Print
Hits: 705

Á vordögum 2009 hófst undirbúningur að stofnun Hollvinafélags Austurbæjarskóla. Þann 6. febrúar 2010 var Hollvinafélag Austurbæjarskóla formlega stofnað, þegar nokkrir eldri kennarar og velunnarar skólans komu til kaffiboðs sem Guðmundur Sighvatsson, skólastjóri, efndi til í skólanum. Arnfinnur Jónsson var fyrsti formaður félagsins og vann mikið starf í þágu þess. Guðmundur Sighvatsson tók svo upp merki hans og var næsti formaður.

Tilgangur félagsins er að starfsrækja skólamunastofu í Austurbæjarskóla sem heldur utan um sögu skólans og varpar um leið ljósi á íslenska skólasögu. Einnig að hlúa að starfi skólans með viðburðum þess og hefðum.

Hvatinn að stofnun félagsins var sá að skólinn státar af langri og merkri sögu og í áranna rás hafa safnast margir merkilegir munir sem tengjast sögu skólans.
Það þótti því vel við hæfi að stofna formlegan hóp hollvina, sér í lagi í ljósi þess að haustið 2010 varð skólinn 80 ára.

 Mikið og gott starf hefur farið fram innan veggja þessa virðulega skólahúss,
byggingar sem reist var á erfiðum tímum en af ótrúlegum myndarskap og framsýni eins og sjá má þegar gengið um skólann. Hér hafa margir, merkir kennarar starfað og gott starfsfólk og ætíð haft heill og hamingju nemendanna í forgangi.

Fyrsta verk Hollvinafélagsins var að kaupa skápa utan um gamlar skólaminjar og gera þannig sögu skólans sýnilegri. Skáparnir voru settir upp á efri gangi. Einnig voru settar upp innrammaðar myndir frá nemendum Valgerðar Briem.
Þá voru gamlar bækur flokkaðar og farið yfir gömul kennslugögn, s.s. kort og myndaspjöld.

Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri Austurbæjarskóla, fékk Hollvinafélaginu til umráða stóra stofu í risi skólans árið 2016. Þar hefur félagið sett upp skólamunastofu, komið þar fyrir gömlum húsgögnum, myndum, kennslutækjum, bókum og ágripi af sögu skólans.

Hollvinafélag Austurbæjarskóla hefur gefið út fréttabréf og sent félagsmönnum jólakveðjur. Það hefur tekið að sér að sjá um að skipuleggja kaffiboð fyrir eldri kennara og starfsfólk skólans, einnig að sjá um eða vera með í að taka á móti hópum sem heimsækja skólann og leiðbeina þeim um skólahúsið. Skólamunastofan er til sýnis eftir samkomulagi. Á vorhátíð skólans og á Menningarnótt hefur verið opið hús í skólamunastofu.


Öllum þeim sem styðja markmið félagsins og vilja veg og virðingu Austurbæjarskólans sem mesta er frjálst að ganga í félagið, s.s. starfsmönnum, fyrrum starfsmönnum, nemendum, foreldrum og öðrum velunnurum skólans.

Árgjald til félagsins er kr. 2.000.
Þeir sem greiða árgjald hvers árs eru taldir fullgildir félagar og einungis þeir hafa atkvæðisrétt á aðalfundi félagsins.