróst langt fram á haustið. Fyrsta messa Sigurbjörns í skólanum var á jólum og haldin á ganginum, en síðan var flutt í kvikmyndasal skólans og sett þar upp altari. Hann hafði verið útbúinn sem loftvarnarbyrgi, allir gluggar með hlerum og sandpokar uppmeð, og var síður en svo aðlaðandi guðsþjónustustaður. Samt var hann yfirleitt þéttsetinn. …                                                                                                                                                                                 Hallgrímskirkjusöfnuður var á þessum árum tólf til fjórtán þúsund manns, helmingi fjölmennari en hann er nú, og drepið í hverja kytru við allar götur sóknarinnar, Grettisgötu, Njálsgötu, Laugaveg, Hverfisgötu að ógleymdri Bjarnaborg og Skuggahverfi. Mörkin að vestanverðu lágu um Klapparstíg, Týsgötu, Óðinsgötu og Bergstaðastræti.

Sigurður A. Magnússon: SIGURBJÖRN BISKUP, ÆVI OG STARF bls. 169-173.

 

Grunnur  Hallgrímskirkju í apríl 1956. Ljósmynd: Andrés Kolbeinsson.

 

HLERAR FYRIR GLUGGUM

 

Kristján "afi" Eiríksson frá Þúfu í Berufirði, gangavörður og Valgeir Pálsson húsvörður ásamt nemendum.                          Hlerar voru fyrir gluggum skólans á stríðsárunum.

 

1942 -1943     HÆTTA Á LOFTÁRÁSUM OG SUMARDVÖL BARNA Í SVEIT

Vegna styrjaldarinnar og hættu á hugsanlegum loftárásum Þjóðverja, er mælst til þess að reykvísk börn séu send í sveit. Um 1.350 af  1800 nemendum skólans dvelja í sveit í einn mánuð eða lengur sumarið 1942. Helstu sumardvalarstaðirnir eru Brautarholt á Skeiðum, Menntaskólasetrið við Hveragerði, Sælingsdalslaug, Stykkishólmur, Staðarfell, Barð í Fljótum, Reykholt í Biskupstungum og Silungapollur.   

Í öryggisskyni var ákveðið að flytja reykvísk börn út á land. Faðir minn vann á vegum Rauða krossins að skipulagningu sumarbúða og stjórnaði raunar slíkum búðum í heimavist Laugaskóla í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Við systkinin vorum þar einnig, að minnsta kosti hluta sumars, ... Um haustið var ekið með barnaskarann frá Laugum til Reykjavíkur, og trúi ég  að ekki þætti ferðamátinn burðugur nú á dögum. Rauði krossinn tók á leigu stóran vörubíl ... Á pallinum, - eða að minnsta kosti hluta hans - var yfirbygging, "boddí", fest með kaðli, og þar sátu börnin á langbekkjum að mig minnir. Nokkurt farþegarými var raunar hjá ökumanni, þetta var svonefndur hálfkassabíll.

Faðir minn skólastjórinn bls. 220. Örnólfur Thorlacius segir frá.

 

Hlerar eru fyrir gluggum á jarðhæð Austurbæjarskólans og drungalegt um að lítast innandyra, t.d. í Bíósalnum. Þar er loftvarnarbyrgi nemenda. Þangað þurfa nemendur stundum að hraða sér. Sögur herma að Erla Dagmar Ólafsdóttir f. 1931 hlaupi í einu slíku tilfelli heim til sín á Leifsgötu 26 í stað þess að fylgja bekknum sínum niður í Bíósal. Hennar er fljótt saknað og veldur fjarvera hennar nokkrum taugatitringi.   

Haustið 1940 voru Bretar búnir að koma sér svo vel fyrir að þeir skiluðu Austurbæjarskólanum og kennsla var með eðlilegum hætti um veturinn. Enn var samt búist við loftárásum, og á jarðhæð skólans voru gluggar byrgðir og komið upp loftvarnarskýlum handa skólabörnum og kennurum og íbúum nálægra húsa. Nokkrum sinnum leituðum við skjóls í þessum skýlum þegar þýskar flugvélar flugu yfir.

Faðir minn skólastjórinn bls. 221. Örnólfur Thorlacius segir frá.

 

   

NORSKUR SKÓLI FYRIR BÖRN FLÓTTAMANNA

Milli 25 go 30 norsk flóttabörn dvelja nú í Reykjavík. Um 10 þeirra byrja í norskum skóla í Austurbæjarskólanum 27. apríl 1942. Kennari þeirra er norskur prestur, séra Kruse.

 

AÐALSTEINN SIGMUNDSSON FELLUR FRÁ     

Aðalsteinn Sigmundsson, sá gagnmerki kennari lést af slysförum þann 16. apríl 1943. „Er skólanum og kennslumálum landsins ómetanlegt tjón að fráfalli hans“ segir Sigurður Thorlacius í skólahaldsskýrslu. Líkt og árinu áður fellur vorskólinn niður, sem og mjólkur-, lýsis- og matgjafir. En ljósastofan er starfrækt líkt og verið hefur.

  

Ríkarður Jónsson myndhöggvari og myndskeri gerði þessa brjóstmynd

til minningar um Aðalstein Sigmundsson.

 

Aðalsteinn var meðalmaður á vöxt og þéttur á velli, hýr og glaðlegur í viðmóti, tryggur og mikill vinur vina sinna, en þungur á bárunni, ef andstæðingar áttu í hlut. Hann var þjóðlegur i hverju viðviki og heill í ást sinni á öllu þvi, sem íslenzkt var. Honum var því þungt fyrir brjósti, þegar hlutleysi Íslands var brotið og hernum rutt hér á land. Hann gekk jafnan í sveig, ef hann sá hermann framundan, sem líklegur var að verða á vegi hans. Það var einhverju sinni, er Aðalsteinn gekk niður Bankastræti, að skyndilega stóð dáti fyrir framan hann og gerði sig líklegan til að ávarpa hann, ef til vill til að spyrja til vegar. En Aðalsteinn brá hart við, skaut olnboga til hliðar og vatt sér út af gangstéttinni þegjandi. Hann ætlaði ekki að vísa neinum dáta til vegar á Íslandi.

Árið 1942 varð Aðalsteinn námsstjóri á Vestfjörðum. Í aprilmánuði var hann á suðurleið úr ferðalagi að vestan og tók skipsferð frá Borgarnesi til Reykjavikur. Er skammt var farið, féll hann útbyrðis. Hann þreytti sund um hríð, en er hann náðist, var hann látinn. Hið seinasta, sem hann hafði skrifað í minnisbók sina, var orðið: sund.

Þannig féll sá úrvalsmaður, tæpra 46 ára að aldri.

                                                                           Gunnar M. Magnúss: Sæti nr. 6, bls. 115.

 

LÆKNAVARÐSTÖÐ REYKJAVÍKURBÆJAR

Læknavarðstöð Reykjavíkurbæjar tekur til starfa 1. apríl í suðurálmu Austurbæjarskóla. Stöðin starfar frá kl. 8 að kvöldi til 8 að morgni.

 

1943 -1944  SKEMMTIFUNDUR KENNARA

Í nóvember er skóla lokað í fjóra daga vegna inflúensufaraldurs. Í janúar verður að loka í þrjá daga vegna rafmagnsbilunar. SKEMMTIFUNDUR í Kennarafélagi skólans haldinn 20. desember. Sveinbjörn Markússon formaður setur samkomuna. Skólastjóri flytur ávarp, Sigurður Helgason les úr nýrri skáldsögu sinni „Hafið bláa“.  Næst er þátturinn „Takið undir“ undir stjórn Páls Halldórssonar. Gunnar M. Magnúss flytur þátt um kennarana og skólalífið er hann nefnir „Sín ögnin handa hverjum“. Því næst syngur Maríus Sölvason við undirleik Jóhanns Tryggvasonar áður en sest er að kaffiborðum. Að lokum er stiginn dans á kennarastofunni fram eftir nóttu.

 

JÓHANN TRYGGVASON OG BARNAKÓR AUSTURBÆJARSKÓLA

 

 Þórunn Soffía Jóhannsdóttir, síðar Ashkenazy er dóttir Jóhanns Tryggvasonar.

 

Jóhann sótti um stöðu tónlistarkennara við Austurbæjarskóla sama ár og fékk hana. Hann stofnaði í kjölfarið telpnakór í skólanum sem skemmti víða á söngskemmtunum og kom fram á jólagleði í útvarpssal sem var mikil sæmd á þessum tíma. Margir nemendur hans, sem voru í þessum stúlknakór, héldu áfram að syngja með honum í Samkórnum þegar þeir urðu eldri.

                       Elín Albertsdóttir: Íslenska undrabarnið – Saga Þórunnar Ashkenazy bls. 12.

 

Einhverjir drengir eru reyndar í þessum kór eins og sjá má í endurminningum Kristins Hallssonar óperusöngvara, þar sem hann segir frá nágrönnum sínum, börnum Páls Ísólfssonar:

Hins vegar var Þuríður á okkar reki og við lékum okkur heilmikið saman í kýlubolta og öðrum leikjum. Hún var skemmtilegur krakki, en gat stundum verið dálítið æst. Við sungum saman í barnakór Austurbæjarskólans undir stjórn Jóhanns Tryggvasonar píanóleikara og söngkennara. Það var ágætur kór og kom fram nokkuð víða utan skólans. Þuríður átti síðan eftir að verða ein helsta samstarfskona mín í sönglistinni allan minn feril. Í kórnum hans Jóhanns var reyndar einnig önnur upprennandi söngkona, Margrét Eggertsdóttir.

                       Páll Kristinn Pálsson: Góða vina fundur. Minningar Kristins Hallssonar söngvara bls. 36.

 

Auglýsing úr Barnadagsblaðinu. Barnakór skólans syngur undir stjórn Jóhanns Tryggvasonar  á sumardaginn fyrsta 1941.

 

Stundum kom Þórunn, dóttir Jóhanns með honum í kennslustund og lék jafnvel á píanóið í Bíósalnum, þó smá væri.

Þórunn þekkti lítið annað en að sitja við píanóið og leika þótt hún næði ekki með fæturna niður á fótstigið. Oftast var nokkrum bókum komið fyrir undir sitjandanum á henni svo hún næði upp á nótnaborðið, svo lítil var hún. Mörgum fannst undarlegt að heyra svona lítið barn leika stór verk af sannkallaðri innlifun.  

Elín Albertsdóttir: Íslenska undrabarnið – Saga Þórunnar Ashkenazy bls. 12.

 

MINNINGAR ÚR SKÓLANUM

Kristinn Hallsson bjó á Barónsstíg 65 og lýsir hverfinu og skólanum á greinargóðan hátt:

Barónsstígurinn lá þá á bæjarmörkum Reykjavíkur. Ekki var búið að reisa öll húsin við Eiríksgötu, Leifsgötu og Egilsgötu, og þar fyrir austan tók við hreinræktuð sveit með bóndabýlinu Klömbrum sem túnið er kennt við þar sem nú eru Kjarvalsstaðir.                      

…                                                                                                                  

Í þá daga hófst formleg skólaganga í átta ára bekk, en maður áður í svokallaðri tímakennslu til undirbúnings. Það var mjög einfalt fyrir mig að sækja þá tíma þar sem Jón Þórðarson kenndi í kjallaranum heima á Barónsstíg 65. Ég þurfti sem sagt bara að labba niður stigann. … Ég var mjög heppinn með kennara í Austurbæjarskólanum. Hann hét Jónas Jósteinsson og var um margt merkilegur maður, skrifaði meðal annars fróðlegar greinar um uppeldis- og skólamál. Hann ritstýrði einnig Sólskríkjunni, sem kom út á Sumardaginn fyrsta með léttu barnaefni sem rímaði við árstímann.                                                                          

Það var líf og fjör í Austurbæjarskólanum. Á þessum tíma tíðkaðist ýmislegt í heilsuvernd barna sem flestum þætti eflaust stórfurðulegt í dag. Okkur var til dæmis á hverjum morgni gefinn lýsissopi úr könnu sem hjúkrunarkona gekk með á milli nemenda. Berklaskoðanir voru árvissar, og ég man sérstaklega eftir þegar farið var að bólusetja við mænuveiki, að flestir urðu veikir í nokkurn tíma á eftir. Sérstaklega urðu þeir rauðhærðu ansi illa veikir.Við vorum um það bil þrjátíu krakkar í bekknum. Ýmsir bekkjarbræður mínir áttu eftir að verða fyrirmyndarmenn í þjóðfélaginu, svo sem Jónas Gíslason vígslubiskup. En með eftirminnilegri strákum í bekknum var Ragnar nokkur Jakobsson. … Ragnar dó síðan mjög ungur, hann var háseti á Goðafossi í stríðinu og drukknaði þegar þýskur kafbátur skaut skipið í kaf á Faxaflóanum hér skammt frá landi.

Páll Kristinn Pálsson: Góða vina fundur. Minningar Kristins Hallssonar söngvara bls. 36-37.

 

1944 -1945

 

 

 Ljósmynd Jóns Kaldal af skólanum eins og hann lítur út í upphafi.

ÞAKLEKI

Austurbæjarskólinn er reistur með flötu þaki og reynist það leka. Sigurði Guðmundssyni, húsameistara hefur verið falið að gera tillögur um það hvernig ráða eigi bót á lekanum. Leggur hann til að bætt verði einni hæð ásamt risi ofan á skólann. Líkan gert samkvæmt þeirri tillögu er lagt fram á fundi bæjarráðs þann 16. apríl. Bæjarráð samþykkir að óska eftir fullnaðarteikningu af skólanum þannig og ráðgerir að efsta hæðin verði fyrst og fremst ætluð fyrir Bæjarbókasafn Reykjavíkur. Þjóðviljinn greinir frá.

 

SIGURÐUR THORLACIUS OG GULLÚRIÐ GÓÐA

FRIÐARDAGINN 9. maí 1945 halda kennarar  Sigurði Thorlacius og Áslaugu, konu hans samsæti.

Samsætið hófst með sameiginlegri kaffidrykkju. Sveinbjörn Markússon bauð heiðursgestina velkomna fyrir hönd Kennarafélagsins. Undir borðum flutti Gunnar M. Magnúss ávarp og afhenti skólastjóra gullúr að gjöf frá kennurum skólans sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf í þágu kennarasamtakanna, einkum hinn mikla og heilladrjúga þátt hans í lausn launamálanna. Skólastjóri þakkaði gjöfina og kvaðst meta mest þann hug er hann finndi að fylgdi henni.

Gerðabók Kennarafélags Austurbæjarskóla Reykjavíkur. Sveinbjörn Markússon fundarritari.                                           

Skömmu áður en faðir minn féll frá, nokkrum mánuðum, var haldið upp á eitthvert stórafmæli í skólanum og þá færðu samkennarar hans honum í tilefni þess gullúr, vasaúr með loki, sem ég fékk svo í arf eftir hann og hef alltaf haldið mikið upp á. Ég er nú hættur að ganga þannig til fara, að ég geti verið með það, en þegar ég gekk í jakkafötum með vesti, þá hafði ég þett úr í gullkeðju.

Örnólfsbók, Örnólfur Thorlacius 75 ára bls. 12.

 

9. júlí kemur farþegaskipið Esja til Reykjavíkur með u.þ.b. 300 Íslendinga sem dvalið hafa á Norðurlöndunum og víðar öll stríðsárin. Hafnarbakkinn og nærliggjandi götur fyllast af fólki, fánar blakta við hún, kórar bæjarins syngja og útvarpað er beint frá þessum stórviðburði. „Aldrei mun komu nokkurs skips hafa verið fagnað eins ákaft og innilega“ segir Þjóðviljinn daginn eftir. Margir farþeganna snúa heim allslausir. Ríkisstjórnin endurgreiðir fargjaldið og Rauði krossinn hrindir af stað söfnun til styrktar hinum verst settu. Þeir sem ekki eiga í önnur hús að venda fá inni til bráðabirgða í Austurbæjarskólanum.  

 

SIGURÐUR THORLACIUS FELLUR FRÁ  - "GRÆTUR Í HJARTA LÍTIL RÓS ÚR BLÓÐI"

11. ágúst deyr Sigurður Thorlacius og er Gísla Jónassyni, yfirkennara falið að gegna stöðu hans til loka skólaársins 1945-1946. Á þessum árum telst skólaárið hefjast með vorskólanum. Þannig telst kennsla sjö til tíu ára barna hefjast 2. maí. Þau mæta svo aftur að loknu sumarleyfi 6. september. En ellefu til þrettán ára börn hefja nám 1. október.

Við uxum upp þarna í skólanum og urðum svo fyrir því áfalli að faðir okkar dó óvænt. Hann var búinn að vera eitthvað heilsuveill og veiktist um sumarið og dó ... Ég var þá þrettán ára. Ég gerði mér ekki grein fyrir því þá hvert stefndi. Ég hef ekki fengið á hreint hvert var banamein hans, en hann var með háan hita. Ég var í sveit hjá afa og ömmu um þetta leyti og fylgdist með þar. Mamma fór svo suður og svo fór það nú á þann veginn. Hann var aldamótamaður og rétt orðinn 45 ára þegar hann dó. Það urðu mikil umskipti í okkar lífi við það. Það voru margir sem studdu við bakið á okkur og ber að meta það.

Örnólfsbók, Örnólfur Thorlacius 75 ára bls. 12.

 

Úr minningargreinum um Sigurð Thorlacius, sem voru endurbirtar í tímaritinu Menntamálum haustið 1945:

… fannst honum, að flest þyrfti að færast úr skorðum í skólamálum hér, endurnýjast og breytast í betra horf. Fyrst og fremst fannst honum þurfa átak til þess að leysa skólana úr gömlum viðjum, leiða nemendur og kennara út af hinum gömlu troðningum, sem hver og einn gat þrætt blindandi, - og leggja síðan á brattann, þar sem víðari útsýn fékkst yfir umhverfið. En til þess þurfti frelsi. Og hamingja frelsisins innan skólans fólst í því, að nemandi og kennari væru í samvinnu að uppgötva eitthvað nýtt og óvænt og dásamlegt í sambandi við verkefni hvers einstaklings á hverjum degi. … Þessar hugsjónir hóf Sigurður að innleiða við komu sína í íslenskt skólalíf. En vegna þessarar stefnu risu gegn honum og skóla hans óvildaröldur og léku þá um hann kaldir straumar, bæði utan skólans og innan. Og kynlegt má það kallast, að þeir menn, sem kröfðust athafnafrelsis og olnbogarúms í atvinnumálum eða á verzlunar- og viðskiptasviðinu og í hinu svokallaða stjórnmálalífi, skyldu snúast grimmilegast gegn athafnafrelsi í skólunum. Steðjuðu þá margir örðugleikar að Sigurði og heimili hans. Hann var og eigi heilsuhraustur og skólinn í umsátri árum saman.                                             

Sigurður var hæglátur maður og háttprúður í framkomu. Að vísu var hann undir niðri ráðríkur og bjó yfir metnaði. Og oft treysti hann sjálfum sér bezt og óskaði eftir fylgi og stuðningi og mun óhætt að fullyrða, að hann vann þá flestum betur og viturlegar. Hann var óbrigðull vinur samstarfsmanna sinna, sýndi þeim trúnað og hlaut í staðinn traust og vinsældir. Hann hugsaði vísindalega. Þess vegna hófst ræða hans venjulega yfir næstu garða. … Gáfur hans voru þannig, að meira bar á djúphyggni en stundarskarpleika, enda var hann eigi alltaf svo viðbragðsfljótur í hugsun sem ýmsir þanlausari samstarfsmenn. Og gálauslega tók hann ekki á nokkru máli, enda var honum sýndur vaxandi trúnaður á mörgum sviðum.  

                                                                                                                                                                                                                                                                                              Gunnar M. Magnúss.

 

Um nokkurra ára skeið var ég kennari við þann skóla, er Sigurður veitti forstöðu, og naut þá ráða hans og vinsemdar. Tel ég mér það happ mikið, og því meira, sem ævin líður. Aldrei mun ég gleyma þeim móttökum, sem ég átti að fagna, er ég, fátækur nemandi í Kennaraskólanum, leitaði hjálpar hans og ráða. Þá fékk ég að reyna, hvern mann hann átti að geyma. Ég hef átt þá ósk síðan að mega sjálfur einhvern tíma á ævinni reynast slíkur sem hann þá.                                                                                                                                                                                                                                                                          Skúli Þorsteinsson.

 

Kynni okkar Sigurðar Thorlaciusar urðu nánust af samstarfi því, sem við áttum í bókmenntafélaginu Máli og menningu … Þetta var á kreppuárunum. … en um skeið var sótt að þessu fátæka styrklausa félagi úr ýmsum áttum, og því haldið fram, að hér væri í uppsiglingu fyrirtæki skaðræðismanna og landráðalýðs. Í þessum deilum, sem stóðu um tilveru félagsins, var enginn ötulli en Sigurður Thorlacius, óþreytandi að halda uppi málstað þess í ýmsum áttum. Inn á við var hann hvötuður þess, að öll vörn væri sem mjúklegust af okkar hálfu, og vildi, að við vöruðumst að láta ástríður hinna hafa áhrif á okkur. Ég minnist þess, að hann setti einu sinni í próförk kross við eitthvert skuggyrði sem hrotið hafði úr penna mínum í garð flokks nokkurs, sem hafði sett sér það markmið að ráða niðurlögum Máls og menningar og hafa af okkur það litla mannorð, sem eftir var. Þegar ég fékk próförkina, sá ég, að þarna hafði Sigurður Thorlacius verið á ferð, og flýtti mér að skipta um orð og þótti vesælt að hafa ekki haft þá trú á málstað Máls og menningar, að vita ekki ekki að þessi hryðja mundi ganga hjá án þess að til kæmu mín bituryrði. Mikið var ég honum þakklátur seinna fyrir að hann skyldi hafa sett þennan litla kross út á spássíuna áður en greinin var prentuð.

Halldór Kiljan Laxness.

 

Vér, sem þekktum hann, áttum honum öll eitthvað að þakka og fólki hans frá einhverju tímabili ævinnar. Ég veit, að Sigurður mundi ekki kunna mér neina þökk fyrir það, að ég færi að skjalla hann á þessum stað eða bera fram það, sem hann sjálfur mundi kalla oflof. … Margar glaðværustu stundir æskuáranna áttum við í hinum sama hóp. Og mörg voru þau hin alvarlegustu málefni, sem við ræddum saman, … Það, sem ég hygg að hafi verið sterkasti þátturinn í lífsskoðun hans, er samúðin með smælingjunum, tilfinningin fyrir annarra manna byrðum. Hann var alinn upp á læknissetri, þar sem margur leitaði athvarfs og þar sem sveitungarnir voru vanir að mæta velvild og hjálpfýsi á hverja lund. En mannúðartilfinningin var hjá honum tengd trúnni á hið góða í tilverunni og trúnni á möguleika mannlífsins til að hefjast á hærra stig.

Úr útfararræðu sr. Jakobs Jónssonar.

 

Hann vann mörg ónæðissöm störf fyrir stétt sína. 1934 var hann kosinn í stjórn Sambands íslenskra barnakennara og sat þar æ síðan. Formaður sambandsins var hann 1937-1942, eða þangað til hann tókst á hendur formannsstörf í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. … lét sér annt um menntun kennarastéttarinnar. Hann var alltaf fremstur þeirra, er vildu auka þekkingu hennar, hefja hana til vegs og virðingar og skapa henni launakjör í samræmi við þýðingu starfsins. Þess vegna vann hann svo ötullega í launabaráttunni. Og hann lifði það að sjá þann árangur verka sinna. Það er fyrir atbeina hans meira en nokkurs manns annars, að vér barnakennarar njótum nú í fyrsta sinni sæmilegra launa.

Ingimar Jóhannesson (Tíminn 4. sept. 1945 bls. 6)

                                                                                     

                                                               KLIÐHENDA

                                        Hljóður varð ég, sem heyrði blæinn segja                                                                           

                                        hvarf þitt úr leiknum mitt í sumarskini:

                                        fer nú að verða fátt um kæra vini,

                                        forsæla í dal og nokkur raun að þreyja.

 

                                        Svo var það líka okkar fagra eyja

                                        öll hennar grös og lömb og börn að vori

                                        hver mun nú fremstur leita að litlu spori,

                                        lyfta undir þrá er hærra vill sig teygja,

 

                                        Vaka yfir þeim sem hnuggnum kolli hneigja,

                                        hugljúfur bera, þegar styttir daginn,

                                        ilminn úr sjálfu Búlandsnesi í bæinn,

                                        brákaðan reyr mót nýju ljósi sveigja?

 

                                        Höfugar daggir brúði þína beygja,

                                        bregður nú húmi á glókollana þína.

                                        Eitt er þó víst: að æskan þekkir sína.

                                        Áfram mun hún þitt stríð til sigurs heyja.

 

                                        Gullhamrar yfir góðum manni þegja

                                        grætur í hjarta lítil rós úr blóði.

                                        Líf þitt var stef úr Íslands unga ljóði,

                                        ástríkur tónn sem skírðist við að deyja.

 

Jóhannes úr Kötlum: Minningarljóð um Sigurð Thorlacius, tímarit Máls og Menningar 1. desember 1945 (bls. 185).