ÁGRIP AF SÖGU AUSTURBÆJARSKÓLANS, 2. HLUTI:   1945-1965

 

 Skólinn er með flötu þaki allt til ársins 1947.

                

Hér birtist annar hluti úttektar þar sem stiklað er á stóru yfir sögu Austurbæjarskólans. Efnið er tekið saman til skemmtunar og fróðleiks, er stöðugt í vinnslu og er engan veginn tæmandi. Þeim, sem hafa eitthvað við þetta að bæta, er velkomið að hafa sambandi við stjórn Hollvinafélagsins. Virðið höfundarrétt. Copyright © 2019 Pétur Hafþór Jónsson.

 

1945-1946. 

GÍSLI JÓNASSON SKÓLASTJÓRI

 

 

Vegna andláts Sigurðar Thorlacius 11. ágúst gegnir Gísli Jónasson starfi skólastjóra þennan vetur eftir að hafa verið yfirkennari frá 1935-1945. Hann verður síðar skólastjóri Langholtsskóla, þ.e. frá 1952.

Valgerður Briem teiknikennari og Jóhann Tryggvason söngkennari dvelja erlendis við nám en með fullum launum. Valgerður kemur síðar við sögu en Jóhann snýr ekki aftur til starfa í Austurbæjarskólanum. Hann hefur mikinn áhuga á að mennta sig frekar í tónlist, einkum hljómsveitarstjórn og leggur stund á nám í Royal Academy of Music næstu fjögur árin. En fyrirhuguð námsdvöl er einnig hugsuð fyrir dóttur hans, Þórunni Soffíu Jóhannsdóttur, síðar Ashkenazy (f. 1939) sem er undrabarn. Það geta ýmsir nemendur skólans borið vitni um enda hefur hún leikið fyrir þá á píanóið í Bíósalnum.

 

SKÓLANEFND AUSTURBÆJARSKÓLANS MÆTIR Á FUND KENNARA -                                  

STAÐAN RÆDD OG LAGT Á RÁÐIN UM ÚRBÆTUR

Föstudaginn 22. mars 1946 k. 17:15 er fundur settur í Kennarafélagi Austurbæjarskólans.  Skólanefndinni er boðið til fundarins vegna áskoranna frá nokkrum kennurum. Hannes M. Þórðarson tekur fyrstur til máls og gerir leikfimisalinn að umræðuefni. Hann segir ekki tíma til að ræða alla kosti salarins, þess vegna muni hann ræða gallana enda sé það í samræmi við tilgang fundarins. Segir hann mjög bagalegt hve salurinn sé kaldur og verði af þeim sökum að láta börnin ólmast í stað þess að vinna. Þá getur hann þess, að tilfinnanlega vanti geymslu fyrir leikfimiáhöldin. Hann segir ganginn fyrir framan salinn óhreinan og leikvöllinn úti illa hirtan. Samþykkt er tillaga hans um úrbætur. Þær eiga m.a. að fela í sér að gerð verði bragarbót á loftræstingu í salnum, að fatahólf verði sett upp í búningsklefum leikfimisalar og sundlaugar og að hreinlæti verði aukið í skólanum og á leikvellinum.      

Gísli Jónasson, skólastjóri, ræðir næst um viðbyggingu ofan á Austurbæjarskólann en víkur fyrst að umhverfi skólans. Verið sé að reisa Gagnfræðaskóla í nágrenninu og séu byggingarefni þar nemendum til trafala. Þá nefnir hann fyrirhugaðan iðnskóla sem rísa eigi á Skólavörðuholtinu. Hann muni þrengja mjög að barnaskólanum og því sé brýn nauðsyn á að lagfæra fremri (neðri) leikvang skólans. Fundarmenn taka undir orð hans og vilja að girt verði á sunnanverðum lóðarmörkum Austurbæjarskólans vegna nýbyggingar Gagnfræðaskólans.

Þá víkur skólastjóri máli sínu að fyrirhugaðri þakhæð ofan á skólann. Þar eigi að koma fyrir stofum fyrir Bæjarbókasafn í suðurálmu, húsmæðraskóla í norðurálmu og námsflokkum Reykjavíkur í miðálmu auk barnalesstofu. Fundarmenn eru hins vegar á einu máli um að slíka viðbótarhæð eigi aðeins að nýta í þágu skólans. Nú sé tví-, þrí- eða fjórsett í kennslustofur skólans. Auk þess hafi sumar sérstofur verið teknar til almennrar kennslu. Skólanum bráðliggi á fleiri kennslustofum, nýjum sérstofum, t.d. söngsal, smíðastofu, landafræðistofu, náttúrufræðistofu, samkomusal, ásamt smáherbergjum honum viðkomandi og stórri stofu fyrir skólabókasafn, einnig leikfimisal ásamt klefum. Þórarinn Einarsson, smíðakennari ræðir um brýna þörf á annarri smíðastofu og að sett verði trégólf í smíðastofu þá er fyrir er. Þá vill hann koma upp annarri handavinnustofu til viðbótar fyrir drengi, t.d. vegna málmsmíða.

Sigurður Magnússon telur bergmálið í skólanum há allri starfsemi hans og sæti það furðu, að ekki skuli hafa verið gerð tilraun amk. í einni stofu til að útrýma því. Telur hann skólann ekki fullbyggt hús fyrr en bergmálinu hefur verið útrýmt. Slíkt sé ekki dýrt. Ef settar yrðu texplötur í kverkar stofanna, telja sérfróðir menn líkur á að bergmálið hverfi með öllu. Slíkt hafi reynst vel í Laugarnesskólanum.

Stefanía Ólafsdóttir skorar á skólanefndina að hlutast til um að Bergþórugatan verði malbikuð. Formaður skólanefndar svarar áskorunni og telur ólíklegt að bæjarstjórn fari eftir tillögum nefndarinnar í þeim efnum. En þakkar fyrir hönd nefndarinnar að henni hafi verið boðið á þennan fund. Hann bindur jafnframt vonir við að nefndin geti komið einhverjum af óskum kennaranna á framfæri við yfirvöld bæjarins. Jónas Jósteinsson, yfirkennari þakkar þann velvilja, sem nefndin hafi sýnt með því að sitja fundinn. Lætur að lokum þá ósk í ljós, að fleiri slíkir fundnir verði haldnir.

Heimild: Fundargerðabók kennara.

 

 

Allir kennarar skólans fengu stundaskrá úr Haraldarbúð skólaárið 1945-1946.

 

SKÓLASTJÓRATÍÐ ARNFINNS JÓNSSONAR.

 

 

ARNFINNUR JÓNSSON SKIPAÐUR SKÓLASTJÓRI

Arnfinnur Jónsson er skipaður skólastjóri frá 1. ágúst. Gísli Jónasson gerist fulltrúi í Félagsmálaráðuneytinu. Hann verður síðar skólastjóri Langholtsskóla. Hallgrímur Jakobsson söngkennari og Sigþór Lárusson smíðakennari hefja störf við skólann. Ennfremur Sveinbjörn Markússon tekur við stöðu skáldkonunnar Margrétar Jónsdóttur sem lætur af störfum. Ekki tekst að fá tannlækni til starfa í stað þess sem hætti 1. október. En tannlæknir Laugarnesskóla, oft nefnd „Thyra tönn“, gerir við tennur nokkurra barna. Ári síðar annast Engilbert Guðmundsson tannlækningar í skólanum.

 

1946 -1947  NOKKRAR TÖLUR UM FJÖLDA NEMENDA, KENNARA OG ÍBÚA FÁEINNA GATNA Í HVERFINU

31 KARL OG 18 KONUR kenna nú við skólann. Nemendur eru 1.531. Í Miðbæjarskólanum eru nemendur 1.103.

ÍBÚAFJÖLDI nokkurra gatna: 

Bergstaðastræti 1.081 – Freyjugata 472 - Grettisgata 1.169 – Grundarstígur 243 - Njálsgata 1.350 – Skólavörðustígur 517.

Til samanburðar má geta þess að íbúafjöldinn árið 2018 er svohljóðandi:

Bergstaðastræti 398 - Freyjugata 196 - Grettisgata 594 - Grundarstígur 148 - Njálsgata 681 - Skólavörðustígur 232. 

 

 

 NÝ FRÆÐSLULÖG

Ný fræðslulög. Skólakerfinu skipt í  barnafræðslustig, gagnfræðastig, menntaskóla- og sérskólastig og háskólastig. Á barnafræðslustigi voru barnaskólar fyrir 7 til 13 ára börn og þeim lauk með svokölluðu barnaprófi. Samkvæmt lögunum skyldi barnaskólunum skipt upp í tvær deildir, yngri deild fyrir börn allt að 10 ára aldri, og eldri deild … Þeim yngri skyldi ætluð að jafnaði 21 kennslustund á viku. En í eldri deild 33 stundir (40 mínútna langar). Samkvæmt lögunum áttu barnaskólar að leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda sinna, hjálpa þeim að öðlast heilbrigð lífsviðhorf og hollar lífsvenjur, vera á verði um líkamshreysti þeirra og veita þeim tilsögn í lögskipuðum námsgreinum, hverjum eftir sínum þroska.

Almenningsfræðsla á Íslandi 1880-2007, ritstjóri: Loftur Guðmundsson.

 

BERGMÁL TIL ÓÞÆGINDA

Fundur kennara Austurbæjarskólans, haldinn 22. mars samþykkir, að skora á skólanefnd að hafa forgöngu um að eyða BERGMÁLI því, sem nú er til mikilla óþæginda í kennslustofum skólans. Svo hafði verið frá því skólinn tók til starfa árið 1930.

 Skólastofurnar eru að innan sléttpússaðar og glymjandi í þeim svo mikill, að vandræði eru að. Ég hef einu sinni kennt í einni þeirra í nokkrar vikur, hálfan annan tíma á dag, og það þótti mér meir þreytandi, vegna bergmálsins, en 6 stunda kennsla í hinum ágætu strigalögðu stofum hins 100 ára gamla Menntaskóla, og ég er auk þess viss um, að árangurinn af kennslu minni var líka snöggtum verri í þessum bergmálsstofum en annars. Bergmálið er svo slítandi fyrir kennarana, að sá einn veit sem reynir. Og þó að nemendur væru allir að vilja gerðir til þess að hlusta, sem vitanlega er sjaldnast, þá eiga þeir erfitt með að fylgjast með því, sem fram fer. Og hvað lítill ys, sem er í börnunum, margfaldast hann og verður að óþolandi hávaða. Og þegar svo nokkur hundruð börn koma fram í hinn geysilanga gang í frímínútum, þar sem allt skellur og glymur, geta menn ímyndað sér, hvernig hávaðinn er. Ef hurð er lokað harkalega, glymur í öllu húsinu. … Vegna þessa bergmáls og glymjanda í húsinu, væri engin furða, þó að kennararnir í Austurbæjarskólanum yrðu taugaveiklaðir og það kæmi svo aftur fram í kennslunni.

Einar Magnússon: Sitthvað um skólahald. Alþýðublaðið 27.11. 1946 bls. 3-7.

 

Langi gangurinn á neðri hæðinni árið 1930. Stærð gangsins var minnihluta bæjarstjórnar þyrnir í augum:  

Nýlega byggði bærinn stóran skóla í Austurbænum, dýran svo að fram úr lagi keyrir. En svo er mikil hagsýni við höfð, að þriðjungur af húsrúminu fer í ganga.                                                                                                                                                                                 

Tíminn 6. nóv. 1933 bls. 179.

 

HEKLUGOS

Heklugos hófst kl. 7 í morgun. Þá steig mikill mökkur hátt á loft að undangengnum snörpum jarðskjálftakipp. 

... í fyrstu var flogið í 7000 feta hæð og reyndu þeir Örn og Jóhannes* að giska á, hversu hátt strókurinn næði. Segir Örn, að ekki sé of lágt áætlað að hann nái 20.000 fet í loft upp.

Visir 29. mars 1947 bls. 1 og 8. *Hér mun átt við þá Örn Ó. Johnson og Jóhannes Snorrason. 

Þegar fregnir berast af gosi í Heklu hlaupa kennarar skólans í frímínútum upp á flatt þakið með Harald Björnsson, leikara og kennara í broddi fylkingar til að berja gosmökkinn augum. Ekki seinna vænna því ÞAKHÆÐIN rís um sumarið.

 

1947-1948  ÞAKHÆÐIN RÍS - VERKNÁMSSKÓLINN

Þakhæð skólans rís sumarið 1947.

Árið 1947 var sett þak með risi á Austurbæjarskólann. Var skólinn þá orðinn mjög skemmdur af völdum leka á flata þakinu. Í fyrstu var ekki ákveðið, hvort eða hvernig nota skyldi það rými er þarna skapaðist, en þegar umræður hófust um verknám, var gert ráð fyrir, að nokkur hluti þess geti farið þarna fram. Nú er verknámsskólinn tekinn til starfa, og fer fram í þakhæð Austurbæjarskólans, kennsla í handavinnu stúlkna, vefnaði, vélritun, sjóvinnubrögðum, auk bóklegra greina. Bætt verður við fleiri greinum næsta vetur.

Úr bréfi skólastjóra til borgarritara dags. 9. nóv. 1951.

 

Jarþrúður Einarsdóttir með bekk sínum á neðri lóðinni vorið 1947. Sperrurnar á þakinu sýna að þarna er verið að reisa þakhæðina (risið). Myndina tók Sigurður Magnússon, samkennari Jarþrúðar, einnig blaðamaður, rannsóknarlögreglumaður og síðar blaðafulltrúi Loftleiða og gaf henni í jólagjöf.

 

Austurbæjarskólanum hafa verið gefin tvö jólatré í kvikmyndasalinn. Gefandinn er Hrjóbjartur Lúthersson sjúklingur á Vejlefjord – Sanatorium í Danmörku. Ég vil því leyfa mér að fara fram á, að háttvirt Viðskiptanefnd sjái sér fært að veita innflutningsleyfi fyrir þessum trjám. Verðmæti þessara trjáa er ca. 25,00 kr. … Hér með leyfi ég mér að sækja um gjaldeyris og innflutningsleyfi fyrir jólatrjám í barnaskóla Reykjavíkur. Leyfisupphæðin þarf að vera kr. 150,00 – eitt hundrað og fimmtíu krónur, greiðslumánuður desember. Jólatrén eru frá Danmörku.

Tvö bréf Jónasar B. Jónssonar til Viðskiptanefndar.

 

LAUGAVEITAN GEFUR SIG

Austurbæjarskólinn er fyrsta húsið sem kynt var með heitu vatni (hitaveitu) úr Laugardalnum árið 1930. Þegar hér er komið sögu dugir það engan veginn til.

Síðastliðið sumar var hin svokallaða Laugaveita tekin af Austurbæjarskólanum vegna þess, hve léleg hún var orðin. Í frostunum um daginn kom í ljós, að þegar skólinn kólnaði yfir nóttina, megnaði hitaveitan ekki að hita upp húsið, og varð því að loka skólanum s.l. viku, enda varð þá meðalhiti í húsinu 10 – 11 stig. … var Laugaveitan aftur sett í samband … Nú má segja að rétt sé að hafa varakyndingu … Raftækjaverksmiðjan í Hafnarfirði telur sig geta smíðað hitara fyrir rafmagn á ca 10 dögum … leyfi ég mér að leggja til, að sett verði rafmagnshitun í Austurbæjarskólann, og hiti hún skólann á nóttum þegar kuldar eru.

Bréf skólastjóra til borgarstjóra 26. nóv. 1947.

 

BARNAHJÁLP SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA OG BARNATÍMI Í ÚTVARPI

Sunnudaginn 29. febrúar er efnt til barnaskemmtana í Austurbæjarbíói, Gamla Bíói, Skátaheimilinu, Templarahúsinu, Iðnó, Nýja Bíói, Tjarnarbíói og Trípólíbíói. Nemendur og kennarar Austurbæjarskóla, Laugarnesskóla, Miðbæjarskóla og Melaskóla sjá um skemmtiatriði. Það gera einnig skátafélögin, barnastúkan Æskan og Leikfélag Reykjavíkur. Austurbæjarskólinn sér um skemmtun í Austurbæjarbíói kl. 13:30 og í Trípólíbíói kl. 15:00. Á dagskrá eru ávarp, söngur, danssýning, skrautsýning, hljóðfæraleikur og leikþættir. Aðgöngumiðar eru seldir í Listamannaskálanum. Jafnframt er tekið á móti framlögum til Barnahjálparinnar.   

                                                                                                                  

BARNATÍMI 9. MAÍ 1948.  KYNNIR: HERMANN HJARTARSON

 1. Bryndís Jónasdóttir, Hjördís Jónasdóttir, Sigríður Jónsdóttir og Sigrún Erla Skúladóttir, allar 13 ára, syngja nokkur lög og leika undir á gítara.
 2. Hrafnkell Thorlacius úr 11 ára G les frumsamda grein, sem birtist í blaði, sem bekkur hans gefur út.
 3. Ketill Ingólfsson úr 11 ára G leikur þessi lög á píanó: Moment Musical eftir Schubert og 3. kafla úr sónötu eftir Haydn.
 4. Guðrún Erlendsdóttir úr 11 ára G les smásöguna Stjáni heimski.
 5. Árni Njálsson úr 11 ára H syngur þessi lög: Vögguvísa, lagið eftir Hallgrím Jakobsson, kvæðið eftir Ragnar Jóhannesson. Bernskuminning, amerískt lag.
 6. Þórunn Ólafsdóttir úr 10 ára bekk D les kvæðið Litli fossinn eftir Pál Ólafsson.
 7. Steinunn Egilsdóttir úr 8 ára bekk A leikur syrpu eftir Schubert á píanó. (Það eru aðeins 6 mánuðir síðan Steinunn litla byrjaði að læra á píanó).
 8. Þátturinn á grasafjallinu úr Skugga-Sveini eftir Matthías Jochumsson, leikinn af börnum í 13 ára A.

             Leikendur eru:

            Sigurður bóndi ……..   Bryndís Jónasdóttir.

            Dóttir Sigurðar ……..   Helga Bjarnadóttir.

            Jón Sterki ……………..   Þorsteinn Júlíusson.

            Grasa Gudda ……….     Ólöf Klemensdóttir.

            Gvendur smali ……..    Sævar Halldórsson.

 1. Barnakór, börn úr 11 ára G syngja þessi lög:
 2. Nú syng ég um svása foldu.
 3. Það hlýnar í brúnum.
 4. Það búa litlir dvergar.
 5. Nú er sumar.
 6. Göngum, göngum.

(Stjórnandi: Hallgrímur Jakobsson í forföllum Páls Halldórssonar).

 

 1948-1949   GÓÐAR MINNINGAR

 Þorbjörg Benediktsdóttir og einn af bekkjum hennar. Ártal óþekkt.

 Þann 7. maí 1949 útskrifast nemendur Þorbjargar Benediktsdóttur í 12 ára bekk H úr Austurbæjarskóla. Nákvæmlega 60 árum síðar, þann 7. maí 2009 koma þessir nemendur saman í gamla skólanum sínum og er þar glatt á hjalla. Á þeim merku tímamótum færa þeir skólanum gjöf. Það er andlitsmynd af Þorbjörgu, sem ein úr hópnum, Kristín Þorkelsdóttir hefur gert. Á kartonið utan um myndina hefur hún teiknað öll börnin í bekknum. Á skólaárum þessa bekks er venja að kennari kenni sama bekknum frá byrjun til enda, svo ekki fer hjá því, að kennari og börn þekktist vel að barnaskólanámi loknu.

 

Guðmundur Sighvatsson skólastjóri veitir myndinni viðtöku á kennarastofunni.

Margir nemendur Þorbjargar héldu tryggð við hana á fullorðinsárum og minnast hennar með mikilli hlýju. Hún var vel látinn kennari og í miklum metum fyrir vandvirkni og lag við kennslu barna sem þóttu vandmeðfarin. Þorbjörg var sköruleg í fasi, ákveðin og þótti ætíð falleg klædd. Muna sumir sérstaklega eftir löngum hvítum trefli, sem hún hafði um hálsinn, þegar bekkurinn fór mikla frægðarför austur í Vík í Mýrdal. Oft voru sett upp leikrit í Bíósalnum og á sumardaginn fyrsta var sýnt í Austurbæjarbíói. Leikstýrði Þorbjörg bekknum af mikilli röggsemi og virtist hafa ánægju af. Í tilefni 60 ára útskriftarafmælis bekkjarins flutti einn drengjanna, Ingvar Guðnason, frumort ljóð:

 

                                                            Ég heilsa þér æska minna horfinna ára

                                                            með einlægri ósk um hamingju ríka.

                                                            Minning ein lifir

                                                            þótt margt annað hverfi

                                                             er gengum við saman

                                                             götu í átt til framtíðarvona.

                                                             Ljúfsár er tregi

                                                             þeim sem lifa ekki lengur.

                                                             En gott er að muna

                                                             þegar grána hár

                                                             góða drengi

                                                             og

                                                             glæstar meyjar. 

 

                                                                         Ingvar Guðnason

 

 

JÓNAS JÓSTEINSSON 

Jónas Jósteinsson, yfirkennari 1945 - 1960.

 

FÉLAGSLÍF KENNARA

Á fundi þann 9. nóvember í kennarastofu skólans flytur Hallgrímur Jakobsson, formaður Kennarafélags Austurbæjarskóla stutta ræðu um störf félagsins á síðasta ári. Engir umræðufundir hefðu verið haldnir en nokkrir skemmtifundir, þar sem spilað var, sungið og dansað. Hefðu þeir fundir þótt ánægjulegir.

 

1949-1950   JÓLASKEMMTANIR

 

Jólaskemmtun 1949. Kennarinn lengst til hægri er Rigmor Hanson, danskennari.

 

Myndir sem Sigurhans E. Vignir tók á jólaskemmtunum þessa skólaárs eru varðveittar á Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Dæmi um dagskrá jólaskemmtunar tólf ára bekkja þann 18. desember kl. 16:00.

 1. Telpnakór syngur. 12 ára B, bekkur Ársæls Sigurðssonar.
 2. Fullnaðarprófið, leikþáttur (12-B).
 3. Fjórhent á píanó. 12-A, bekkur Sigurðar Magnússonar.
 4. Nátttröllið, leikþáttur. 12-D, bekkur Jóns Þórðarsonar.
 5. Söngur með gítarundirleik (12-B).
 6. Slökkviliðsmenn á næturvakt, leikþáttur. 12-F. Nafn umsjónarkennara vantar.
 7. Einleikur á píanó (Sigrún 12-F).
 8. Myndastyttan, leikþáttur (12-F).
 9. Einleikur á píanó (Hrefna 12-F).
 10. Afmælisgjöfin, leikþáttur (12-C).
 11. Einsöngur. Dóra Reyndal 12-E, bekkur Siguringa E. Hjörleifssonar.
 12. Söngur með gítarundirleik (12-E).
 13. Blokkflauta (Höskuldur 12-E).
 14. Kóngurinn með tannpínuna (12-E).
 15. Einleikur á píanó (Dóra 12-E).
 16. Leikþættir (Nemendur Æ.K.).
 17. Kvikmyndasýning.
 18. Dans í leikfimisalnum.

Skemmtinefnd: Ársæll Sigurðsson, Páll Halldórsson, Sigurður Magnússon, Siguringi E. Hjörleifsson.

 

 

 

 

 

LANDSPILDA Í HEIÐMÖRK

Fundur kennara samþykkir 31. mars 1950 að sækja um landspildu til ræktunar í HEIÐMÖRK í samráði við Skógræktarfélag Reykjavíkur.

 

1950-1951   MEIRA UM ÞAKHÆÐINA - VERKNÁM

Árið 1947 var sett þak með risi á Austurbæjarskólann. Var skólinn þá orðinn mjög skemmdur af völdum leka á flata þakinu. Í fyrstu var ekki ákveðið, hvort eða hvernig nota skyldi það rými er þarna skapaðist, en þegar umræður hófust um verknám, var gert ráð fyrir, að nokkur hluti þess geti farið þarna fram. Nú er verknámsskólinn tekinn til starfa, og fer fram í þakhæð Austurbæjarskólans, kennsla í handavinnu stúlkna, vefnaði, vélritun, sjóvinnubrögðum, auk bóklegra greina. Bætt verður við fleiri greinum næsta vetur.

Úr bréfi skólastjóra til borgarritara dags. 9. nóv. 1951.

 

Þegar Austurbæjarskólinn var byggður var sett á hann flatt þak úr steinsteypu með tjöru eða asfaltlagi yfir til þess að verja leka. Fljótlega fór að bera á leka í húsinu sem ágerðist þrátt fyrir ítrekaðar viðgerðir. Var svo komið 1946, að skólinn var stórskemmdur af völdum leka … Var þá hafist handa um að setja þak á húsið … kom í ljós, að allmikið rými skapaðist … Í október sl. hófst kennsla í verknámsdeildum gagnfræðastigs … um 800 – 1000 fermetra húsrými til skólahalds hefur skapast. … farið fram á að kostnaður við þakhæð … verði talinn sem stofnkostnaður og endurgreiddur úr ríkissjóði að hálfu.

Úr bréfi skólastjóra til borgarritara 7. des. 1951.

 

 

AFDREP LISTAMANNA Í ÞAKHÆÐINNI

Ýmsir listamenn og aðrir fengu inni í þakhæð Austurbæjarskólans fyrstu árin. En 10. júlí 1950 sendir fræðslufulltrúinn í Reykjavík skólastjóra eftirfarandi erindi bréfleiðis:

Vegna þess að bráðlega verður hafizt handa um vinnuframkvæmdir í þakhæð Austurbæjarskólans, er þess óskað, að þér, hr. skólastjóri, tilkynnið öllum þeim, sem fengið hafa húsnæði í þakhæð skólans, að rýma það hið bráðasta.

11. júlí 1950 sendir skólastjóri sendir Veturliða Guðnasyni, Kristjáni Davíðssyni, Jóni E. Guðmundssyni og Einari Baldvinssyni bréf þar sem hann kemur þessum skilaboðum áleiðis. Áður, þ.e. 30. maí hafði skólastjóri látið listamennina vita af þessari fyrirætlan.

Með því að í ráði er  að taka þakhæð skólahússins til afnota fyrir skólann, skal yður hér með tjáð, að þér megið vera við því búinn að verða - með litlum eða engum fyrirvara - að rýma húsnæði það, er þér nú hafið í þakhæðinni.

 

Bréf til Jónasar B. Jónssonar, fræðslufulltrúa í Reykjavík dagsett 14. ág. 1950:

Hér með tilkynnist yður, að fjárhagsráð hefur synjað beiðni yðar dags. 3. ágúst s.l. um innkaupsleyfi fyrir 230 rúmfetum vegna innréttingar á þakhæð Austurbæjarskólans.

 

 1951-1952  JÓLASKEMMTANIR

 

                                                      Jólin 1954. Ljósmynd: Sigurhans E. Vignir.

Síðustu dagana fyrir jólaleyfi eru haldnar skemmtanir fyrir börnin. Skemmtiatriðin annast þau sjálf að langmestu leyti. Undirbúningurinn kostar oft mikla fyrirhöfn, en hún er ekki eftir talin, heldur innt af hendi með brennandi áhuga og starfsgleði. Margir kennaranna eru líka framúrskarandi ósérplægnir við að aðstoða börnin í undirbúningsstarfinu. Þessi starfsemi hefur góð og þroskandi áhrif á börnin, en á henni er sá megin galli, að mjög erfitt er að gera öll börnin að virkum þátttakendum í henni, þó að hugkvæmum kennurum takist stundum að finna eitthvað að gera handa hverju barni í bekknum í sambandi við skemmtanirnar.                                                                                                                                                                

Að þessu sinni voru teknar allmargar myndir frá jólaskemmtunum, og eru þær geymdar í skólanum. – Að áliðnum vetri voru einnig teknar myndir af öllum (55) deildum skólans. Voru þær í 2 stærðum og kostuðu 3 og 5 krónur. Börnin keyptu mikið af myndunum, en skólinn eignaðist eitt eintak af stærri gerðinni.

Arnfinnur Jónsson: Skýrsla um barnafræðslu skólaárið 1951-1952.

 

Emil Tómasson gangavörður leikur jólasvein á skemmtun í Bíósalnum 1949.

 

Jakob Hallgrímsson, síðar liðsmaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands leikur á jólaskemmtun í Bíósalnum árið 1951. Faðir hans, Hallgrímur Jakobsson er söngkennari skólans. Ljósmynd: Sigurhans Vignir.

 

Frá jólaskemmtun 1951. Þekkir einhver drengina á myndinni?

Sigurhans Vignir myndaði jólaskemmtanir vetrarins en talið er að negatívurnar hafi brunnið.

 

NEMENDAFJÖLDI: 1.581

Nemendafjöldi þetta skólaár: 1.581.

 Þekkir einhver börnin á myndinni?

 

JARÞRÚÐUR EINARSDÓTTIR

 

Átta ára bekkur Jarþrúðar Einarsdóttur. Carl Möller, síðar þekktur tónlistarmaður er þriðji frá hægri í efstu röð.

  Í apríl 1951 er kennarinn, Jarþrúður Einarsdóttir lögð inn á sjúkrahús. Börnin í bekknum skrifa henni bréf, sem eru varðveitt í Skólamunastofu Austurbæjarskóla. Hér fyrir neðan er bréf Carls Möller.

 

 

1952-1953   SPENNISTÖÐIN

Framkvæmdir Rafmagnsveitu Reykjavíkur á skólalóðinni ræddar á fjölmennum fundi í Kennarafélagi Austurbæjarskólans. Einnig sitja fundinn fulltrúar Rafmagnsveitunnar og fræðslufulltrúi Reykjavíkur. Sigurður Magnússon gerir grein fyrir afstöðu kennara til þessara framkvæmda. Segir hann, að það sé kennurum nokkur ráðgáta, hvers vegna ekki sé hægt að framkvæma verk sem þetta á þeim tímum árs er skólinn sé ekki starfandi. Ekki þýði að fást við orðinn hlut en það sé skilyrðislaus krafa kennara og annarra starfsmanna skólans, að gengið sé þannig frá skurðum og öðrum framkvæmdum að börnunum stafi ekki af því meiri hætta. Bendir hann á, að lýsa þurfi vel upp athafnasvæðið og gera brýr á skurði sem séu víðs vegar á lóð skólans. Steinunn Bjartmarsdóttir spyr Jakob Guðjohnsen verkfræðing hvers vegna spennistöð hafi upphaflega verið byggð við Austurbæjarskólann. Svar verkfræðingsins er á þá leið, að það hafi verið gert af fjárhagsástæðum. Gísli Hannesson, verkstjóri segist vona, að framkvæmdum ljúki fyrir næstu jól.                     

Þremur árum síðar ritar skólastjóri Jónasi B. Jónssyni fræðslufulltrúa bréf þar sem segir:

Eins og yður er kunnugt, herra fræðslufulltrúi, byggði rafmagnsveita Reykjavíkur fyrir nokkrum árum mikla straumbreytistöð á lóð Austurbæjarskólans. Varð að sprengja mikla gryfju fyrir hús stöðvarinnar, en við það myndaðist klettabelti næst Egilsgötunni. Er það nokkurra mannhæða hátt næst stöðinni og stórhættulegt börnum, einkum að vetrinum, þegar snjór eða svellbólstrar eru í klettunum.

Síðar kvartar skólastjóri yfir því, að hann hafi margsinnis bent á hættuna sem af þessu stafar, en án árangurs. Biður svo Jónas B. Jónsson að beita áhrifum sínum til að ráðin verði bót á þessu ástandi.

 

Brött ófrágengin hlíð liggur frá planinu neðan Austurbæjarskóla upp að lóð Gaggó Aust. Í slakkanum milli skólanna hefur verið sprengt fyrir rafstöð í hina óbilgjörnu ísaldarklöpp. Þarna sunnan við standa björgin ber. Svæðið er ófrágengið eins og heimurinn austan Rauðarárstígs. Þessi ófrágengni slakki er eins og gígbarmur … Í frímínútum geisa stundum snjóbardagar milli hinnar fullvöxnu gaggóþjóðar og barnanna.

Þórunn Valdimarsdóttir – Megas: Sól í Norðurmýri. Píslarsaga úr Austurbæ bls. 148-149.

 

HANDAVINNA

Myndin er líklega frá nóvember 1953. Handavinna stúlkna var kennd í stofu sem síðar varð smíðastofa Sigþórs Lárussonar. Eftir það vélfræði- og málmsmíðastofa Einars Guðmundssonar en er nú náttúrufræðistofa. Fótstignar saumavélar handa heilum bekk voru til í skólanum frá upphafi. Á myndinni sjást einnig upprunaleg skólahúsgögn, sem keypt voru í Þýskalandi árið 1930. Ljósmynd: Sigurhans Vignir. Myndin er líklega gerð eftir týndri negatífu.

 

1953-1954  RAGNAR JÓNSSON BAÐVÖRÐUR OG BÍLL Á TÍMUM GJALDEYRISHAFTA

Hr. Ragnar Jónsson er starfsmaður við Austurbæjarskólann … hann hefur haft gamla bifreið, sem nú er að öllu leyti úr sér gengin. Hefur Ragnar annast ýmsa flutninga fyrir skólann, sem ella hefðu orðið margfalt dýrari, en auk þess eru mikil þægindi að því, að starfsmaður skóla hafi bifreið til umráða, sem fljótlega má grípa til. Hefur Ragnar t.d. oftsinnis ekið smávarningi sem skipta hefur þurft milli skóla … Leyfi ég mér því að mæla eindregið með því að Ragnar S. Jónsson, Hofteigi 4 fái leyfi fyrir „Fiat 500“ sendiferðabifreið.

Jónas B. Jónsson yfirkennari í bréfi dagsettu 26. jan. 1954.

Þetta er skrifað á tímum gjaldeyrishafta. Ragnar Jónsson var baðvörður í Austurbæjarskóla í áratugi. Meðal annarra verkefna sem hann sinnti, var að aka eplum í alla barnaskóla Reykjavíkur. Þeim va útbýtt á jólanböllum skólanna enda fengust ávextir ekki nema fyrir jólin í þá daga. 

 

 

Bekkjarmynd frá þessum árum. Jóhanna Sigurðardóttir, síðar forsætisráðherra þriðja frá vinstri í fremstu röð.

 

14. ágúst 1954. Unglingar í Vinnuskóla Reykjavíkur að störfum. Stúlkur leggja grasþökur á skólalóðina. 

 

1954-1955  

Gunnar Thoroddsen, borgarstjóri lætur kanna kostnað við það að mála skólann að utan. Kostnaður við lagfæringar á múrverki, járnriðum, uppsetningu vinnupalla, málningu og fleira vex mönnum í augum. Fjöldi nemenda fer upp í 1.747. 10. nóvember tekur til starfa ÚTIBÚ frá skólanum í nýbyggðum leikskóla við ESKIHLÍÐ. Eru þar öll 7 og 8 ára börn úr HLÍÐAHVERFINU og nokkur úr Fossvogi, alls 200.  

 

25 ÁRA AFMÆLI SKÓLANS

                                                                                                                                             

 

  

 

25 ÁRA AFMÆLIS SKÓLANS minnst um vorið með mikilli SÝNINGU OG HÁTÍÐARDAGSKRÁ. Þar eru meðal annars flutt aldursflokkakveðja skólans eftir Stefán Jónsson og AFMÆLISKANTATA eftir Hallgrím Jakobsson. Arnfinnur Jónsson skólastjóri getur þess að 5.690 börn hefðu verið brottskráð úr skólanum og a.m.k. 10 þús. börn lært að synda í laug skólans. Sýning á vinnu barnanna er haldin í skólanum föstudaginn 27. maí kl. 16-22 og laugardaginn 28. maí kl. 13-18. Enn fremur er sundsýning í Sundhöllinni á föstudagskvöldinu.

  

 

Í lok skólaársins var þess minnst að Austurbæjarskólinn hafði þá starfað í 25 ár. 26. maí var haldin skemmtun í Austurbæjarbíói fyrir foreldra barnanna. Skólastjóri ávarpaði gestina en börn úr skólanum önnuðust öll skemmtiatriði. Húsfyllir var og virtust gestirnir skemmta sér ágætlega. – 27. maí var opnuð sýning á vinnu barnanna og fór sú athöfn fram í kvikmyndasal skólans. Þar flutti skólastjóri ræðu og gat þess m.a. að alls hefðu um 5690 börn verið brottskráð úr skólanum og að áætla mætti, að a.m.k. 10 þús. manns hefði lært að synda í laug skólans, sem þó væri litlu stærri en stór stofa í íbúðarhúsi. Auk skólastjóra tölu þeir Bjarni Benediktsson, menntamálaráðherra og Helgi H. Eiríksson, form. fræðsluráðs. Að ræðuhöldum loknum fluttu nokkur börn úr hverjum aldursflokki kvæði (aldursflokkakveðju til skólans) eftir Stefán Jónsson og á eftir sungu kórar undir stjórn Hallgríms Jakobssonar og Páls Halldórssonar nokkur lög. Ennfremur léku fimm stúlkur (10 og 11 ára) nokkur lög á ýmis hljóðfæri. Síðan var sýningin skoðuð og að lokum var boðsgestum og starfsfólki skólans veitt kaffi í boði fræðsluráðs.

Arnfinnur Jónsson: Skýrsla um barnafræðslu skólaárið 1954-1955.

 

Arnfinnur Jónsson skólastjóri talar á 25 ára afmæli skólans.

 

 

 SÆNSKU HLJÓÐFÆRIN

 

 

 Sænsk ásláttarhljóðfæri, litprentuð nótnaspjöld og hljómplötur, svonefnd Nacka-sería, kemur í skólann árið 1955.

 

 

 Nótnaspjald úr Nacka-seríunni.

 

1955-1956  

FJÖRLEG SKEMMTIKVÖLD Á KENNARASTOFUNNI

Ýmsar sögusagnir hafa gengið um fjörleg skemmtikvöld á kennarastofunni. Þar hafi jafnvel verið dansað. Eftirfarandi frásögn úr fundargerð Vilborgar Dagbjartsdóttur frá 22. nóvember 1955 staðfestir það:

Formaður sagði frá starfsemi félagsins á síðasta ári. Haldnir voru nokkrir skemmtifundir … Þórður Magnússon kom með tillögu um að nýja stjórnin athugaði möguleika á að útvega útvarpsviðtæki í kennarastofuna. … Hófust nú háværar umræður um hvort ætti að fá viðtækið, og voru menn ýmist með eða á móti. Hermann benti á að hægt væri að fá úr því danslög og dansa á spilakvöldum eftir músíkinni. Páll Halldórsson taldi það mikinn kost. Katrín og Þórður M. sögðu að bót væri í að fá fréttir í hádeginu fyrir þá kennara sem ekki færu heim. En aðrir sögðu að viðtækið yrði aðeins til hávaða. Málinu vísað til næsta fundar.

Vilborg Dagbjartsdóttir.

Stundum leikur Róbert Arnfinnsson, sonur skólastjórans á harmónikku á skemmtikvöldum á kennarastofunni. Einu sinni færist svo mikið fjör í leikinn, að kennarar og starfsmenn marsera um alla ganga með Róbert í broddi fylkingar. (Munnleg heimild: Vilborg Dagbjartsdóttir.)

 

NOKKRAR BERNSKUMINNINGAR

Tilveran var eins og ryksuga. Á tilskyldum aldri skyldu allir sogast inn í einhvern skóla … Einhverjir karlar lögðu fyrir mann blað og maður átti að þekkja stafina. Og síðan að stauta sig fram úr setningum. Það gat ég ekki neitt og var settur í joðbekk … Bjarni Bjarnason var kennarinn okkar. Hann gekk um bekkinn og blés hljóðum og orðum. Í frímínútum gekk hann um skólaportið og blés í pípuna sína. Meira hvað þessi maður gat blásið allan daginn. Og það var pípulykt af honum þegar hann kom inn í stofuna eftir frímínúturnar og hélt áfram að blása hljóðum og orðum. Þessi aðferð var kölluð hljóðlestrar-aðferðin … frá honum kom aldrei styggðaryrði … Hann lét okkur krakkana standa upp og gera æfingar í miðjum tímum. Allir fuglar fljúga og allir fiskar synda og svo framvegis … ég þótti svo mikill aumingi, að ég átti að fara í ljós. Ljósin útheimtu svört gleraugu og maður var látinn liggja á bekk og snúa sér við öðru hverju. Einkennileg lykt var af þessum ljósum. Eftir … var maður hrakinn upp í baðker … hjúkrunarkona sprautaði á mann vatni …

Finnbogi Hermannsson: Í húsi afa míns bls. 175-176.

 

Bjarni Bjarnason kennari bjó á Bjarnarstíg.

 

LÝSISGJAFIR

Lýsishellandi hjúkrunarkonur geta birst þegar minnst varir. Klukkulausir krakkar vita ekki hvenær á þeim er von … Hann vaknar upp við vondan draum og sér lýsiskvendin storma yfir portið með könnurnar, þær fjölmenna, þetta er heill lýsishellandi her í hjúkkubúningi … Hún kemur og þú átt að rétta upp hökuna og gapa á meðan hún hellir í þig þessu ógeði… Lýsisbrunnurinn er svo vemmilegur að maður afber ekki að sjá lýsiskönnurnar sem þær dýfa daglega í brunninn, hvað þá að fá þetta ógeð ofan í sitt ofurnæma smáfuglsgin.

Þórunn Valdimarsdóttir – Megas: Sól í Norðurmýri bls. 149-150.

 

"Lýsiskonan" Jóna Þorkelsdóttir. Myndin er talin tekin um 1950.

Morgunblaðið hefur löngum ofsótt Austurbæjarskólann fyrir vafasamar kennsluaðferðir og hættulega kenningu. Þetta er nauðsynlegur tískudans í kaldastríðinu og þeir sem vitið hafa langt til vinstri og hægri vita að þetta er ekki illa meint, heldur meira eins og í leik. Velvakandi hefur fyrir víst að eintómir kommar séu í Austurbæjarskóla … Þetta er endurómur af umræðu sem lifnaði upp úr 1930 þegar allir spáðu, „þetta verður anarkí, þetta verður upplausn“ af því hinn nýi skóli var svo róttækur að slaka á aldargömlum hefðum um aga …

Þórunn Valdimarsdóttir – Megas: Sól í Norðurmýri bls. 144-145.

 

ÞAÐ VAR FRAMFARASPOR að flytja úr bragganum í Skólavörðukampinum inn í herbergiskompu uppi á háalofti í Austurbæjarskólanum sem þá var örugglega stærsta höllin í Reykjavík … Það voru engir gluggar á veggjum þessa herbergis en þarna var þakgluggi sem vísaði nokkurn veginn beint upp í himininn. Þarna var töluverður þakleki og skúringafötur og vaskaföt stóðu á hernaðarlega mikilvægum stöðum … Það var náttúrulega Arnfinnur skólastjóri sem hafði bjargað húsnæðismálum föður míns.

Þráinn Bertelsson: einhvers konar ég bls. 72

 

Leiksvæðið fyrir utan fylltist af krökkum og það var farið í eltingaleik og snúsnú og sumar stelpurnar notuðu hvert tækifæri til að fara í bimbirimbirimbam. Strákarnir flykktust niður á grasbalann fyrir neðan skólann og fóru í riddaraslag.

Þráinn Bertelsson: einhvers konar ég bls. 87.

 

1956 - 1957

LISTKYNNING Í BÍÓSALNUM

Þ. 10. apr. fór fram listkynning í 12 ára bekkjum. Kynnt var tónskáldið Árni Thorsteinsson. Kynningin fór fram í kvikmyndasal skólans. Kynnr var Þorsteinn Hannesson óperusöngvari. Jón Þórarinsson tónskáld drap á helstu æviatriðið skáldsins og lýsti æskuumhverfi þess. Guðm. Jónsson söngvari söng lög eftir skáldið. Fritz Weisshappel lék undir á píanó. Árni var sjálfur viðstaddur, ern og glaður á 87. aldursári.

Skrifað í athugasemdadálk í bekkjarkladda 12 ára B skólaárið 1956-’57. Ársæll Sigurðsson.

 

1957-1958   NÝSITÆKNIN – BÍÓSÝNINGAR                                                            

Skólavörubúðin tekur til starfa. Svonefnd nýsitækni kemur til sögunnar um þetta leyti með þremur tækniundrum: Segulböndum, skuggamyndum (skyggnum) og kvikmyndum. Fræðslumyndasafn ríkisins stofnað 1961. Vegur myndmáls eykst í skólakerfinu. Fyrsta litprentaða kennslubókin, hin gamalreynda Gagn og gaman kemur út í nýrri útgáfu 1958. Árið 1962 kemur út Landabréfabók, sem þótti afar eigulegur gripur. Árið 1964 komu Skólaljóð út í vandaðri útgáfu en menn áttu að venjast.

 

                                  

 

Síðustu tuttugu og fimm árin, eða með tilkomu útvarps og tónkvikmynda, hefur farið fram hægfara bylting í fræðsluaðferðum og útbreiðslu þekkingar í þágu almennings. Byltingin er fólgin í því, að fræðslutjáningin orkar nú á sjón eða heyrn og jafnvel hvort tveggja í senn. Áður mátti segja, að öll fræðsla byggðist á bókum, og bókhneigð var metin dýrmætasta dyggð. Forráðamenn æðri menntastofnana eru jafnvel enn tregir til að líta upp úr bókunum. Hæfni til víðsýni hefur hrakað við einbeitingu að lestri og skrift. Sízt skal þó lasta bækur og bókaramennt, sem var og er og mun verða einn helzti máttarstólpi fræðslu og þekkingar. En jafnframt ber að fagna og njóta þess, að nú renna fleiri stoðir undir musterið; fleiri svalalindir við fróðleiksþorsta hafa fundizt.

Magnús Jóhannsson: Fræðslukvikmyndir og segulhljóðritun. Sérprentun úr Iðnaðarmálum, 1. hefti 1956. Magnús var útvarpsvirkjameistari og stöðvarvörður við Útvarpsstöðina á Vatnsendahæð á árunum 1933-1943. Þá stofnaði hann (árið 1943) ásamt Sveinbirni Egilssyni útvarpsvirkjameistara Radíó- og raftækjastofuna að Óðinsgötu 2.

 

Stundum eru skóladagar, sem líða við lestur, skrift og reikning, brotnir upp með bíósýningu í bíósalnum fína í suðurálmu skólans. Sá sem sýnir bíó er Sigurður hó! eins og börnin kalla hann, frægur fyrir að vera faðir andanna við Tjörnina, hefur eftirlit með fuglalífinu þar á sumrin. Sigurður segir hó! þegar hann vill þögn í bíósalnum. Hóar þá smalinn og rekur á ból, hann rekur upp gleðihljóðið hó! hljóð smalans. Hóið hans þýðir hættið að kjafta, hann er að hóa litla fólkinu saman í þögla hjörð er opni vitund sína og meðtaki fræðandi bíómynd. Þau eru þæg og heilluð, svo mikill ljómi er yfir því á þessum árum að fá að horfa á bíó þótt myndirnar séu margar hroðalega lélegar með óhljóði. Sigurður talar sjálfur með fræðslumyndunum

Þórunn Valdimarsdóttir – Megas: Sól í Norðurmýri. Píslarsaga úr Austurbæ bls. 163.

 

FARFUGLAHEIMILIÐ OG SUMARIÐ 1958

Sumarið 1958 var ég farfuglamamma og passaði farfuglaheimilið í gamla Austurbæjarbarnaskólanum til skiptis við Helgu Þórarins og Steina farfugl. Ég var auðvitað í vinnunni líka, en fór í hádeginu og á kvöldin upp eftir til að taka á móti gestum, spjalla við þá og leiðbeina, taka við greiðslu og laga til. Þórarinn Sveinsson pabbi Helgu opnaði alltaf eldsnemma á morgnana fyrir gestunum, strákunum liggur mér við að segja, en fáar stúlkur voru á ferðinni alla þessa leið til Íslands. Svo voru gestirnir læstir inni á kvöldin kl. 22, en sú regla var alls staðar í gildi, þar sem ég gisti seinna á farfuglaheimilum. Auvita var lykill þar inni, en í litlum glerskáp og varð að brjóta glerið til að ná honum. Ekki man ég eftir að það gerðist.

Farfuglaheimilið var í norðurálmu gamla skólans og samanstóð af breiðum gangi og tveimur skólastofum, sem voru svefnpláss fyrir hvort kynið og voru þar margir hermannabeddar, járnrúm með gormum og dýnu, afar léleg. Eldunargræjur voru á ganginum og skolvaskur og stórt baðherbergi þar hjá. Engin þægindi af neinu tagi, koddar né handklæði eða slíkt.

Guðrún L. Ásgeirsdóttir: Á meðan ég man - atburðir ævi minnar.

Fyrsta bindi bls. 57. Reykjavík 2015.

 

KVIKMYNDASÝNINGAR Í BÍÓSALNUM 1956-1957


 Stundaskrá fyrir Biósalinn. Kennararnir Sigurður Runólfsson, Skúli Guðmundsson og Bjarni Bjarnason sjá um sýningarnar.

Sex til sjö bekkjardeildir safnast saman í salinn hverju sinni, svo það hefur verið "þröngt setinn Svarfaðardalurinn".

Samkvæmt bekkjarlistum er gert ráð fyrir 205 nemendum á mánudögum kl. 1 e.h. 

 

 

 

SIGURINGI E. HJÖRLEIFSSON

 

Siguringi E. Hjörleifsson kennari við skólann er einnig tónskáld og listmálari.

 

1958-1959   NEMENDAFJÖLDINN

NEMENDAFJÖLDI 13. nóvember:                   

Sex 7 ára deildir,                                        154 nemendur.

Sex 8 ára deildir,                                        154 nemendur.

Tíu 9 ára deildir,                                        280 nemendur.

Tíu 10 ára deildir,                                      286 nemendur.

Ellefu 11 ára deildir,                                 303 nemendur.

Tólf 12 ára deildir,                                     291 nemandi.

Fimmtíu og þrjár deildir,                         1.488 nemendur.

 

1959 – 1960           

1.277 nemendur, þar af 100 úr Blesugrófinni. Mikil frístundastarfsemi í VINNUBÓKARGERÐ undir stjórn Jóns Þórðarsonar eftir hádegi fyrir 9 – 12 ára börn. SÝNING AÐ VORI VEGNA 30 ÁRA AFMÆLIS SKÓLANS, sem útskrifað hefur 7060 börn.

7100 BÖRN Á 30 ÁRUM

AUSTURBÆJARSKÓLINN hefur starfað í 30 ár um þessar mundir. Í því tilefni opnar skólinn í dag umfangsmeiri sýningu á vinnu nemenda en nokkru sinni fyrr. Skólastjórinn, Arnfinnur Jónsson, sýndi blaðamönnum hana í gær og skýrði jafnframt stuttlega frá sögu skólans.

Austurbæjarskólinn tók til starfa haustið 1929 í sínum núverandi húsakynnum, sem þá voru ætluð fyrir 600 börn í einsettar stofur. Skólabyggingin þótti mikið mannvirki á sínum tíma og var arkitekt hennar Sigurður Guðmundsson. Skólastjóri fyrstu 15 árin var Sigurður Thorlacius.

Fljótlega urðu mikil þrengsli í skólanum. Þegar flest var skólaárið 1939-1940 voru 1874 nemendur í fjórsettum stofum. Í ár eru um 1300 börn í skólanum í þrísettum stofum. Alls hafa verið útskrifuð frá Austurbæjarskólanum um 7100 börn í þessi þrjátíu ár. Nokkuð hefur rýmkað til nú vegna nýrra skóla og þess, að unga fólkið stofnar til heimilis í nýju hverfunum. 

Austurbæjarskólinn hefur litla sundlaug. Þar hafa allir nemendur skólans og eins Miðbæjarskólans lært sund. Austurbæjarskólinn tók fljótlega upp þá nýjung að hafa vinnubókarkennslu. Í vetur hefur meiri áherzla verið lögð á þennan þátt kennslunnar en nokkru sinni fyrr. Jón Þórðarson kennari hefur borið hitann og þungann af þessu starfi. Hann sýndi blaðamönnum í gær vinnubækur sem verða á sýningunni, og eru þær margar listilega gerðar. 

Í dag, laugardag, hefst sýning á smíðisgripum drengja, handavinnu stúlkna, teikningum og vinnubókum. Sýningin verður opnuð klukkan 3 síðdegis og stendur til klukkan 7. Á sunnudaginn er sýningin opin frá kl. 10 til 12 árdegis og 2 til 10 síðdegis.

Skólastjóri Austurbæjarskólans er Arnfinnur Jónsson, sem fyrr segir. Yfirkennari er Jónas Jósteinsson. Um 300 börn útskrifast úr skólanum nú í vor.

 

Alþýðublaðið 28 maí 1960.

 

EFTIRMINNILEGT FÓLK

 

                          

 

JÓN ÞÓRÐARSON

Barnakennarinn lifir sjálfstæðri tilvist í norðurálmunni í skólanum með litla bókasafnið sitt. Hann er einn af þeim kennurum þessa framsækna skóla sem stundum eru nefndir bestu kennararnir, og hann er frumkvöðull í gerð vinnubóka. Þegar píslin sest á skólabekk hefur faðir hans kennt á annan áratug í Austurbæjarskóla. Hann fær yfirleitt góða nemendur í bekkinn sinn … Hann ætlast til að fá algjört hljóð þegar hann vill koma einhverju til skila, vill að börnin séu til friðs og veitir þeim frelsi sem umbun. Allir finna til samábyrgðar. Þegar frjálsir tímar eru hegða allir sér vel, sælir yfir sínu viðfangsefni, þótt hann bregði sér frá. Þau gera vinnubækur í samvinnu. Kennarinn efnir til samkeppni um titilblað á vinnubókum bekkjarins og sonurinn vinnur oftar en ekki. Í bekknum eru þó einn eða tveir aðrir teiknisnillingar.                                                     

…Þeir feðgar hafa oftlega viðdvöl á kennarastofunni þau ár sem faðir hans tekur hann með sér í skóla. Með árunum hefur kennarinn æ lengri viðdvöl í skólanum. Hann lifir í þessu húsi, lifir þessu ferkantaða svarta völundarhúsi með endalausum göngum, dyrum inn í ekkert, tröppum sem eru sjónhverfing og snúa bæði upp og niður, og hyldýpisporti í miðjunni. Og eftir situr í syninum heimilislegur framandleiki.

Þórunn Valdimarsdóttir – Megas: Sól í Norðurmýri. Píslarsaga úr Austurbæ bls. 178 -179.

 

                               

 Magnús Þór Jónsson, Megas er sonur Jóns Þórðarsonar.

 

VALGERÐUR BRIEM

í Austurbæjarskólanum voru frá upphafi sérhannaðar handmennta- og raungreinastofur. Teiknistofan er stór og björt með stórum teikniborðum, vöskum, hillum og skápum. Þar var Valgerður í ríki sínu. Hún á snaran þátt í því hver myndlist hefur skipað veglegan sess í skólanum. Reyndar hafði hún mótandi áhrif á mynd- og handmenntakennslu á öllu landinu. Hún vann ötullega að því á breiðum vettvangi að gera fólki ljóst mikilvægi þessara námsgreina. Á kennarastofunni sópaði að henni. Hún var fögur kona og glæsileg. Ævinlega fallega klædd, hafði sinn stíl. Oft með áberandi skartgripi. Hún stendur mér ljóslifandi fyrir sjónum á miðju gólfi, klædd dökkum vel sniðnum síðbuxum, með kaffibolla í annarri hendi, gerir létta sveiflu með hinni svo hringlar í dökku perlunum á festinni sem er vafið um úlnliðinn. Hún er að stæla við vin sinn og skólabróður úr kennaraskólanum, Stefán Jónsson, sem hún kallar Stebba. Þegar hún sest segi ég við Stefán, sem sat hjá mér í kaffitímanum. „Hún er flott!“ „Flott, hún Valgerður,“ segir hann. „Þegar ég sá hana í Kennaraskólanum trúði ég ekki mínum eigin augum. Hef aldrei séð fallegri stúlku.“ Skömmu seinna kom yngsta kennslukonan í síðbuxum í skólann, það var bylur. Jónas Jósteinsson yfirkennari kallaði hana inn á skrifstofu, og benti henni á að kennarar ættu að vera snyrtilega og siðsamlega klæddir, konur í pilsi eða kjól. Hún ætlaði að malda í móinn, en Jónas sagði hneykslaður: „Ætlið þið stelpurnar að jafna ykkur við hana Valgerði?“

Vilborg Dagbjartsdóttir: Minningargrein um Valgerði Briem Mbl. 29.06.2002.

 

                   

Valgerður Briem árið 1949.

 

     

Mynd eftir nemanda Valgerðar Briem, Aðalheiði Birnu Gunnarsdóttur.

 

 

 Valgerður Briem við kennslu árið 1961.

 

Klippimynd eftir Aðalheiði Birnu Gunnarsdóttur, nemanda Valgerðar Briem.

 

ÞRJÚ SYSTKINI FRÁ MIKLAHOLTI á Snæfellsnesi hafa öll kennt við skólann. Þórður Magnússon, Guðriður Magnúsdóttir og Sigurður Magnússon. Eiginmaður Guðríðar, Róbert Abraham Ottóson, tónlistarfrömuður, kemur stundum í heimsókn í bekk konu sinnar og lætur börnin syngja. Þannig læra þau ljóðin sín best. Stundum mæta þau hjónin með erlenda gesti á kvöldskemmtanir á kennarastofunni. Eftir því er munað. Sigurður gerist rannsóknarlögreglumaður og síðar blaðafulltrúi Loftleiða. Ekki er ósennilegt, að hann eigi hugmyndina að þvi að dreifa stundaskrá merkta Loftleiðum til íslenskra skólabarna. 

 

 Stundaskrá Loftleiða er dreift í barnaskóla á 6. og 7. áratugnum.

 

 

Fylgibréf frá Loftleiðum með stundarskrám skólaársins 1956-57 undirritað af Sigurði Magnússyni.

 

VALGEIR PÁLSSON er húsvörður og býr í húsvarðaíbúðinni ásamt Önnu, konu sinni og börnum.

Seinna stendur telpan við hlið hljóðfærisins á langa-gangi. Maðurinn spilar lögin sem hún þekkir svo vel og hann kennir henni að syngja. Hann á það til að bregða á leik, stef meistaranna, ballöður og rússnesk þjóðlög verða að einu í bland við Dalakofann og aðra valsa. Telpan hlustar og unir sér vel. Hann hefur yndi af tónlist, lærði ungur að spila og nýtur þess að hverfa frá amstri dagsins stundarkorn og gleyma sér.                                                                                                  Húsið sem maðurinn og fjölskylda hans býr í er vinnustaður hans og afar stórt. Ranghalar og skúmaskot hvarvetna en nauðsynlegt er að fara kvöldgöngur um húsið til að athuga að allt sé í stakasta lagi, allir gluggar lokaðir og hurðir læstar. Gangan tekur um klukkustund og er gjarnan talað um að „fara hringinn“. Telpan fer stundum með, fær að halda á kippu sem geymir að annan tug lykla, maðurinn sjálfur með aðra eins en vefur kippuna í klút áður en hann setur hana í vasann því lyklarnir eiga það til að gera göt á hann. Telpan er hrædd við myrkrið í stóra húsinu, en hann hughreystir hana og róar … það er allt í lagi.

Stefanía Valgeirsdóttir: Valgeir Matthías Pálsson, minningarorð, Morgunblaðið 10.01.2004 bls. 40.

 

Valgeir Pálsson húsvörður, Kristján Eiríksson gangavörður, kallaður "afi" ásamt nemendum. Myndin er tekin á     stríðsárunum  og hlerar fyrir gluggum.

 

Austurbæjarskólinn með ærsl sín og læti. Vettvangur bernskuminninganna. Minninga þar sem Valgeir Pálsson skipar heiðurssess ásamt öðrum sem svo ljúft er að minnast. Frá því ég var lítil hnáta skokkaði um gangana sé ég þá Valgeir, Ragnar föður minn, Jóhannes Kolbeinsson og Eyjólf Eyfells spjallandi og hlæjandi á neðri ganginum við ofninn. Þar voru þjóðmálin rædd, heimsvandinn leystur, íþróttirnar krufðar eða bara óskapast yfir einhverju. En alltaf var glensið og grínið skammt undan. Svo lölluðu þeir Jóhannes og Eyjólfur upp á efstu hæðina til sinna smíða og lista en pabbi og Valgeir héldu til sinna starfa. Pabbi í böðin og Valgeir sá um gangavörsluna og síðar húsvörsluna. Í árdaga sat svo Kristján „afi“ við útidyrnar niðri og ekki var nú síður spjallað og spáð þar. Valgeir og pabbi voru samstarfsmenn hátt í 40 ár og aldrei held ég hafi farið styggðaryrði þeirra á milli. Pabbi með sína léttu lund og Valgeir með sína einstöku hógværð, mjúku, lágværu rödd og fáguðu framkomu, voru gott tvíeyki í þeirri merku, öldnu en síungu stofnun sem Austurbæjarskólinn er. Á mínum uppvaxtarárum var þar heilt samfélag, þar bjuggu margar fjölskyldur, þar var stórt skólaeldhús, smíðastofa, sundlaug, ljósastofa, læknastofa og fullkominn bíósalur. Hvergi gat að líta aðra eins fyrirhyggju og í byggingu Austurbæjarskólans. Það var því ekkert smástarf sem beið Valgeirs þegar hann tók við húsvörslunni þar en allt leysti hann af hendi með einstakri trúmennsku og lipurð.                                                                                                                                         Í Austurbæjarskólanum leið starfsfólkinu vel undir stjórn Valgeirs. Skúringakonurnar unnu þar árum og jafnvel áratugum saman. Mannlífið var gott og frjótt. Ég minnist m.a. bókaklúbbs sem mamma stofnaði, þar sem skúringakonurnar hittust mánaðarlega og lásu upp úr bókmenntaverkum hver fyrir aðra eðafluttu ljóðin sín. Og ljúft er að minnast sólríku sumardagana þegar öll fínu húsgögnin af kennarastofunni voru borin út í portið og allt þrifið hátt og lágt. Aldrei vorum við krakkarnir fyrir, alltaf fengum við að vera með. Og margan mjólkursopann og kleinurnar og meðlætið fékk maður hjá Önnu í litlu húsvarðaríbúðinni þeirra. Alltaf stóð Anna við hlið hans, glæsileg og hress, ræðin og skemmtileg. Hún stjórnaði heimilinu af skörungsskap, Valgeir hummaði og samþykkti. Það var enginn hávaði þar.

Guðfinna Ragnarsdóttir: Valgeir Matthías Pálsson, minningarorð.

Morgunblaðið 10.01.2004 bls. 40.

 

Arnfinnur Jónsson skólastjóri, Jónas Jósteinsson yfirkennari, Sæmundur Jónasson, Valgerður Briem kennari og Valgeir Pálsson húsvörður.

 

ARNFINNUR JÓNSSON SKÓLASTJÓRI 

Á hinum langa ferli Arnfinns sem skólamanns, í rúm 40 ár, voru þrjú einkenni augljós i fari hans: háttvísi, hógværð og góðvild. Bak við hógværð hans í orðum og framkomu allri var einhver dulinn styrkur, það var eins og eitthvað lægi ósagt á tungunni, sem þó mátti lesa i augum hans og skynja af viðbrögðum hans. Þegar hann gekk um portið í hinum fjölmenna skóla í frímínútum, þar sem börnin voru i leik og ærslum, var það segin saga, að hópur þeirra hljóp til hans og þau gengu með honum fram og aftur, fjögur til sex til hvorrar handar. Það mátti ætla að i þessum tilvikum kæmi fram ísmeygileg árátta barnanna að koma sér i mjúkinn hjá yfirmanni skólans. Svo mun þó ekki hafa verið að neinu ráði. Þau vildu einungis vera i návist hans, því að það lagði frá honum yl hjartans. Og allt frá þeim ljúfa þela, sem hann bar i brjósti, varð vinátta milli hans og barnanna fölskvalaus.

Gunnar M. Magnúss: Minningargrein í Þjóðviljanum 1. apríl 1973.

 

GREIPUR SVEINSSON

Og í kennaraliði skólans voru allskyns snillingar … en mest lotning var þó borin fyrir gangaverðinum sem hét Greipur. Hann var vinsæll af börnunum, stór, glaður og góður kall; var alltaf með hendur fyrir aftan bak, klæddur ullarjakka með olnbogabótum; hann rigsaði um ganga skólans með camel í munnvikinu og var geysilega hávær og töff og stundum sýndi hann ungum lærisveinum trix með sígarettuna; án þess mannshöndin kæmi þar nærri snerist sígarettan á milli varanna þannig að skyndilega vísaði glóðin inn en strókurinn stóð út um hinn endann og svo varð önnur kollsteypa og enn á ný sneri glóðin út eins og ekkert hefði í skorist og allir drengir sem einhvern metnað höfðu fundu í hjarta sínu að þeir skyldu sko reykja þegar þeir yrðu stærri.

Einar Kárason: KK Þangað sem vindurinn blæs bls. 58.

 

1960 - 1961

 

29. nóv. 1960

 

Austurbæjarskólinn hefur fengið neðantaldar eftirprentanir frá Reykjavíkurbæ:

Blóm eftir Ásgrílm Jónsson.

Telpur í boltaleik eftir Þorvald Skúlason.

Matarhlé eftir Gunnlaug Scheving.

Stóðhestar eftir Gunnlaug Scheving.

Afstrakt málverk eftir Þorvald Skúlason og 

 Sjöundi dagur í Paradís eftir Guðmund. Thorst. (Mugg)

Allar myndirnar eru staðsettar á göngum skólans.

                                                      Skólastjóri.

 

STARFSFÓLK 1961 - 1962

 

1. röð frá vinstri:

Svana Jónsdóttir ljósakona; Sigríður Kjartansdóttir kaffikona; Steinunn Jónsdóttir, 

ræsting; Vigdís Sigurðardóttir, ræsting; Ósk Guðfinnsdóttir, ræsting; Kristín

Einarsdóttir, ræsting; Ósk Guðmundsdóttir, ræsting; Halldóra Pálsdóttir, ræsting; 

Anna Baldursdóttir, ræsting; Valgerður Bogadóttir, ræsting.

2. röð frá vinstri:

Fanný Kjartansdóttir, ræsting; Guðrún Árnadóttir hjúkrunarkona; Þórveig Axfjörð 

baðvörður; Ásta Jónsdóttir baðvörður; Margrét Jónsdóttir, ræsting; Kristbjörg 

Stefánsdóttir, ræsting; Björg Guðfinnsdóttir, ræsting; Soffía Kristjánsdóttir, ræsting; 

Svava Pétursdóttir, ræsting; Jóna Sigurjónsdóttir, ræsting.

3. röð frá vinstri:

Óskar Bjarnason dyravörður; Ragnar Sv. Jónsson baðvörður; Jón Magnússon 

dyravörður; Valgeir M. Pálsson húsvörður; Jóhannes Kolbeinsson smiður; Elís 

Greipur Sveinsson dyravörður.

 

Jóhannes Kolbeinsson smiður skólans og tveir gamlir starfsmenn, Emil Tómasson og Kristján Eiríksson kallaður "afi". Reykvísk skólabörn tóku eftir örlitlu flámæli Jóhannesar. Þá varð til þessi húsgangur:

                                                  Sannlega, sannlega segi ég "eður",            

                                                  Hann Jóhannes, hann er "smeður".

 

 

1961-1962   FARFUGLAHEIMILI Í AUSTURBÆJARSKÓLA

Bréf frá formanni Bandalags íslenskra farfugla til fræðslufulltrúa Reykjavíkur, Jónasar  B. Jónssonar:

 

                                                                                                                                       Reykjavík 1. apríl 1962

Eins og undanfarin ár höfum við rætt við skólastjóra og húsvörð Austurbæjarbarnaskólans, um afnot af húsnæði í skólanum fyrir gistiheimili farfugla í sumar. Þeir hafa tekið málaleitan okkar mjög vel, og fallist á að leyfa afnot af því sama húsnæði, sem við höfum haft þar undanfarin ár, og auk þess herbergi fyrir heimilisvörð. Auk fyrrnefnds húsnæðis hafa Farfuglar nú sérstakan áhuga fyrir að fá til afnota, herbergi á efstu hæð skólans til gistingar fyrir kvenfólk, því reynslan hefur sýnt að oft hafa tveir til þrír kvenmenn bundið heila stofu á neðstu hæðinni, þó hvergi hafi verið hægt að koma karlmönnum fyrir. Einnig höfum við mikinn áhuga fyrir að fá til afnota einhvern hluta af eldhúsi skólans. Það skal að lokum tekið fram að svefnsalir eru algjörlega lokaðir frá kl. 10 að morgni til kl. 7 að kvöldi, og eldhúsið ef til kæmi yrði aðeins opið undir umsjá heimilisvarðar.

                                                                                                                                                                                                                                                           

                                                                                               Virðingarfyllst

                                                                                               Ragnar Guðmundsson

                                                                                               formaður.

                            .

 

SPARIFJÁRSÖFNUN SKÓLABARNA

                         

                         

 

Öllum 7 ára börnum gaf Seðlabankinn eins og áður 10 krónur til að opna sparisjóðsreikning. ... Sparimerki voru til sölu í 7-9 ára deildum hjá 133 kennurum og nam salan kr. 194.843,00, sem er 30.240,00 kr. eða 18,4% meira en fyrra ár. ...

"Markmiðið með sparimerkjasölu í skólunum er fyrst og fremst að gefa skólum og heimilum tilefni og tækifæri til ræða við börnin um verðmæti og ráðdeild, og jafnframt að stuðla að því, að þau venjist á að nota peninga hyggilega, m.a. að leggja fé til hliðar, þegar þau eiga það aflögu, en sóa því ekki. Vaninn er ríkur: Hvað ungur nemur, sér gamall temur. 

Guðjón Jónsson Sparifjársöfnun skólabarna, Skólaskýrsla barna- og gagnfræðaskóla Reykjavíkur skólaárið 1964-1965.      bls. 69-70. Fræðsluskrifstofa Reykjavíkur gaf út.    

 

                     

  

 

1963 -1964 GAGNFRÆÐASTIG HEFUR GÖNGU SÍNA Í AUSTURBÆJARSKÓLANU

 156 nemendur, börn fædd árið 1950 hefja nám í 1. bekk "gaggó" í Austurbæjarskóla.

Hér er örstutt yfirlit um nám á gagnfræðastigi í Reykjavík fram að því:

Gagnfræðaskóli Austurbæjar

Haustið 1928 tók til starfa Ungmennaskólinn í Reykjavík. Var hann til húsa í Stýrimannaskólanum við Öldugötu. Árið 1930 varð skólinn gagnfræðaskóli og nefndist Gagnfræðaskólinn í Reykjavík. Var hann þá fluttur í húsakynni Kennaraskóla Íslands. Haustið 1935 var skólinn fluttur í húsið nr. 51 við Lindargötu (áður Franski spítalinn) og hafði síðar nokkrar stofur á leigu í Sjómannaskólanum. Þetta húsnæði hafði hann fram til ársins 1948, er hann tók til starfa í hinu nýreista skólahúsi við Barónsstíg. Samkvæmt samþykkt fræðsluráðs var nafni skólans breytt haustið 1949 og nefnist hann síðan Gagnfræðaskóli Austurbæjar.

Gagnfræðaskóli Vesturbæjar

Árið 1928 stofnuðu nokkrir einstaklingar gagnfræðaskóla, er nefndur var Gagnfræðaskóli Reykvíkinga. Var hann að mestu sniðinn eftir gagnfræðadeild Menntaskólans í Reykjavík. Nemendur greiddu skólagjöld, en skólinn naut frá byrjun styrks frá bæjarsjóði og síðar einnig úr ríkissjóði. Haustið 1947 var skólinn gerður að ríkisskóla. Skólinn var til húsa í Iðnskólanum við Vonarstræti allt fram til haustsins 1945, er hann var fluttur í Stýrimannaskólann við Öldugötu. Nafni skólans var breytt 1948, og heitir hann síðan Gagnfræðaskóli Vesturbæjar.

Gagnfræðaskóli verknáms

Skólinn tók til starfa haustið 1951. Var hann til húsa í tveimur stöðum, í þakhæð Austurbæjarskólans og í leiguhúsnæði í húsinu við Hringbraut 121. Í ársbyrjun 1955 fékk skólinn til afnota leighúsnæði í nýju húsi, Brautarholti 18, sem var sérstaklega innréttað fyrir skólann.

Gagnfræðaskólinn við Hringbraut

Skólinn tók til starfa haustið 1949 í nýju leiguhúsnæði, Hringbraut 121. Innrétting húsnæðisins var miðuð við þarfir skólans.

Gagnfræðaskólinn við Lindargötu

Skólinn tók til starfa haustið 1949. Er hann til húsa í Lindargötu 51, þar sem Gagnfræðaskólinn í Reykjavík var áður.

Gagnfræðaskólinn við Réttarholtsveg

Skólinn tók til starfa í nóvember 1956 í nýju félagsheimili, er knattspyrnufélagið Víkingur hafði reist við Réttarholtsveg. Húsið var innréttað með tilliti til þess, að þar yrði skóli. Byrjað var á byggingu skólahúss fyrir þennan skóla í mars 1957, sömuleiðis við Réttarholtsveg. Áformað er, að hægt verði að taka í notkun fyrsta áfanga byggingarinnar, 8 kennslustofur, haustið 1957, og flytur þá skólinn úr Víkingsheimilinu.

Gagnfræðaskólinn við Vonarstræti

Haustið 1955 var stofnaður svonefndur "landsprófsskóli" í Reykjavík, þar sem einungis er kennt 3. bekk gagnfræðastigs, og voru um leið lagðar niður landsprófsdeildir við aðra gagnfræðaskóla í bænum. Skólinn fékk til afnota húsið við Vonarstræti, þar sem Iðnskólinn hafði áður verið.

Kvennaskólinn í Reykjavík

Skólinn var stofnaður 1874. Var hann fyrst einkaskóli, en naut síðar styrks frá bæ og ríki. Skólinn var lengi til húsa í Thorvaldsensstræti 2, en flutti árið 1909 í nýtt hús við Fríkirkjuveg. Frá því haustið 1947 hefur skólinn verið gagnfræðaskóli, kostaður af ríki og Reykjavíkurbæ. Við skólann er sérstök skólanefnd, en þó heyrir starfsemi hans undir fræðsluráð Reykjavíkur.

Heimild: Skólaskýrsla. Barna- og gagnfræðaskólar Reykjavíkurbæjar. Skólaárið 1956-57 bls. 9-10.

  

AUSTURBÆJARSKÓLINN - KENNSLA HEFST Á GAGNFRÆÐASTIGI - FJÖLDI NEMENDA  1.031

Nú eru 1.031 nemendur í Austurbæjarskólanum, þar af 155 úr ÁLFTAMÝRARHVERFINU. 33 fastráðnir kennarar starfa við skólann. Karlar eru 22 en konur 11 talsins. Stundakennarar eru 5, þar af 3 karlar en 2 konur.

Fyrsti bekkur gagnfræðastigs hefur göngu sína.

  Austo_edited.jpg

Vorferð gagnfræðadeildarinnar. Myndin er tekin undir Hafnarfjalli. Talið frá vinstri: Björn Birnir, Jón Marteinsson, Alfreð Eyjólfsson, Arnfinnur Jónsson, kona sem ekki hefur enn tekist að bera kennsl á og Ingimar Ingimarsson bílstjóri. Myndasmiður: Guðni Albert Jóhannesson, f. 1951.

 

 

 

SIGURSVEINN D. KRISTINSSON

                                                                                                                                      Reykjavík, 26. maí 1964

Til skólastjóra Austurbæjarskólans.

Eins og þér er kunnugt hafði Sigursveinn D. Kristinsson þriggja mánaða námskeið í blokkflautuleik og nótnalestri fyrir 8 ára F í vetur. Námskeið þetta fór fram á kennslutíma þannig að í öðrum tímanum á stundaskrá höfum við mætt hjá Sigursveini niðri í söngstofu, í fyrstu allur bekkurinn í einu, en er á leið kom fram töluverður munur í námi og færni einstaklinganna og var bekknum þá oftast skipt i tvo hópa.

Þessi skipting notaðist mjög vel þar sem það gaf mér um leið tækifæri til að hjálpa þeim sérstaklega sem á einhvern hátt drógust aftur úr eða áttu í öðrum erfiðleikum með nám. 

Eg hef veitt því sérstaka athygli hve mjög það hefur gert allt nám léttara fyrir börnunum að hvíla sig þannig og rjúfa bóknámstímana með því að fara í svo ólíkt nám. Þau hafa komið aftur glöð og hress og full af áhuga á næsta verkefni og síðan unnið sem tvíelfd. Eg tel þannig að sá tími er fór í námskeiðið og það nám, sem þar fór fram hafi mjög létt undir og aukið árangur þeirra í öðru námi. Virðist mér þessi reynsla styðja mjög þá skoðun mína að bóknám eigi ekki að vera svo samfellt sem nú er, heldur ætti að fella aukafögin þannig inn í stundaskrána að þau yrðu um leið til hvíldar og tilbreytni fyrir nemandann.

Af 29 nemendum í 8 ára F voru 25 skráðir á námskeiðið en fjögur fengu ekki leyfi heima hjá sér til þátttöku þó þau virtust hafa löngun og vilja til þess. Þau sátu samt alla tíma og lærðu nótnalestur og luku prófi í því. Var öllum afhent prófskírteini frá Sigursveini er sýndi bæði árangur þeirra og ástundun (tvær einkunnir).

Eg vil sérstaklega geta þess að allt samstarf við Sigursvein D. Kristinsson var með ágætum og öll börnin dáðu hann og virtu. Það kom og fram nú við skólaslit að bekkurinn óskaði mjög eindregið eftir því að fá að halda áfram músiknámi á næsta vetri ef nokkur möguleiki yrði á að geta samræmt það skóladeginum á líkan hátt og var í vetur.

                                                                                                                                         Pétur Sumarliðason

Í sambandi við söngkennsluna tók Sigursveinn D. Kristinsson upp það nýmæli, að gefa öllum 8 ára börnum, sem þess óskuðu, kost á námskeiði í blokkflautuleik og nótnalestri. Mörg börn notfærðu sér þetta, og í einum 8 ára bekk fengu 25 af 29 börnum að kaupa blokkflautu, en þau 4, sem eftir voru, tóku þátt í kennslustundunum og lærðu nótnalestur. Þessi kennsla gaf mjög góða raun, og er æskilegt að halda henni áfram og efla hana, t.d. með því að kaupa handa skólanum nokkur blásturshljóðfæri fyrir börn.

Skólaskýrsla. Barna- og gagnfræðaskólar Reykjavíkur skólaárið 1963-1964 bls. 57.

Eitt af því sem Sigursveinn fær siðar áorkað í Austurbæjarskólanum (haustið 1968) er að fá Jóhannes úr Kötlum til að yrkja fyrir nemendur skólans nokkur erindi við ljóðið Hátíð fer að höndum ein, sem einungis var ein vísa. Sigursveinn útsetti síðan lagið sem keðjusöng í fimmundum.  

                                                                                                           Munnleg heimild: Sigursveinn D. Kristinsson.

 

 

                                               

 Námsbækur frá sjöunda áratugnum. 

 

1964-1965 FÆKKUN VEGNA TILKOMU ÁLFTAMÝRARSKÓLANS - FJÖLDI NEMENDA 826

Frá 5. nóvember fær 6. bekkur DANSKENNSLU, eina stund á viku. Heiðar Ástvaldsson annast kennsluna.

 

 20. janúar hafa kennarar 1. og 2. bekkja viðtalstíma fyrir aðstandendur barnanna í stað miðsvetrarprófs. Við lok skólaársins eru 826 börn í skólanum. Er það 205 börnum færra en á síðasta skólaári. Langflest hinna brottfluttu eru úr hverfi ÁLFTAMÝRARSKÓLANS. „Situr þá Austurbæjarskólinn eftir með hálf tómar bekkjardeildir, með svo ósamstæðum nemendum, að meðaltal nemenda í sumum deildunum er óeðlilega lágt“, eins og segir í skólahaldsskýrslu.

  

 

Á ÞEIM 35 ÁRUM SEM

AUSTURBÆJARSKÓLINN HEFUR STARFAÐ,

HEFUR HANN ÚTSKRIFAÐ

8030 BÖRN

(BARNA- OG FULLNAÐARPRÓF).