- Hits: 522
Á vorönn árið 2000 komu þrír listamenn til starfa við Austurbæjarskólann á vegum menningarborgarinnar M 2000. Meðal þeirra var Þórður Helgason, rithöfundur. Afraksturinn af vinnu hans með nemendum unglingadeildar var ljóðabókin Ljóð 2000. Hér fara nokkur sýnishorn úr bókinni:
KENNARAR
Ég elska kennarana mína
Nínu og Guðrúnu
af því að þær kenna mér
að lesa og skrifa á íslensku.
Ég fer aftur til Kosovo
en ég gleymi aldrei
kennurunum mínum
Nínu og Guðrúnu.
Labinota Morina
SKÓLI
I
Á vetrardegi
í myrkri og kulda
má heyra
barnahróp
og barnahlaup
óma um tóma ganga.
Lærdómur og viska fylla
alla
þessa
löngu
löngu
ganga
Kennarar með harðri hendi
leiða börnin inn í
ljós viskunnar
og þau ljóma.
II
Þakka þér fyrir visku þína.
Þakka þér fyrir bækur þínar.
Þakka þér fyrir orð þin.
Þakka þér fyrir framtíð mína.
Berglind Ósk Einarsdóttir
MYND
Ég horfi á mynd af þér
þar sem þú heldur á mér í fanginu.
Allt í einu finn ég lyktina af þér
heyri rödd þína
og man staðinn þar sem þú geymdir
nammipokann.
Sigrún Þorsteinsdóttir
AFI
Ég þekkti þig aldrei.
Samt finnst mér eins og
þú kannist við mig.
Þegar ég dey
óska ég þess
að ég fari til þín
á himnum.
Naomi Lea Grosman
AUMINGJAR
Hverjir eru þeir? Eru það þeir sem stija og bora í
nefið og eru ekki að gera neitt? Nei, það eru
letihaugar. Eru það þeir sem eru þöglir og skipta sér
ekki af neinum meðan þeir vinna? Nei það er
einmana fólk. Eru það þeir sem stríða öðrum og
berja? Já, þeir eru aumingjar. Hinar sönnu hetjur eru
þeir sem þola það
Hafsteinn Tómas Sverrisson
ÉG
er bara ég
en ekki einhver annar
hvernig sem ég reyni
er ég bara ég
og verð.
Sölvi Karlsson
NÁTTÚRA
Hér í Reykjavík
í New York
London
París
var einu sinni náttúra
en ekki lengur.
Sölvi Karlsson
HNOÐRAR
Á sumrin eru græn tún
þakin litlum skýjahnoðrum
sem jarma.
Bryndís Helgadóttir
BLÁTT GRAS
Af hverju er himinninn blár?
Af hverju er grasið grænt?
Himinninn er blár af því að grasið er grænt.
Grasið er grænt af því að himinninn er blár.
En væri ekki gaman
ef himinninn væri grænn
og grasið blátt
allavega einn dag?
Íris Ósk Sigþórsdóttir